Skip to main content
4. janúar 2016

Fálkaorða fyrir rannsóknir á sviði sögu og fornleifa

""

Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði, var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á nýársdag. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sæmdi hana riddarakrossi fyrir rannsóknir á sviði íslenskrar sögu og fornleifa.

Steinunn er afkastamikill vísinda- og fræðimaður og eftir hana liggja bækur og greinar um ólík efni fornleifafræðinnar, m.a. bókin Sagan af klaustrinu á Skriðu sem hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fræðibóka árið 2013 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og viðurkenningar Hagþenkis. Steinunn hefur einkum og sér í lagi rannsakað klaustur á Íslandi og stýrði stórri rannsókn á Skriðuklaustri sem leiddi í ljós að klaustrið var stærra en áður var talið og í raun spítali. Þá komu fram einkenni sjúkdóma í rannsóknum á beinum sem leiddu í ljós að Ísland var betur tengt Evrópu á síðmiðöldum en áður var talið.

Nú vinnur Steinunn að því að kortleggja klaustur á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er að staðsetja rústir klaustranna með fjarkönnunum, þ.e. jarðsjármælingum og lestri ýmiss konar loftmynda, og töku könnunarskurða. Þá er núna unnið við að leita að gripum úr klaustrunum, skrá örnefni um þau, skoða ættartengsl þeirra sem unnu við þau og fara yfir skjöl sem geta varpað ljósi á efnahag, áherslur í starfi og rekstri þeirra.

Steinunn Kristjánsdóttir fæddist í Barðastrandarsýslu árið 1965. Hún nam fornleifafræði við Gautaborgarháskóla og lauk þaðan doktorsprófi árið 2004. Steinunn tók við starfi lektors í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands árið 2006, varð dósent árið 2009 og hlaut stöðu prófessors árið 2012.

Steinunn Kristjánsdóttir
Steinunn Kristjánsdóttir