Farsælt samstarf Verkfræðingafélagsins og Vísindasmiðjunnar | Háskóli Íslands Skip to main content
8. janúar 2020

Farsælt samstarf Verkfræðingafélagsins og Vísindasmiðjunnar

""

Verkfræðingafélag Íslands og Vísindasmiðja Háskóla Íslands hafa endurnýjað samstarfssamning sinn og hyggjast á árinu vinna saman að tilraunaverkefni í samstarfi við félagsmiðstöðvar um þróun fræðsluverkefna á sviði vísinda og tækni.

Verkfræðingafélagið og Vísindasmiðjan hafa undanfarin ár unnið sameiginlega að því markmiði að efla áhuga ungs fólks á vísindum, tækni og nýsköpun og efla jafnt kennara sem nemendur á því sviði. Formlegt samstarf hófst haustið 2018 og þá var hafist handa við að útbúa sérstakt fræðsluefni fyrir kennara og nemendur um forritun. Árið eftir var sérstök áhersla lögð á fræðsluverkefni fyrir skóla um loftslagsbreytingar og hverfist það verkefni um notkun þekkingar til að finna lausnir tengdar orkunotkun. Nú hefur samstarfssamningur verið staðfestur þriðja árið í röð og var hann undirritaður í upphafi nýs árs af Svönu Helen Björnsdóttur, formanni Verkfræðingafélagsins, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.  

Fulltrúar Háskóla Íslands og Verkfræðingafélagsins við undirritun nýs samstarfssamnings. Efri röð frá vinstri: Guðrún Bachmann, kynningarstjóri vísindamiðlunar við Háskóla Íslands, Sigrún S. Hafstein, sviðsstjóri fag- og félagsviðs hjá Verkfræðingafélaginu, Árni Björn Björnsson, framkvæmdastjóri Verkfræðingafélagsins, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu Háskóla Íslands. Fremri röð: Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélagsins, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.  

Tilraunaverkefni á vettvangi félagsmiðstöðva

Að þessu sinni er á döfinni tilraunaverkefni í samstarfi við félagsmiðstöðvar um þróun fræðsluverkefna sem getur farið fram á þeirra vettvangi. Samstarfssamningurinn gerir einnig ráð fyrir að Vísindasmiðjan taki sem fyrr þátt í árlegum Fjölskyldudegi verkfræðinnar sem haldinn er í ágúst, en undanfarin ár hefur fjöldi fólks lagt leið sína í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og kynntist af eigin raun tækjum, tólum og tilraunum Vísindasmiðjunnar.

Hafa tekið á móti hátt í 30 þúsund gestum

Vísindasmiðja Háskóla Íslands var opnuð vorið 2012 og aðsetur hennar er í Háskólabíói. Starfsemin fer líka að miklu leyti fram í farandsmiðjum af margs konar tagi, til dæmis í Hörpu, á bókasöfnum, í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og víðar. Leiðbeinendur í Vísindasmiðjunni eru kennarar og nemendur Háskóla Íslands og er hún opin grunnskólahópum fjóra daga vikunnar, þeim að kostnaðarlausu. 

Vísindasmiðjan nýtur afar mikilla vinsælda og hefur verið nær fullbókuð frá því að hún var opnuð. Áætlað er að hátt í 30 þúsund grunnskólabörn hafi nú heimsótt Vísindasmiðjuna og tekið þátt í fjölmörgum viðburðum smiðjunnar á höfuðborgarsvæðinu og í Háskólalestinni.  
  

Nemendur í Vísindasmiðjunni