Skip to main content
10. nóvember 2022

Evrópskt samstarf um þróun umhverfisvænni framleiðslu ammóníaks

Evrópskt samstarf um þróun umhverfisvænni framleiðslu ammóníaks - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og fyrirtækið Atmonia, sem stofnað var á grundvelli rannsókna innan skólans, ýttu nýverið úr vör nýsköpunarverkefni í samstarfi við fimm aðrar evrópskar stofnanir og fyrirtæki sem miðar að því að hanna og þróa rafgreiningarbúnað fyrir nitur til að framleiða ammóníak á vökvaformi sem má nýta bæði sem orkubera/eldsneyti og áburð. 

Auk Háskóla Íslands og Atmonia koma RWTH Aachen háskóli og fyrirtækin VITO, MS Balti, TEGA og Ecovibes að verkefninu sem nefnist VERGE og nýtur stuðnings Horizon Europe rannsóknaráætlunar Evrópusambandsins.  

Tæknin sem er þróuð innan VERGE-verkefnisins verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum: rafefnafræðilegt ferli til framleiðslu ammóníaks úr sjálfbæru rafmagni. Með því að framleiða ammóníak með sjálfbærum hætti með endurvinnanlegum orkugjöfum má hafa mikil áhrif á heimsvísu því núverandi framleiðsluhættir efnisins (með Haber-Bosch aðferðinni) leiða til losunar 1% gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Þar að auki er ammóníak eitt mest lofandi kolefnislausa rafeldsneytið sem við þekkjum fyrir skipaflutninga og aðrar siglingar. Draga má úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum í heiminum um allt að 3% með því að nýta ammóníak, sem er framleitt á umhverfisvænan máta, sem orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis. Þannig mun tæknin sem verður til innan VERGE-verkefnisins flýta fyrir því markmiði Evrópusambandsríkja að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2050.  

vergeverkefnið

Teikningin sýnir áætlanir aðstandenda VERGE-verkefnisins um þróun ammóníaks með umhverfisvænni hætti en nú er gert.

VERGE-kerfið verður sérhannað til þess að geta keyrt á umhverfisvænu rafmagni þegar það er til og slökkva á sér þegar ekkert rafmagn er til staðar. Það hentar vel til þess að fullnýta orku frá stopulum orkugjöfum, s.s. sól og vindi, orku sem annars er í dag sóað.