Skip to main content
28. apríl 2023

Arfleifð íslenskra innflytjenda í Norður-Ameríku

Arfleifð íslenskra innflytjenda í Norður-Ameríku - á vefsíðu Háskóla Íslands

University of Manitoba Press hefur gefið út greinasafnið Icelandic Heritage in North America í ritstjórn Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessors emerita við Mála- og menningardeild HÍ, Höskuldar Þráinssonar, prófessors emeritus við Íslensku- og menningardeild HÍ, og Úlfars Bragasonar, rannsóknarprófessors emeritus. 

Stór hluti efnis bókarinnar á rætur að rekja til viðamikillar vettvangsrannsóknar á íslensku sem erfðarmáli í Bandaríkjunum og Kanada á árunum 2013–2015 sem RANNÍS styrkti. Höskuldur Þráinsson og Birna Arnbjörnsdóttir stjórnuðu því verkefni en í kjölfar rannsóknarinnar voru niðurstöður hennar og ýmissa rannsókna á menningu vesturfaranna og afkomenda þeirra birtar í bókinni Sigurtunga: Vesturíslenskt mál og menning, sem kom út 2018 hjá Háskólaútgáfunni í ritstjórn Birnu, Höskuldar og Úlfars. 

Icelandic Heritage in North America er yfirgripsmikið yfirlit yfir tungumál, bókmenntir og sögu íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra í Norður-Ameríku. Fræðigreinarnar lýsa íslenskri arfleifð „Vestur-Íslendinga“, þekkingu þeirra á íslensku sem erfðarmáli og bókmenntaverkum íslensku innflytjendanna, og túlka bréf, dagblöð og dagbókarfærslur vesturfaranna til að skýra viðhorf þeirra til sín og nýja heimsins. Niðurstöðurnar sýna hvernig mál og menning vesturfaranna hefur þróast og breyst frá fyrstu vesturferðunum til nútímans.

Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, rita formála en ritstjórarnir skrifa inngang að greinasafninu og lýsa rannsóknunum. Birna Arnbjörnsdóttir ritar lokaorð og gerir grein fyrir stöðu rannsókna á vesturíslensku máli og menningu nú. Sjóður Páls Guðmundsson frá Rjúpnafelli, sem er í vörslu Háskóla Íslands, styrkti útgáfu greinasafnsins.

Nánari upplýsingar um bókina á vef University of Manitoba Press.

Úlfar Bragason, Birna Arnbjörnsdóttir og Höskuldur Þráinsson.