Alvarlegum blæðingum eftir kransæðahjáveituaðgerð hefur fækkað á Íslandi | Háskóli Íslands Skip to main content
17. maí 2020

Alvarlegum blæðingum eftir kransæðahjáveituaðgerð hefur fækkað á Íslandi

""

Bráðaenduraðgerðum vegna alvarlegra blæðinga eftir kransæðahjáveitu hefur fækkað marktækt á sl. áratug hér á landi, en blæðingar eru á meðal hættulegustu fylgikvilla þessara aðgerða og geta jafnvel dregið sjúklinga til dauða. Fækkun blæðinga er því afar mikilvægt skref í að bæta árangur þessara aðgerða enn frekar. Þetta sýnir ný rannsókn sem vísindamenn og nemendur við Læknadeild Háskóla Íslands og Landspítala hafa unnið og birtist á dögunum í Scandinavian Cardiovascular Journal.

Kransæðahjáveituaðgerð er framkvæmd við alvarlegum þrengslum í öllum helstu kransæðum hjartans. Þetta er algengasta opna hjartaaðgerðin og eru framkvæmdar rúmlega 100 slíkar aðgerðir árlega á Íslandi. Fyrir aðgerðina eru sjúklingarnir iðulega á lyfjum sem hemja virkni blóðflagna og blóðstorkukerfis í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að stíflaðar kransæðar stíflist alveg. Í aðgerðinni er síðan gefið blóðþynningarlyf sem kallast heparín og hindrar storkumyndun í gervilunga og slöngum hjarta- og lungnavélar, en hún er nauðsynleg til að geta stöðvað hjartað í aðgerðinni. Fyrst eftir aðgerðina eru blæðingar því stórt vandamál en oftast svara þær storkuhvetjandi lyfjum og gjöfum blóðhluta. Stundum dugar slík meðferð þó ekki til og þá verður að færa sjúklinginn af gjörgæsludeild aftur inn á skurðstofu til að stöðva blæðinguna og hreinsa út gamalt blóð. 

Rannsóknin sem fjallað er um í Scandinavian Cardiovascular Journal náði til alls 2060 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á tímabilinu 2001-2016. Bornir voru saman 130 sjúklingar sem gengust undir enduraðgerð við 1930 sjúklinga sem ekki þurftu slíka aðgerð, m.a. hvað varðar tíðni fylgikvilla í hópunum, 30 daga dánartíðni og langtíma lífshorfur. 

Í ljós kom að enduraðgerð þurfti í 6,3% tilfella yfir allt rannsóknartímabilið sem er í hærra lagi. Hins vegar kom í ljós að enduraðgerðum fækkaði um 4,1% á ári að meðaltali, eða úr 10-11% aðgerða þegar tíðni var hæst í undir 4% aðgerða frá 2013 – og hefur sl. 3 ár lækkað enn frekar. Sjúklingar í enduraðgerðahópi glímdu oftar við hjartabilun og voru oftar á kröftugum blóðflöguhemjandi lyfjum. Hjá þeim reyndist tíðni alvarlegra fylgikvilla annarra en blæðinga einnig helmingi hærri, lega á gjörgæslu helmingi lengri og 30 daga dánartíðni næstum fimmfalt meiri en sjúklinga sem ekki þurftu á enduraðgerð að halda. Eftir 30 daga reyndust lífshorfur hins vegar sambærilegar sem bendir til þess að áhrif blæðinga á horfur séu aðallega bundnar við fyrstu vikurnar eftir aðgerðina. 

Niðurstöðurnar eru afar ánægjulegar og mikilvægt skref í að bæta árangur kransæðahjáveituaðgerða enn frekar. Fækkun blæðinga hefur áhrif á lífshorfur og lífsgæði sjúklinga og dregur úr leið úr þeim mikla aukakostnaði sem hlýst af enduraðgerðum. Skýringuna á bættum árangri má sennilega rekja til ýmissa samverkandi þátta en veigamest er sennilega notkun svokallaðra ROTEM-storkumælingartækja sem tekin var upp fyrir rúmum áratug en sem rútína sl. 7 ár á Landspítala. Hún gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift í lok aðgerðar að mæla hvaða storkulyf og blóðhluta má gefa til að minnka blæðingu. Einnig telja höfundar að rannsóknin sjálf hafi aukið áhuga teymisins á viðfangsefninu og almennt hvatt til bætts árangurs. 

Fyrsti höfundur greinarinnar er Steinþór Marteinsson, deildarlæknir á Skurðsviði Landspítala, en Tómasar Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir stýrði rannsókninni.  
 

Frá kransæðahjáveituaðgerð