Skip to main content
4. júlí 2019

Ekki einkamál barna við hvaða aðstæður þau búa

Unglingar af heimilum þar sem fjárhagsstaða er slæm eru líklegri en aðrir jafnaldrar þeirra til að verða fyrir kynferðisofbeldi. Þetta er niðurstaða rannsóknar Eyglóar Rúnarsdóttur og Ársæls Arnarssonar á áhrifum fjárhagsstöðu og kyns á líkurnar á því á að unglingar verði fyrir kynferðisofbeldi. 

Ársæll er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Eygló aðjunkt við sama svið og byggist rannsóknin á gagnasafni sem unnið er upp úr spurningalistum um heilsu og líðan 85% ungmenna í 10.bekk á árinu 2014.

Eygló hefur unnið með ungmennum í fjölda ára og þar kviknaði áhugi á þeim hópi unglinga sem af einhverjum ástæðum standa höllum fæti í samfélaginu. „Ég vildi skoða hvernig íslenskt samfélag bæði tekur á móti ungu fólki og styður við það og hvernig menning ungs fólks þroskast og þróast í samtímanum,“ segir hún. 

Gagnasafnið inniheldur gríðarlega miklar upplýsingar sem hægt er að nota til þess að varpa ljósi á hina ýmsu þætti í lífi skólabarna. Í spurningalistanum voru ungmennin sjálf látin meta fjárhagsstöðu fjölskyldunnar með því að bera sig saman við jafningja sína. „Rannsóknir á breytum sem þessum hafa sýnt að það hvernig krakkar upplifa sig í samanburði við aðra er nokkuð marktækt,“ segir Eygló.

Þau Ársæll hafi síðan skoðað tengsl á milli fjárhagsstöðu og svörum unglinginna um hvort brotið hefði verið á þeim kynferðislega. Af þeim 3618 nemendum sem fylltu út spurningalistann sögðust 14,6 prósent hafa upplifað einhvers konar kynferðislegt áreiti eða ofbeldi.  Niðurstöðurnar sýna enn fremur að auknar líkur eru á því að verða fyrir kynferðisofbeldi eða áreitni ef viðkomandi kemur frá heimili þar sem fjárhagur er slæmur. Af þeim stúlkum sem töldu fjárhagsstöðu fjölskyldu sinnar slæma sögðust 37,6 prósent hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi. Þær eru tvöfalt líklegri en drengir í sömu aðstæðum til að verða fyrir því að brotið sé á þeim kynferðislega. Samtals höfðu 29,9 prósent ungmenna, sem töldu sig búa við slæman fjárhag, orðið fyrir kynferðisofbeldi eða áreitni af einhverju tagi.

Eygló segir niðurstöðuna ekki koma á óvart. „Rannsóknir almennt sýna að krakkar sem búa við slæmar efnahagslegar aðstæður eru oft í meiri hættu þegar kemur að ákveðnum þáttum í samfélaginu,“ segir hún, en bætir við að mikilvægt sé að horfa einnig til þeirra 13 prósenta sem töldu sig búa við góðan fjárhag og sögðust hafa orðið fyrir kynferðisbrotum. „Við megum því ekki einfalda umræðuna og segja að kynferðislegt ofbeldi og áreitni gagnvart börnum þrífist bara hjá fólki sem býr við verri fjárhag,“ segir hún. 

Eygló segir aðstæður fólks hér á landi misjafnar eins og annars staðar. „Fólk trúir því að allir geti haft það gott á Íslandi en við sem höfum áhuga á því að skoða samfélag barna og unglinga vitum og sjáum að það sitja ekki allir við sama borð,“ segir hún. Þekking sem þessi geti því nýst til að grípa til viðeigandi aðgerða.

„Ég vonast til þess að þessi þekking nýtist þeim sem eru að vinna með börnum og unglingum á vettvangi og hægt verði að vinna með það hvernig við nálgumst þau og hvort sé hægt að styðja við fjölskyldur til að skapa meira öryggi fyrir börn og unglinga sem búa við verri efnahagslega stöðu en jafnaldrar þeirra,“ segir Eygló.

 „Á Íslandi höfum við burði til þess að gera svo margt af því að við erum svo fá þannig að það ætti að vera hægt að styðja vel við börn og unglinga, sama hvar þau eru,” segir hún. Það sé því ekki einkamál barna við hvaða aðstæður þau búa því rannsóknir hafi sýnt að áföll í bernsku geti haft mikið að segja á fullorðinsárum. „Það er það sem mér finnst vera niðurstaðan, því ef fólk verður fyrir ofbeldi í æsku og það verður til þess að fólk glími við heilsufarsvanda eða erfiðleika á fullorðinsárum, þá er það vandamál samfélagsins en ekki einnar lítillar fjölskyldu,“ segir Eygló Rúnarsdóttir að endingu.

Höfundur greinar: Eva Björk Benediktsdóttir, meistaranemi í blaða- og fréttamennsku

Eygló Rúnarsdóttir