Félagsvísindi … í stuttu máli | Háskóli Íslands Skip to main content
26. janúar 2021

Félagsvísindi … í stuttu máli

Félagsvísindi … í stuttu máli - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nýverið kom út fyrsta bókin í ritröðinni „Félagsvísindi ...í stuttu máli“ á vegum Félagsvísindasviðs og Háskólaútgáfunnar að frumkvæði nokkurra fræðimanna við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild. Bókin ber heitið „Kynþáttafordómar - í stuttu máli“.

Form bókarinnar er dálítið óvenjulegt og býður óneitanlega upp á spennandi möguleika í að miðla rannsóknum en markmið með ritöðinni er að skapa nýjan vettvang fyrir miðlun á rannsóknum í félagsvísindum á Íslandi, endurspegla fjölfaglegt róf félagsvísindanna og leggja til vandaðrar og upplýstrar samfélagsumræðu.

Ætlunin er að bækurnar þjóni jafnt almenningi, fjölmiðlum, stjórnmálamönnum, námsmönnum og fræðasamfélaginu. Lögð er áhersla á að bækurnar séu læsilegar og uppfylli um leið ýtrustu kröfur vandaðrar fræðimennsku. Kennimerki ritraðarinnar og undirtitill hverrar bókar, …í stuttu máli, vitnar um metnað til að miðla viðfangsefninu á hnitmiðaðan og aðgengilegan hátt.

Form bókanna er býsna knappt, um 100 síður í litlu broti, sem gefur fræðimönnum talsvert rýmra svigrúm til að reifa rannsóknarniðurstöður sínar en hið hefðbundna greinaform leyfir, en er heldur ekki neinn doðrantur sem gera þarf áhlaup að til að lesa sig í gegnum.

Í fyrstu bókinni fjallar Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði, um kynþáttafordóma í sögu og samtíð. Sjónum er beint að alþjóðlegu samhengi kynþáttahyggju en sérstök áhersla er lögð á birtingarmynd kynþáttafordóma í íslensku samfélagi. Þannig tengir hún tilurð og viðgang þessara þverþjóðlegu viðhorfa og valdakerfa við stöðu mála í samtímanum hér á landi.

Kristín fæst hér við eitt af stóru átakaefnum samtímans sem enn og aftur er komið á dagskrá samfélaga um heim allan. Aukinn sýnileiki haturs og ofbeldis vestanhafs og austan ásamt endurnýjuðum krafti baráttunnar gegn kynþáttamismunun hefur dregið fram að rasismi heyrir ekki sögunni til, síður en svo. Kristín fjallar í bókinni um hvernig djúpstæðar rætur kynþáttahyggju birtast okkur í hatursorðræðu og öðru kynþáttatengdu ofbeldi í samtímanum, í stofnanabundinni mismunun og hversdagslegum viðhorfum og ummælum. Sem heildstætt fræðirit um kynþáttafordóma með sérstaka áherslu á íslenskt samhengi á bókin brýnt erindi og er fallin til að auðga og dýpka samfélagsumræðuna.

Bókin Kynþáttafordómar - í stuttu máli eftir Kristínu Loftsdóttur er komin út og er fyrsta bókin í nýrri ritröð á vegum Félagsvísindasviðs og Háskólaútgáfunnar.