Skip to main content
18. febrúar 2017

Ávarp rektors við brautskráningu kandídata

""

Ávarp rektors við brautskráningu kandídata frá Háskóla Íslands í Háskólabíói laugardaginn 18. febrúar 2017

Forseti Íslands, fyrrverandi rektorar, forsetar fræðasviða, deildarforsetar, kandídatar, góðir gestir. 

Ég óska ykkur, kæru kandídatar, innilega til hamingju með daginn og árangurinn sem staðfestur er með prófskírteinum sem þið munuð taka við hér á eftir. Ég óska einnig fjölskyldum ykkar, vinum og vandamönnum, sem hafa stutt ykkur með ráðum og dáð, til hamingju. 

Brautskráningardagur markar tímamót, bæði í lífi ykkar og í starfi Háskóla Íslands. Þið, kandídatar, hafið lagt hart að ykkur í náminu og uppskerið nú eins og þið hafið sáð. Starfsfólk Háskólans hefur einnig kappkostað að tryggja að prófgráðan frá Háskóla Íslands sé traustur vitnisburður – gæðastimpill sem gerir ykkur kleift að takast á hendur margvísleg krefjandi störf eða halda á vit frekara náms, hér heima eða erlendis. 

Um þessar mundir er einnig vert að minnast þeirra tímamóta að fyrir hundrað árum, þ.e. 15. febrúar 1917, brautskráðist Kristín Ólafsdóttir læknir, fyrst kvenna frá Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands er í fararbroddi íslenskra háskóla í kennslu, rannsóknum, nýsköpun og samstarfi við atvinnu- og þjóðlíf um leið og hann ber sig saman og etur kappi við þá háskóla og vísindastofnanir sem fremstar eru í heiminum. Það verður því ekki nægilega oft undirstrikað hversu mikil viðurkenning það var þegar Háskóli Íslands komst árið 2011 á hinn virta lista Times Higher Education World University Rankings yfir 300 hæst metnu háskóla heims. Síðustu tvö ár hefur skólinn verið meðal 250 efstu háskólanna og í hópi 15 fremstu háskóla á Norðurlöndum. Þetta jafngildir því að skólinn sé í hópi efstu tveggja prósenta háskóla á heimsvísu.

Við þetta bætist að á síðasta ári komst Háskóli Íslands í fyrsta sinn inn á lista Times Higher Education Global University Employability Ranking yfir þá háskóla sem teljast skila öflugustum nemendum út í atvinnulífið samkvæmt mati stórs hóps alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta eru sannarlega góð tíðindi, ekki síst fyrir ykkur, góðu kandídatar. 

Nýjasti ávöxtur samstarfs Háskólans og íslensks atvinnulífsins leit dagsins ljós í síðustu viku er ég, ásamt fleirum, tók fyrstu skóflustungu að nýju hugmyndahúsi sem verður hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni, en Vísindagarðarnir eru þverfræðilegur samstarfsvettvangur atvinnulífs og Háskólans. 

Hugmyndahúsið, sem hlotið hefur hið táknræna nafn Gróska, mun hýsa hugbúnaðarfyrirtækið CCP auk þess sem þar verður glæsileg aðstaða fyrir sprotafyrirtæki og frumkvöðlasetur. Að baki Vísindagörðum Háskóla Íslands býr sú sannfæring að íslenska þjóðin geti ekki byggt framtíð sína alfarið á nýtingu náttúruauðlinda og frumframleiðslu heldur sé okkur lífsnauðsyn að hér dafni samfélag sem byggist á hugviti, þekkingu og frumleika. Við Íslendingar erum fámenn smáþjóð og munum seint geta keppt við stórþjóðir á grundvelli aflsmunar eða stærðar. En við getum nýtt okkur kosti smæðarinnar, samtakamáttinn, til að byggja upp öflugan, alþjóðlegan rannsóknaháskóla, og þannig leitast við að tryggja að hér verði farsælt samfélag um alla framtíð.

Gott orðspor Háskóla Íslands og sá metnaður sem liggur að baki prófgráðum frá skólanum er ekki aðeins viðurkenning á því öfluga starfi sem þegar hefur verið unnið heldur skapar það háskólanum jafnframt nýja og áður óþekkta möguleika til alþjóðlegs samstarfs og nemendum tækifæri til framtíðar. Með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi færir Háskóli Íslands samfélaginu nýjustu þekkingu í vísindum og opnar nemendum í reynd aðgang að heiminum öllum, en skólinn er nú þegar með yfir 500 samstarfssamninga við erlenda háskóla og í þeim hópi eru margir af fremstu háskólum heims. 

En það er okkur hollt að minnast þess að þessi mikli árangur er ekki sjálfgefinn. Hann er undir því kominn að þeir sem fara með almannavald og almannafé styðji öflugt háskólastarf í verki. Um leið og ég óska nýrri ríkisstjórn Íslands velfarnaðar í störfum sínum, vil ég nota tækifærið og hvetja hana til að byggja til framtíðar og forgangsraða í þágu háskólamenntunar. Fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni.

