Skip to main content
22. febrúar 2020

Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Háskólabíói 

""

Fyrrverandi rektor, aðstoðarrektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, kandídatar, starfsfólk Háskóla Íslands, góðir gestir. 

Ég óska ykkur, kæru kandídatar, innilega til hamingju með daginn og árangurinn sem staðfestur er með prófskírteinum þeim sem þið takið við hér á eftir.  Þið hafið hvert og eitt sett ykkur metnaðarfull markmið með því að skrá ykkur til náms við Háskóla Íslands og hafið unnið einbeitt að þeim, sigrast á hindrunum og uppskerið nú laun erfiðisins.  Þetta er ykkar hátíðardagur. 

Þessi brautskráningardagur er einnig hátíð fjölskyldna ykkar og vina sem hafa staðið þétt við bakið á ykkur og haft á ykkur óbilandi trú.  Þau samfagna með ykkur í dag.  Starfsfólk Háskólans hefur einnig gert sitt til að tryggja að námið hafi auðgað þekkingu ykkar og stuðlað um leið að því að þið hafið öðlast víðsýni og umburðarlyndi og þroskast sem manneskjur á háskólaárunum.  

Brautskráningardagar marka jafnan tímamót hjá Háskóla Íslands.  Saga Háskólans, sem spannar rúma öld, hefur verið ævintýri líkust.  Þegar skólinn var stofnaður árið 1911 var menntunarstig íslensks almennings lágt, atvinnulífið einhæft, híbýli fólks frumstæð, heilbrigðisþjónusta takmörkuð og lífskjör almennt kröpp.  Framundan voru erfið ár með fimbulvetrum, eldgosum, mannskæðum farsóttum og heimsstyrjöldum.  En vonin deyr síðast og þrátt fyrir allar þrengingar áttu Íslendingar sér stóran draum – að verða þjóð meðal þjóða og stofna hér háskóla sem gæti í tímans rás orðið verðugur fulltrúi okkar í alþjóðlegu samfélagi vísindanna og tekið þátt í að fleyta okkur inn í nútímann.  Draumurinn átti eftir að rætast og í dag erum við fullvalda, friðsöm, menntuð og upplýst þjóð sem býr við lífskjör sem eru með því besta sem gerist í heiminum.  Og við skulum aldrei hætta að láta okkur dreyma, kæru kandídatar.  

Þessi glæsta saga er ekki sjálfgefin og hvað sem framtíðin ber í skauti sér skulum við aldrei gleyma hvar ræturnar liggja.  „Lærðu allra þjóða tungur,“ segir í fornritinu Konungsskuggsjá, „en gleym eigi [...] þinni eigin tungu.“  Tungumál ljúka sannarlega upp heiminum, en við þurfum sífellt að hlúa að eigin tungu, sögu og menningu til að geta mætt framtíðinni full sjálfstrausts og bjartsýni, eins og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti og einstakur hollvinur Háskóla Íslands, hefur ítrekað leitt okkur fyrir sjónir í ræðu og riti.  

Háskóli Íslands hefur vaxið og eflst gríðarlega á undanförnum árum og áratugum.  Einn áþreifanlegur vitnisburður um þessa grósku í háskólastarfinu eru Vísindagarðar Háskóla Íslands, samfélag frumkvöðla, fyrirtækja og háskólastarfs sem rís nú af krafti í Vatnsmýrinni.  Rannsóknastarfið hefur eflst að vöxtum og áhrifum og skólinn kemst inn á sífellt fleiri alþjóðlega viðurkennda matslista yfir fremstu háskóla, háskóladeildir og rannsóknasvið í heimi.  Það sætir raunar tíðindum hve fjölbreyttu háskólastarfi okkur hefur tekist að halda úti.  Öll fræðasvið Háskóla Íslands eru nú á virtum matslistum yfir það sem best gerist í heiminum.  Þýðing þessa fyrir íslenskt samfélag verður seint ofmetin.  Allt starf Háskóla Íslands hefur frá fyrstu tíð miðað að því að efla farsæld og velferð á Íslandi.  Það var því enn ein dýrmæt staðfesting á árangri okkar þegar nýlega varð opinbert að Háskóli Íslands er í hópi allra fremstu háskóla heims þegar kemur að áhrifum á samfélag og nærumhverfi sitt.  

