Skip to main content
24. maí 2022

Efnafræðinemar á leið til fundar við Nóbelsverðlaunahafa

Efnafræðinemar á leið til fundar við Nóbelsverðlaunahafa - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tveir nemendur í efnafræði við Háskóla Íslands, þær Hafdís Haraldsdóttir og Sólrún Elín Freygarðsdóttir, hafa verið valdar til þátttöku í The Lindau Nobel Laureate Meeting, vikulangri dagskrá í Þýskalandi í sumar með um 35 Nóbelsverðlaunahöfum og 600 ungum vísindamönnum.

The Lindau Nobel Laureate Meeting er nú haldinn í 71. sinn í bænum Lindau en þetta er í fyrsta sinn sem nemendur frá Háskóla Íslands fara utan til þess að taka þátt í dagskránni. Háskóli Íslands gerði í samvinnu við þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti og Rannís samkomulag við Lindau-stofnunina, sem heldur utan um viðburðinn, árið 2019 um að gerast samstarfsaðili (e. academic partner) en í því felst að skólanum býðst að tilnefna nemendur til þátttöku árlega. 

Tveir fyrrverandi nemendur skólans, Þórir Einarsson Long og Guðrún Höskuldsdóttir, voru valin til þátttöku í þverfræðilegri dagskrá árið 2020 en vegna kórónuveirufaraldursins var viðburðinum aflýst. Þeim bauðst hins vegar að taka þátt í rafrænni dagskrá í fyrra.

Þórir, sem lauk kanditasprófi í læknisfræði frá HÍ árið 2015 og doktorsnámi í læknisfræði frá HÍ 2019, stundar nú sérnám í læknisfræði í Lundi. Guðrún lauk BS-prófi í verkfræðilegri eðlisfræði frá HÍ vorið 2020 og leggur nú stund á meistaranám í orkuverkfræði við ETH Zurich (Tækniháskólann í Zurich).  Þau létu afar vel af þátttöku í viðburðinum. „Þetta var alveg frábær reynsla. Það sem stóð upp úr hjá mér voru fyrirspurnartímarnir með Nóbelsverðlaunahöfunum þar sem oft voru bara nokkrir nemendur og maður gat spurt spurninga en þetta var í raun bara eins og persónulegt spjall líka á léttu nótunum við Nóbelsverðlaunahafana. Ég hafði sérstaklega gaman af fyrirspurnartíma með Steven Chu sem er Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði og var orkumálaráðherra Bandaríkjanna í Obama-stjórninni,“ sagði Guðrún m.a. um reynslu sína.

Sólrún Elín Freygarðsdóttir og Hafdís Haraldsdóttir ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands. Þær voru valdar úr stórum hópi tilnefndra nemenda og vísindamanna til að taka þátt í The Lindau Nobel Laureate Meeting. MYND/Kristinn Ingvarsson

Valdar úr stórum hópi tilnefndra

Viðburðurinn í ár fer fram dagana 26. júní til 1. júlí. Þar koma saman 35 Nóbelsverðlaunahafar og kynna rannsóknir sínar, fjalla um feril sinn og eiga samtal við framúrskarandi vísindamenn framtíðarinnar, bæði háskólanema í grunn- og framhaldsnámi og nýdoktora, og veita þeim innblástur til góðra verka. Dagskráin samanstendur af fyrirlestrum, umræðufundum, masterklössum og pallborðsumræðum.

Á grundvelli áðurnefnds samnings tilnefndi Háskóli Íslands tvo nemendur til þátttöku í viðburðinum í ár og úr hópi allra tilnefndra valdi stofnunin svo þá sem þykja standa fremst í ítarlegu valferli. Þær Hafdís og Sólrún voru báðar valdar og eru þær í hópi um 600 nemenda frá yfir 100 löndum sem boðið er til þátttöku að þessu sinni.

Hafdís Haraldsdóttir lauk BS-prófi efnafræði frá Háskóla Íslands í fyrrasumar og hlaut við það tilefni verðlaun úr Verðlaunasjóði Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti á Akranesi fyrir framúrskarandi námsárangur. Hún leggur nú stund á meistaranám í greininni við Háskóla Íslands en mun taka hluta af náminu í skiptinámi við Háskólann í Turku í Finnlandi. 

Sólrún Elín Freygarðsdóttir útskrifast með BS-próf í efnafræði júní næstkomandi og heldur raunar utan á The Lindau Nobel Laureate Meeting nóttina eftir brautskráningu. Sólrún, sem er aðeins 21 árs, hlaut styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands þegar hún innritaðist í HÍ 2019. Sólrún var ásamt samstarfsfólki sínu í hópi verðlaunahafa við afhendingu á Vísinda- og nýsköpunarverðlauna HÍ í liðinni viku og hefur verið meðal leiðbeinenda í Vísindasmiðju og Háskólalest Háskóla Íslands. Sólrún hefur meistaranám við Danmarks Tekniske Universitet (DTU) í haust. 

Nánar um The Lindau Nobel Laureate Meetings
 

Þær Sólrún og Hafdís litu inn á rektorsskrifstofu á dögunum og tóku við blómvendi frá rektor sem tákni um ósk um gott gengi í sumar. Frá vinstri: Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri Alþjóðasviðs, Jón Atli Benediktsson rektor, Sólrún Elín Freygarðsdóttir, Hafdís Haraldsdóttir, Krishna Kumar Damodaran, námsbrautarformaður í efnafræði, og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda. MYND/Kristinn Ingvarsson