Skip to main content
9. júlí 2020

Aurora-háskólar fá risastyrk frá Evrópusambandinu

Evrópusambandið veitir allt að fimm milljónum evra til háskólanets Aurora á næstu þremur árum sem samsvarar um 800 milljónum íslenskra króna.

Háskóli Íslands fékk í dag risastyrk frá Evrópusambandinu ásamt samstarfsháskólum í Aurora-háskólanetinu en að því standa níu mjög öflugir háskólar víðs vegar um Evrópu. Markmið samstarfsins, sem er undir merkjum Aurora-Alliance, er að efla rannsóknir og kennslu í þágu þeirra samfélaga þar sem háskólarnir starfa. Evrópusambandið veitir fimm milljónir evra til verkefnis Aurora á næstu þremur árum sem samsvarar um 800 milljónum íslenskra króna úr Eramsus+ menntaáætluninni.  Netið verður að auki styrkt um tvær milljónir evra úr Horizon 2020-rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB.

„Háskóli Íslands hefur verið í forystu í Aurora-háskólanetinu og samþykkt umsóknar okkar er stórt skref fyrir skólann. Markmið evrópskra háskólaneta er að tryggja samkeppnishæfni háskóla í Evrópu, efla samstarf þeirra á milli, stuðla að þverfræðilegri samvinnu og auka hreyfanleika nemenda og starfsmanna,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

„Lykiláherslur Aurora-Alliance verkefnisins falla vel að áherslum Háskóla Íslands um sjálfbærni, nýsköpun og alþjóðlegt samstarf. Margir við Háskóla Íslands komu að undirbúningi umsóknarinnar sem nú hefur fengið stuðning. Ég vil þakka þeim öllum en nefni sérstaklega Aurora tengiliðina okkar, þau Friðriku Harðardóttur, forstöðumann skrifstofu alþjóðasamskipta, Halldór Jónsson, sviðsstjóra vísinda- og nýsköpunarsviðs og Magnús Þór Torfason, dósent við Viðskiptafræðideild.“

Aurora-Alliance verður eitt af svokölluðum European University háskólanetum sem ætlað er að efla samstarf evrópskra háskóla og styrkja þá til sóknar í samkeppni við háskóla annars staðar í heiminum. Með samvinnu háskólaneta undir merkjum European University verða grundvallarbreytingar á því hvernig háskólar í löndum Evrópu vinna saman.

„Samþykkt umsóknarinnar staðfestir enn og aftur sterka stöðu Háskóla Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Evrópsku háskólanetin gegna lykilhlutverki í tengslum við framtíðarþróun evrópskra háskóla, enda hefur verið mikil samkeppni um þessa styrki. Aurora-Alliance verkefnið mun ótvírætt skila miklu til íslensks samfélags. Það er mikil vinna framundan, en ég óska okkur öllum til hamingju.“

Grundvallarbreyting á samvinnu evrópskra háskóla

Jón Atli segir að Háskóli Íslands og aðrir evrópskir háskólar eigi í stóraukinni hnattrænni samkeppni.
„Þessi aukna samkeppni kallar á nánara samstarf evrópskra háskóla. European University-áætlun Evrópusambandsins styrkir samstarfsnet þar sem háskólar vinna saman að því að byggja upp háskóla framtíðarinnar. Slíkt samstarf mun stórefla gæði og samkeppnishæfni evrópskrar háskólamenntunar.“

Jón Atli segir jafnframt að Aurora-Alliance byggist á víðtækri þverfræðilegri samvinnu og áherslu á hreyfanleika. „Við munum efla alþjóðlega reynslu nemenda verulega með þessu verkefni,“ segir rektor og bætir því við að með stuðningi Evrópusambandsins nú verði nú stefnt að sameiginlegu námsframboði með samstarfsskólunum á öllum námsstigum.

Háskóli Íslands er alþjóðlegur háskóli

Háskóli Íslands starfar í alþjóðlegu umhverfi og er lífsnauðsynlegt fyrir Íslendinga að tryggja og treysta alþjóðlegt samstarf þar sem við búum í litlu vísinda- og fræðasamfélagi.

„Háskóli Íslands er í lykilstöðu í Aurora-netinu en við vinnum áfram af krafti í öðrum netum og með öðrum skólum,“ segir Háskólarektor. „Alþjóðlegt samstarf býður upp á mjög mikla möguleika bæði í rannsóknum og kennslu. Háskóli Íslands er með fjölmarga samstarfssamninga bæði austan hafs og vestan sem segja má að stækki íslenska háskólakerfið þar sem nemendur geta tekið hluta af námi sínu í skiptinámi auk þess sem vísindamenn eiga í miklu rannsóknasamstarfi. Háskólarnir í Aurora netinu hyggjast auka umfang slíks samstarfs enn frekar og samhæfa starf sitt eins og kostur er til að ná enn betri árangri í kennslu og rannsóknum,“ segir Jón Atli.

Björt framtíð háskóla

Þeir háskólar sem standa að Aurora-Alliance eru auk Háskóla Íslands, Copenhagen Business School (Danmörku), East Anglia háskólinn (Englandi), Federico II-háskólinn í Napolí (Ítalíu), Háskólinn í Duisburg-Essen (Þýskalandi), Háskólinn í Innsbruck (Austurríki), Palacky háskólinn í Olomouc (Tékklandi), Rovira i Virgili-háskólinn í Tarragona (Spáni) og Vrije-háskólinn í Amsterdam (Hollandi).

Framtíð háskólakerfisins er björt að mati Jóns Atla enda eru háskólar undirstaða velferðar í öllum samfélögum: „Þekking er lykill að framtíðinni og hlutverk Háskóla Íslands er að skapa og miðla þekkingu. Við höfum náð ótrúlegum árangri í Háskóla Íslands og þurfum að halda áfram á sömu braut í þágu íslensks samfélags. Það er lykilatriði að við séum samkeppnishæf á alþjóðavísu. Aurora-netið og þau verkefni sem við tökum þátt í á vettvangi þess hjálpa okkur á þeirri braut.“

Hér má sjá frétt Aurora-netsins um þetta efni

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands