Alþjóðlegur vinnuhópur um vettvangsrannsóknir á Mars staddur á Íslandi
Í þessari viku eru fulltrúar frá öllum helstu geimferðastofnunum heims staddir á Íslandi til að taka þátt í ráðstefnu undir hatti IMEWG-samstarfsins (International Mars Exploration Working Group), en það er alþjóðlegur vinnuhópur um vettvangsrannsóknir á Mars.
Á mánudag var almenningi boðið upp á opinn fund í Grósku þar sem sagt var frá því markverðasta sem er að gerast í könnun geimsins og mögulegu hlutverki Íslands í þeim rannsóknum. Þetta var í fyrsta sinn sem fundur IMEWG er opinn almenningi.
Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, setti fundinn og hélt stutt ávarp. Þar á eftir héldu fulltrúar NASA, ESA og annarra geimstofnana erindi og svöruðu spurningum gesta.
Að sögn Sigurðar Magnúsar Garðarssonar, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og stjórnarformanns Vísindagarða, er mikill fengur í að fá vinnuhópinn til landsins. Hann bendir jafnframt á að áhugi alþjóðlegra geimstofnana á Íslandi sé mikill, sökum þess hve landslag og jarðfræði Íslands er líkt með landslaginu á Mars. Einnig bendir Sigurður á þá áhugaverðu staðreynd að þær prófanir og þróanir á tækjum og tólum sem notuð eru í ferðum til Mars séu gerðar að hluta til á Íslandi.
Að sögn Richard Davis, starfsmanns NASA, eru fjölmörg tækifæri fyrir geimstofnanir á Íslandi. Hann bendir enn fremur á að á Mars hafi verið mikil eldfjallavirkni og að ís sé þar neðanjarðar. Þess vegna sé möguleikinn á því að stunda rannsóknir á Íslandi ómetanlegur og mörg tækifæri til að læra af þeirri þekkingu sem íslenskir vísindamenn búa yfir.
Ráðstefna IMEWG er skipulögð af Geimvísindastofnun Íslands (ISA), Vísindagörðum og Háskóla Íslands.