Kæru kandídatar. Við lifum á miklum breytingatímum og mannkynið stendur frammi fyrir áður óþekktum áskorunum. Efnahagslegur óstöðugleiki, vaxandi flóttamannastraumur, aukin umhverfisvá vegna loftslagsbreytinga, misskipting auðs, upplausn siðferðilegra gilda, og vaxandi þjóðernis- og einangrunarhyggja eru dæmi um málefni sem nú þegar setja mark sitt á daglegt líf okkar og munu væntanlega gera það í auknum mæli í framtíðinni. Háskólar mynda í eðli sínu alþjóðlegt samfélag fræði- og vísindafólks sem helgar sig leitinni að hinu sanna og rétta, hefur mannhelgi að leiðarljósi og mun aldrei sætta sig við falsrök eða mismunun á grundvelli kyns, trúar, þjóðernis eða uppruna. 

Atvinnumarkaðurinn mun ekki fara varhluta af því mikla umróti sem einkennir samtímann og ef að líkum lætur munu fjölmörg störf, sem við höfum gengið að sem vísum, hverfa og önnur, sem okkur hefur ekki órað fyrir fram til þessa, verða til. Við þurfum að spyrja okkur hvernig háskóli eigi að búa nemendur undir svo breyttan veruleika. Það er hollt að minnast þess að margar af þessum breytingum eru knúnar áfram af rannsóknum og uppgötvunum sem gerðar eru í háskólum – nýrri tækni, framsæknum sprotafyrirtækjum og upplýstum viðhorfum sem háskólarnir hafa fóstrað. Vísindaleg þjálfun og háskólamenntun er þannig lykill að samfélagi framtíðarinnar. En háskólanám verður í auknum mæli einnig að miða að því að þjálfa nemendur til að hugsa um heildina og út fyrir landamæri einstakra fræðigreina, því stærstu vandamál framtíðarinnar eru fæst bundin við einstakar fræðigreinar og verða aðeins leyst með samstarfi vísindafólks af ólíkum sviðum. Því er brýnt að efla samskiptahæfni, getu til að vinna saman í hópum, tungumálakunnáttu, menningarlegt læsi, frumkvöðlahugsun,  siðferðilega dómgreind og gagnrýna hugsun. Þannig á háskólamenntun ekki eingöngu að gera ungu fólki kleift að laga sig að breytilegum þörfum atvinnu- og þjóðlífs heldur einnig og ekki síður að gera því fært að taka virkan þátt í að móta samfélagið sem þau eru hluti af til framtíðar með þekkingu sinni og hugdirfsku.

Góðu kandídatar. Þegar upp er staðið er einn mikilvægasti ávinningur háskólanáms fólginn í því að öðlast tækifæri til að þroskast sem einstaklingar og verða betri manneskjur. En við háskólafólk hljótum líka að viðurkenna í auðmýkt að margir af erfiðustu lærdómum lífsins verða ekki numdir í skólum heldur í sjálfu umróti mannlífsins og í glímu við duttlunga náttúrunnar. Fyrir skömmu skók sá atburður okkar litla samfélag að ung stúlka í blóma lífsins, Birna Brjánsdóttir, var numin brott með voveiglegum hætti og svipt lífi. Hún var rænd framtíð sinni, tekin burt frá foreldrum, ættingjum og vinum. Enginn Íslendingur var ósnortinn af þessum hörmulega atburði. Og skömmu síðar lögðu þrír félagar úr Háskóla Íslands upp í fjallgöngu á Esjuna. Snjóflóð hreif þá með sér, tveir björguðust en einn ungur maður, Birgir Pétursson, fórst. Birgir hafði skilað meistararitgerð sinni í byggingarverkfræði áður en lagt var upp í fjallgönguna örlagaríku og hugðist standa hér uppi á sviði til að samfagna með okkur í dag. 

Fyrir hönd Háskóla Íslands votta ég aðstandendum Birgis og Birnu innilega samúð mína. 

Ágætu kandídatar. Þessir átakanlegu atburðir kenna okkur að vera minnug þess að ekkert er sjálfgefið. Lífið er óendanlega dýrmæt en líka brothætt gjöf. Andspænis hinstu rökum tilverunnar finnum við til samkenndar, kærleika og mikilvægi samstöðunnar. Við skulum vera minnug þess að styrkur samfélagsins ræðst af því hvernig við komum fram við þá sem standa veikastir og höllustum fæti. 

Í texta lagsins „Forever young“ fjallar nóbelskáldið Bob Dylan um það hvernig við getum verið ung að eilífu með því að huga að þeim gildum sem sameina okkur á þroskabrautinni. Hann segir:

Megirðu vaxa úr grasi og verða réttsýnn

Megirðu vaxa úr grasi og verða sannur

Megirðu alltaf þekkja sannleikann

Og sjá ljósin allt í kringum þig.

Megirðu alltaf vera hugrakkur

Standa uppréttur og vera sterkur

Og megirðu verða

Ungur að eilífu.

Kæru kandídatar. 

Nú er stund til að fagna. Njótum hennar. Göngum glöð út í daginn, fögnum með fjölskyldum okkar og vinum. Látum gott af okkur leiða.

Um leið og ég þakka ykkur fyrir hönd Háskóla Íslands fyrir samfylgdina á undanförnum árum og býð ykkar að taka við prófskírteinum ykkar, óska ég ykkur velfarnaðar í þeim fjölbreyttu verkefnum sem þið nú munuð taka ykkur fyrir hendur. 

Framtíðin er ykkar.

Jón Atli Benediktsson rektor ávarpar kandídata við brautskráningu í dag.