Skip to main content
31. ágúst 2023

Ert þú eða barnið þitt mjög hrætt við köngulær?

Ert þú eða barnið þitt mjög hrætt við köngulær? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sálfræðiráðgjöf háskólanema er farin af stað þetta haustið. Sálfræðiráðgjöfin sinnir vægari vanda hjá háskólanemum og börnum þeirra. Þunglyndi, félagskvíði og annar kvíði, átraskanir og þráhyggjuvandi er meðal þess sem meistaranemar í sálfræði, sem starfa við ráðgjöfina, sinna.

Fyrsta verk á haustin er þó að þjálfa nema í meðferð við einfaldri fælni og þá sérstaklega köngulóafælni. Því óskar sálfræðiráðgjöfin sérstaklega eftir einstaklingum (nemanda við HÍ eða barni nemanda við HÍ) með köngulóafælni.

Einkenni köngulóafælni eru:

1. Mikill kvíði eða hræðsla við köngulær 
2. Köngulær vekja oftast samstundis kvíða eða hræðslu
3. Forðast oftast köngulær
4. Kvíðinn eða hræðslan er meiri en köngulær gefa tilefni til
5. Hræðslan hefur verið til staðar í meira en 6 mánuði

Boðið er upp á einnar lotu meðferð við sértækri fælni. Inngripið er því stutt og samanstendur af: 1) u.þ.b. 40 mínútna matsviðtali og 2) meðferð sem stendur í 90-180 mínútur í einni lotu.

Sálfræðiráðgjöfin er með pláss fyrir 20 í þessa meðferð sem er opin nemendum HÍ og börnum þeirra. Þau sem hafa áhuga geta haft samband við Þórð Örn Arnarson, sálfræðing og forstöðumann Sálfræðiráðgjafar háskólanema, í gegnum netfangið thordura@hi.is.

Öll meðferð hjá fullorðnum fer fram undir handleiðslu Þórðar og öll meðferð barna undir handleiðslu dr. Dagmarar Kristínar Hannesdóttur, klínísks barnasálfræðings og lektors við sálfræðideild.  

Sálfræðiráðgjöfin er einnig opin fólki með annan sálrænan vanda eins og lesa má um á vef ráðgjafarinnar.  Umsóknir fyrir fullorðna má finna hér og umsóknir fyrir börn má finna hér.
 

nemandi labbar á háskólatorgi