Skip to main content
2. maí 2023

Farsæld barna - stuðningur við uppeldisfærni foreldra

Farsæld barna - stuðningur við uppeldisfærni foreldra - á vefsíðu Háskóla Íslands

Auglýst er eftir leikskólum og grunnskólum til þátttöku í þróunarverkefni um fræðslu og ráðgjöf við foreldra um uppeldi barna 

Mennta- og barnamálaráðuneyti og Menntavísindasvið Háskóla Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um þróunarverkefni um fræðslu og ráðgjöf við foreldra um uppeldi barna í samstarfi við leikskóla og grunnskóla.
Meginmarkmið þróunarverkefnisins er að móta markvissa fræðslu og ráðgjöf við foreldra um uppeldi barna í tengslum við leik- og grunnskóla og skólaþjónustu á Íslandi. Tilgangurinn með því er að valdefla foreldra í hlutverki sínu og vinna þannig að styrkingu grunnþjónustu við börn og foreldra í samvinnu við skólasamfélagið og foreldra um uppeldi barna. Um er að ræða tveggja ára verkefni sem fylgt verður eftir með rannsókn á áhrifum verkefnisins m.a. út frá reynslu foreldra, barna, skólasamfélagsins og  mögulegum hagrænum áhrifum.

Háskóli Íslands auglýsir eftir leikskólum og grunnskólum til þátttöku í þróunarverkefni um fræðslu og ráðgjöf við foreldra um uppeldi barna sinna frá 1. júní 2023 í tvö ár.Skólarnir vinna náið með verkefnastjóra og verkefnastjórn að þróun námskeiðs fyrir foreldra um uppeldi barna sinna og þróun fræðslu og leiðsagnar kennara við foreldra. 
Horft verður til þess að styðja við réttindi barna með tilliti til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þeim áherslum sem birtast í lögum nr. 86/2021 um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, um að öll þjónusta í þágu barna skuli fara fram samkvæmt því sem barni er fyrir bestu. Verður foreldrum veitt fræðsla og stuðningur í uppeldishlutverki sínu af virðingu fyrir rétti og skyldum foreldra við ákvarðanatöku um uppeldi barna sinna, en einnig fyrir sjálfstæðum rétti barna þar sem réttmætt tillit er tekið til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska.
Markmið verkefnisins er enn fremur að skapa vettvang innan skóla fyrir foreldra að koma saman og ræða um uppeldi. Er gott að þeir geti fundið að þeir standi ekki einir og geti sótt stuðning í uppeldishlutverki sínu hjá fagmenntuðu starfsfólki leik- og grunnskóla barna sinna jafnt sem skólaþjónustu. 
Sú uppeldisfræðilega nálgun sem stuðst verður við í verkefninu verður The Incredible Years, reynsluprófað foreldrafærninámskeið þar sem áhersla er lögð á að byggja upp betri samskipti og tengsl milli foreldra og barna með æfingum, hlutverkaleikjum og umræðum í foreldrahópum.  Þetta inngrip hefur verið rannsakað víða í yfir 20 ár og hefur sýnt jákvæð áhrif sem meðferð við hegðunarvanda og sem forvörn.
Umsóknarfrestur er til og með 15. maí 2023.
Vinsamlegast sækið um með því að senda tölvupóst á amh@hi.is 
Nánari upplýsingar veitir Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnkt í síma 840 1522 og á netfangi amh@hi.is