Bragðlaukaþjálfun gegn matvendni | Háskóli Íslands Skip to main content

Bragðlaukaþjálfun gegn matvendni

16. janúar 2018

„Matvendni er í sjálfu sér frekar flókið fyrirbæri því það er ekki sjálfgefið að okkur þyki allur matur góður. Það þarf þjálfun til þess að kunna að meta mismunandi bragð og upplifun af mat,“ segir Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Anna Sigríður hefur verið afkastamikill vísindamaður um árabil og unnið að fjölmörgum rannsóknum tengdum næringu og lífsvenjum. Þessa dagana fæst hún m.a. við rannsókn sem snýr að fæðumiðaðri íhlutun í skólaumhverfi. Þar er lögð áhersla á að þróa úrræði fyrir börn með taugaþroskaraskanir og foreldra þeirra en jafnframt er horft til barna án þessara raskana til samanburðar. Rannsóknin eru unnin í samvinnu við Sigrúnu Þorsteinsdóttur doktorsnema en Anna Sigríður er leiðbeinandi hennar ásamt Urði Njarðvík, dósent í sálfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Auk þeirra koma fleiri rannsakendur og nemar að þessu þverfaglega verkefni.

Skortur hefur verið á rannsóknum á þessu sviði hingað til og lítið framboð af fræðsluefni eða stuðningi fyrir foreldra og skóla.

„Matvendni hjá börnum, sérstaklega þeim sem glíma við taugaþroskaraskanir á borð við ADHD og raskanir á einhverfurófi, er nýtt og vaxandi rannsóknarefni sem krefst þverfaglegrar nálgunar. Aðaláhersla okkar í þessu verkefni er á fæðuval, matvendni og líðan, bæði hjá börnum og foreldrum. Meginþungi verður á fjölbreytileika í fæðuvali, og þá sér í lagi að auka neyslu ávaxta- og grænmetis sem eru þær fæðutegundir sem helst skortir í mataræði barna almennt,“ lýsir Anna Sigríður.

Anna Sigríður Ólafsdóttir

Anna Sigríður lauk doktorsprófi í næringarfræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Hún hefur gegnt starfi prófessors við Háskóla Íslands frá 2016 og verið forseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfafræðideildar undanfarin tvö ár. Rannsóknir hennar eru á sviði næringar, heilsu og lífshátta. Hún hefur m.a. unnið að rannsóknum á gildi skólamáltíða á Norðurlöndum, heilsueflingu í framhaldsskólum, Heilsuskólanum - fjölskyldumiðaðri meðferð við offitu barna og fæðuhluta íhlutunarrannsóknar sem miðar að bættri heilsu og lífsgæðum aldraðra. 

„Margt bendir til þess að draga megi úr matvendni með bragðlaukaþjálfun. Þjálfunin felur í sér endurtekna kynningu á matvælum á tiltölulega skömmum tíma en mesta ákorunin er oft að fá börn til að smakka bragðmiklar fæðutegundir. Við höfum leikinn og gleðina að leiðarljósi og samvinnu barna og foreldra. Matvendni getur falið í sér að barn velur umfram annað mat sem er bragðdaufur eða sætur en litur, áferð og annað skynáreiti getur líka ýtt undir einhæft fæðuval. Það krefst þolinmæði að venja börn á nýjar fæðutegundir og mikilvægt er að virkja fjölskylduna og nærumhverfið til að draga úr matvendni og stuðla að heilsusamlegu fæðuvali.“

Að sögn Önnu Sigríðar eru börn á einhverfurófi gjarnan matvandari en önnur börn og geta átt erfitt með að borða fjölbreyttan mat. Það gerir það að verkum að matartíminn getur valdið kvíða og gert samskipti fjölskyldumeðlima erfiðari í kringum máltíðir. „Það er því sérstaklega mikilvægt að styðja við fæðuval hjá þessum börnum og stuðla þannig að góðu næringarástandi þeirra. Það eru fá úrræði í boði fyrir börn með matvendni og taugaþroskaraskanir og oftar en ekki eru þau útilokuð frá rannsóknum af þessu tagi.“

Rannsókn sem þessi skapar nýja þekkingu og úrræðið getur gagnast breiðum hópi í samfélaginu. „Við sjáum fyrir okkur að ef bragðlaukaþjálfunin nýtist börnum með sérþarfir og foreldrum þeirra eigi hún eftir að gagnast öllum. Í framhaldinu er ætlunin að útbúa fræðsluefni fyrir bæði fjölskyldur og skóla. Þannig getum við stutt við það heilsueflandi matarumhverfi sem börnin upplifa á hverjum degi, hvort sem er í skólamötuneytinu eða heima hjá sér. Verkefnið hefur því víða skírskotun í heilsu og velferð sem er ein af grunnstoðum aðalnámskrár á öllum skólastigum. Verkefninu er ætlað að hlúa í senn að líkamlegri, andlegri og félagslegri vellíðan,“ segir Anna Sigríður að endingu.

Framsækin menntun fyrir farsælt samfélag

Fréttin er liður í myndbandsröð um rannsakendur á Menntavísindasviði sem ber yfirskriftina Framsækin menntun fyrir farsælt samfélag.

Myndböndin eru aðgengileg á YouTube-rás Menntavísindasviðs.

„Matvendni er í sjálfu sér frekar flókið fyrirbæri því það er ekki sjálfgefið að okkur þyki allur matur góður. Það þarf þjálfun til þess að kunna að meta mismunandi bragð og upplifun af mat,“ segir Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Netspjall