Allur þessi árangur er ekki aðeins viðurkenning fyrir vísindamenn skólans heldur vekur hann einnig athygli víða um lönd og gerir Háskóla Íslands að eftirsóttum samstarfsaðila og prófgráðu ykkar, kæru kandídatar, að sama skapi verðmæta. Það er metnaður okkar að prófgráða frá Háskóla Íslands færi ykkur í hendur lykil að farsælli framtíð.

Háskóli Íslands skipar nemendum í öndvegi og leitast sífellt við að auka fjölbreytni og gæði námsins.  Á síðustu misserum hafa verið stigin markviss skref til að efla og nútímavæða kennsluhætti við skólann.  Rafrænt prófahald hefur verið innleitt og nú erum við að taka í notkun nýtt námsumsjónarkerfi sem býður upp á fjölbreytta möguleika fyrir nemendur og kennara. Með tilkomu hágæða upptökuvers í Setbergi, nýju húsi kennslunnar sem Háskólinn tók í notkun á síðasta ári, mun geta skólans til að bjóða upp á upptökur og netnámskeið aukast verulega, meðal annars í samstarfi við erlenda háskóla undir forystu Harvard-háskóla og Massachusetts Institute of Technology, MIT. Einnig erum við að hleypa af stokkunum nýrri kennsluakademíu, en henni er ætlað að styðja við þróun kennsluhátta með því að viðurkenna sérstaklega þá kennara sem skara fram úr og eru öðrum fyrirmynd. Þá hefur húsnæðis- og félagsaðstaða nemenda tekið stakkaskiptum. Þessa dagana er verið að taka í notkun stærsta stúdentagarð landsins hér í Vatnsmýrinni og annar slíkur rís nú við Hringbraut.  Þá hefur íþróttaaðstaða fyrir nemendur og starfsfólk verið stórbætt.  Loks höfum við á síðustu misserum unnið að því með þátttöku erlendra sérfræðinga að móta nýtt heildarskipulag háskólasvæðisins til framtíðar.  Leiðarljós þeirrar vinnu er að skapa vistvænt og aðlaðandi háskólasvæði þar sem samgöngur og aðstaða til félagslífs tekur mið af kröfum nútímans.  Allt mun þetta gerbreyta aðstöðu nemenda og starfsfólks og auðvelda þannig samþættingu náms, starfs og fjölskyldulífs.  

Um leið og við gleðjumst yfir góðum árangri, kæru kandídatar, skulum við minnast þess að háskólastarf er í eðli sínu landnám, óþrjótandi leit að dýpri skilningi, traustari þekkingu, betri lausnum og fegurra mannlífi.  Það er eitthvað í innsta kjarna háskólahugsjónarinnar, og raunar í lífinu sjálfu, sem unir illa kyrrstöðunni.  Landneminn Stephan G. Stephansson orðaði þetta svo í ávarpi til samlanda sinna í Vesturheimi um líkt leyti og Háskóli Íslands var stofnaður: „Það er engra þakka vert að búa í Róm, heldur að byggja hana upp.“  Samkvæmt orðum skáldsins er uppbygging forsenda þess að við getum verið sátt við okkur sjálf og tryggt um leið að næsta kynslóð verði farsælli en kynslóðin á undan. 

Háskóli Íslands mun áfram þróa og byggja upp starf sitt með hag alls samfélagsins að leiðarljósi.  Framtíðin kallar á aukið alþjóðlegt samstarf um kennslu og rannsóknir.  Háskólar hafa frá fyrstu tíð verið vettvangur fjölþjóðlegs samstarfs því þekkingarleitin er í eðli sínu sammannleg og án landamæra, en það er mat okkar að samstarf háskóla um námsframboð þvert á landamæri muni stóreflast á komandi árum, ekki síst fyrir tilstilli skipulegra samstarfsneta háskóla.  Með alþjóðlegum samstarfsnetum, verður nemendum gert kleift að setja saman nám sem lagað er að styrkleikum, áhugasviði og kröfum hvers og eins og þannig hlotið prófgráður sem einstakir háskólar geta ekki boðið upp á einir og óstuddir.  Það skiptir sköpum fyrir íslenskt samfélag að við fylgjumst vel með þessari þróun og tökum virkan þátt í að móta slík net frá upphafi.   

