Skip to main content
18. ágúst 2021

Eva kjörin formaður NoPSA

Eva kjörin formaður NoPSA - á vefsíðu Háskóla Íslands

Eva H. Önnudóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild, var kjörin formaður Nordic Political Science Association (NoPSA) á ráðstefnu sem haldin var rafrænt við HÍ í síðustu viku. Hún er fyrsti fulltrúi Íslands til að gegna því embætti. Sara Þöll Finnbogadóttir verður ritari NoPSA en hún er einnig fyrst Íslendinga til að gegna því embætti.

NoPSA eru regnhlífasamtök félaga stjórnmálafræðinga á Norðurlöndunum og hefur Ísland átt aðild að samtökunum frá stofnun árið 1975. Meginverkefni NoPSA eru að halda úti tímaritinu Scandinavian Political Studies (SPS) og standa fyrir ráðstefnu á þriggja ára fresti. Ráðstefna NoPSA, sem er haldin til skiptis í norrænu ríkjunum, hefur verið haldin þrisvar á Íslandi, 1990, 2005 og nú síðast í ár.

Lengst framan af voru tveir fulltrúar í stjórn NoPSA frá hverju norrænu ríkjanna að undanskildu Íslandi, sem var með einn fulltrúa. Þessu var breytt árið 2017 og tilnefnir Félag íslenskra stjórnmálafræðinga nú tvo fulltrúa í stjórn. Frá og með þeim tíma munu fulltrúar Íslands einnig taka þátt í að tilnefna í ritstjórn SPS en fulltrúar norrænu ríkjanna skipta því á milli sín á þriggja ára fresti. Fulltrúar Íslands tilnefna næstu ritstjórn SPS árið 2023.

Sara Þöll Finnbogadóttir ritari og Eva H. Önnudóttir formaður NoPSA