Skip to main content
29. júní 2023

Fengu styrk úr Nehru-Grimsson sjóðnum til rannsóknardvalar á Íslandi

Fengu styrk úr Nehru-Grimsson sjóðnum til rannsóknardvalar á Íslandi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tveir ungir vísindamenn frá Indlandi hafa á vormisseri dvalið við nám í jöklavísindum við Háskóla Íslands með stuðningi Nehru-Grimsson sjóðsins. 

Þau tóku á dögunum við skjali til staðfestingar á rannsóknardvöl sinni á Íslandi úr hendi Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands, sem setti sjóðinn á fót í kjölfar þess að stjórnvöld á Indlandi veittu honum hinn þekktu Nehru-verðlaun. Nehru verðlaunin eru kennd við fyrsta forsætisráðherra Indlands, Jawaharlal Nehru, og eru helguð hugsjóninni um alþjóðlega samkennd og samvinnu. 

Nehru-Grimsson sjóðurinn gerir nemendum og ungu vísinda fólki frá Indlandi kleift að dvelja á Íslandi um hálfs árs skeið og sækja nám við Háskóla Íslands og taka þátt í rannsóknar ferðum á íslenska jökla. Á liðnum árum hefur sjóðurinn gert á annan tug nemenda kleift að sækja nám og þjálfun á Íslandi og einnig gert íslenskum jöklafræðingum kleift að fara til Indlands til kennslu.

Styrkþegarnir í ár eru Nidhiya Jose, sem leggur stund á doktorsnám við Indian Institute of Science í Bangalore, og Girjesh Dasaundhi, sem leggur stund á doktorsnám við Indian Institute of Technology í Mumbai. Sem Nehru-Grimsson rannsóknarfélagar sóttu þau m.a. námskeið í almennri jarðefnafræði, fjarkönnun, jöklafræði og jöklajarðfræði og tóku þátt í þremur rannsóknarleiðangrum á jökla.

Nidhiya Jose vinnur að verkefni um líkanagerð sem tengist forsögulegri stærð og umfangi jökla í Himalajafjöllunum og notar til þess m.a. aðferðir tímatalsfræði jarðar, fjarkönnunar og talnalíkön.

Girjesh Dasaundhi sérhæfir sig í hreyfifræði jökla sem skríða hratt fram og nýtir til þess gögn og aðferðir fjarkönnunar.

Styrkþegarnir Nidhiya Jose og Girjesh Dasaundhi, Ólafur Ragnar Grimsson, fyrrverandi forseti Íslands, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Balasubramanian Shyam, sendiherra Indlands á Íslandi, Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði við Háskóla Íslands, Þorsteinn Þorsteinsson, jöklafræðingur við Veðurstofu Íslands, og Dagfinnur Sveinbjörnsson, sem veitir Nehru-Grimsson sjóðnum forstöðu.
Ólafur Ragnar Grímsson ásamt Nehru-Grimsson styrkþegunum Nidhiya Jose og Girjesh Dasaundhi.