Öflugt samstarf háskóla er ennfremur nauðsynlegt til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem lýsa, eins og ykkur er kunnugt, kæru kandídatar, brýnustu áskorunum samtímans.  Mörg þeirra þola enga bið.  Mikill samhljómur er með þessum markmiðum og stefnu Háskóla Íslands sem og grunngildum skólans um jafnrétti, fagmennsku og akademískt frelsi.  Á næstu árum munum við taka enn frekara mið af heimsmarkmiðunum við stefnumótun og í háskólastarfinu.  Vísindamenn okkar hafa hér margt fram að færa.  Má í því sambandi nefna markmiðin um heilsu og vellíðan, viðbrögð við loftslagsvá, nýsköpun og uppbyggin, verndun vistkerfa, jafnrétti kynjanna, sjálfbærni í orkumálum, menntun fyrir alla, aukinn jöfnuð og frið og réttlæti.  

Stærsta áskorunin sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fela í sér er þó ugglaust sú að við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar.  Þau viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir varða sjálfa lífsmöguleika jarðarbúa og alls lífs á jörðinni.  Þessum áskorunum verður ekki mætt að fullu með átaki einstakra fræðimanna eða fræðigreina.  Við þurfum að vinna enn betur saman þvert á fræðigreinar, þvert á þjóðríki og þvert á menningarheima.  Til þess þurfum við að leita nýrra lausna og efla nýsköpun í allri hugsun, breyta skipulagi og innviðum og þróa nýja samskiptahætti.  Hér mun framlag ykkar, kæru kandídatar, skipta sköpum, því umbylting hugarfarsins hefst iðulega hjá yngri kynslóðum.  Háskóli Íslands er vel í stakk búinn að leggja sitt af mörkum til að mæta þessum áskorunum með þeirri faglegu breidd og dýpt sem hann býr yfir.  Í þessu felst ekki síst sérstaða og styrkur skólans.  Þörfin fyrir öflugan alhliða háskóla í fremstu röð á Íslandi hefur aldrei verið meiri en nú. 

Kæru kandídatar. Þið eruð í framlínu hollvina Háskóla Íslands. Af þeim sökum hef ég staldrað við framtíðarsýn Háskóla Íslands, þau tækifæri og áskoranir sem eru framundan.  Það skiptir höfuðmáli fyrir háskóla – en líka fyrir okkur sem einstaklinga – að setja sér frá upphafi skýr og raunhæf markmið og vera þeim staðfastlega trúr.  Slíkt er vænlegast til árangurs eins og kennarinn og skáldið Þorsteinn Valdimarsson lýsti í eftirminnilegu kvæði: „Að endingu standa sig / þeir einir sem vanda sig / frá upphafi í því / sem er innan handar / að standa sig í.“

Kæru kandídatar. Þetta er gleðidagur og þið hafið fulla ástæðu til að horfa björtum augum til framtíðar. En við megum aldrei gleyma því að lífið getur á stundum verið brothætt og skugga borið á þegar minnst varir.  Þá gildir að standa þétt saman og styðja hvert við annað. Þessum vetri hafa fylgt vonskuveður sem sett hafa líf fólks víða um land úr skorðum og leitt til hörmulegra slysa sem hafa skilið eftir sig djúp sár í samfélagi okkar. Í upphafi árs var hópur lækna- og hjúkrunarfræðinema á leið norður í land með rútubílum til að gera sér glaðan dag. Eins og hendi væri veifað breyttist skemmtiferðin í hræðilega lífsreynslu.  Síðar í sama mánuði varð sá hörmulegi atburður að ungur háskólanemi fórst þegar hann varð fyrir snjóflóði við Móskarðshnjúka þar sem hann var á göngu ásamt tveimur samnemendum sínum í umhverfis- og byggingarverkfræði.  Hugur okkar er hjá aðstandendum, samnemendum og vinum hins látna og unga fólkinu, sem nú vinnur úr afleiðingum þessara slæmu slysa.  Þessir átakanlegu atburðir minna okkur á að ekkert er sjálfgefið og að hver dagur er gjöf sem við skulum taka á móti af þakklæti og auðmýkt.  

Kæru kandídatar. Um leið og ég þakka ykkur fyrir hönd Háskóla Íslands samfylgdina á undanförnum árum vil ég ljúka máli mínu á því að hvetja ykkur til góðra verka hvar sem þið munið hasla ykkur völl.  Ég óska ykkur velfarnaðar í þeim fjölbreyttu verkefnum sem þið takið ykkur nú fyrir hendur.  Við skulum ganga glöð út í daginn, fagna með fjölskyldum okkar og vinum og láta gott af okkur leiða.

Jón Atli Benediktsson