Ásta Thoroddsen valin formaður ritstjórnar fyrir flokkunarkerfið ICNP | Háskóli Íslands Skip to main content
19. mars 2021

Ásta Thoroddsen valin formaður ritstjórnar fyrir flokkunarkerfið ICNP

Ásta Thoroddsen valin formaður ritstjórnar fyrir flokkunarkerfið ICNP - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ásta Thoroddsen, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, hefur verið valin formaður nýrrar ritstjórnar, sem nýlega var sett á laggirnar fyrir flokkunarkerfið ICNP (International Classification of Nursing Practice) af hálfu ICN, Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga. 

Hlutverk ritstjórnarinnar er m.a. að vera tengiliður við stjórn ICN og SNOMED International og vinna að framgangi og innleiðingu á ICNP á alþjóðavísu. Það er á ábyrgð ritstjórnarinnar að viðhalda innihaldi ICNP og vega og meta umsóknir um ný hugtök sem óskað er eftir, hve vel þau falli að hjúkrunarstarfinu og notagildi þeirra. 

ICNP er flokkunarkerfi eða fagorðaskrá, sem er safn samþykktra orða með hugtökum sem tilheyra hjúkrun. Það er þróað af ICN og er eitt af mörgum flokkunarkerfum á sviði heilbrigðisþjónustu og er sértækt fyrir hjúkrun. ICNP verður fljótlega tekið upp til skráningar í rafrænni sjúkraskrá á Íslandi.

„Það er mikill heiður fyrir mig og hjúkrunarfræðinga á Íslandi að vera valin í þetta embætti. Með þessu skapast tækifæri fyrir okkur að hafa enn meiri áhrif á hvernig hjúkrun er kynnt í gegnum hjúkrunarnæm hugtök og hvaða hugtök í hjúkrun við viljum sjá í  ICNP“ segir Ásta. 

Ásta er jafnframt forstöðumaður rannsókna- og þróunarsetur um ICNP á Íslandi sem var formlega stofnað árið 2020. Það er starfrækt innan Heilbrigðisvísindastofnunar Háskóla Íslands. Sjá nánar á heimasíðu ICNP á Íslandi.