Skip to main content
5. nóvember 2020

Alþjóðadegi rómískunnar fagnað með útgáfu smásagnasafns 

Alþjóðadegi rómískunnar fagnað með útgáfu smásagnasafns  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Alþjóðadegi rómískunnar, tungumáls Rómafólks, er fagnað í dag, 5. nóvember, og af því tilefni hefur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum gefið út smásagnasafnið Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks sem hefur að geyma smásögur eftir sex rithöfunda frá 20. og 21. öld.

Sofiya Zahova, rannsóknasérfræðingur við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, valdi sögurnar í bókina en hún leggur stund á rannsóknir á bókmenntum og menningu Rómafólks. Hún stýrir enn fremur þverfaglega rannsóknanetinu Roma in the Centre þar sem margir af helstu sérfræðingum heims í málefnum Rómafólks eru meðal þátttakenda. Zofia ræddi við okkur um rómísku, menningu Rómafólks og bókina nýju.

Getur þú sagt okkur meira um daginn og hvernig haldið er upp á hann?

Þessi dagur á sér heillandi sögu, sem hófst með grasrótarátaki menntamanna og aðgerðasinna úr hópi Rómafólks sem breyttist að lokum í alþjóðlegan dag, viðurkenndan af Sameinuðu þjóðunum. 

Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur í Króatíu upp úr aldamótum 2000 í tilefni af útgáfu rómísk-króatískrar orðabókar eftir Veljko Kajtazi, rómískan aðgerðarsinna og stjórnmálamann, sem nú er þingmaður á króatíska þinginu. Bókin kom út þann 5. nóvember og hefur rómísku máli alla tíð síðan verið fagnað á þessum degi í Króatíu með upplestri úr bókmenntum, bókakynningum og verðlaunum fyrir framlag til þróunar rómíska tungumálsins. Siðurinn breiddist svo út meðal Rómafólks í öðrum löndum. Eftir tillögu stjórnvalda í Króatíu var það svo samþykkt á Allsherjarþingi UNESCO að 5. nóvember yrði Alþjóðadagur rómískrar tungu til þess að stuðla að varðveislu og rannsóknum á tungumáli og menningu Rómafólks í þeim löndum þar sem rómískan er töluð. Stofnanir á borð við Evrópuráðið hafa einnig fagnað deginum og hann er nú haldinn hátíðlegur í mörgum löndum heims þar sem Rómafólk býr. Dagurinn er einn af þremur alþjóðlega viðurkenndum dögum tileinkuðum Rómafólki. Hinir tveir eru 8. apríl, Alþjóðadagur Rómafólks, og 2. ágúst þegar minnst er helfarar Rómafólks í seinni heimsstyrjöldinni.

Þrátt fyrir að hann eigi sér ekki langa sögu verða hátíðarhöld í tilefni dagsins sífellt vinsælli meðal Rómafólk enda er rómíska tungumálið einn mikilvægasti þátturinn í sjálfsmynd og menningu Rómafólks, nú sem fyrr.

Hvað getur þú sagt okkur um rómíska tungumálið?

Rómíska, sem á frummálinu kallast Romani čhib eða Romanes, er indó-arískt tungumál sem talað hefur verið í Evrópu líklega frá öndverðri 14. öld eða frá því að Rómafólk kom til álfunnar. Tungumálið skipar mikilvægan sess í sjálfsmynd þessa fólks. Ekki eru til opinberar tölur um fjölda þeirra sem tala rómísku en sérfræðingar telja að hún sé móðurmál um 3–4 milljóna. Fjöltyngi hefur alltaf verið hluti af veruleika Rómafólks og utan eigin hóps talar það tungumál meirihlutans þar sem það býr. Rómísku er oftast skipt í fjóra mállýskuhópa sem skiptast í undirhópa og enn aðrar mállýskur. Tungumálið á sér ekki langa rithefð en notkun þess hefur færst mjög í aukana, bæði á prenti og á veraldarvefnum. Í sumum löndum, eins og Rúmeníu og Slóvakíu, hafa verið gefnar út staðlaðar stafsetningarreglur sem notaðar eru í kennsluefni fyrir Rómabörn. Í öðrum löndum, t.d. í Svíþjóð og Austurríki, hafa stjórnvöld ákveðið að gefa út bækur á öllum þeim mállýskum sem talaðar eru í löndunum. Í alþjóðlegu samhengi ríkir ekki sátt um að nota eina mállýsku frekar en aðra sem ritmál og algengt er að rómískir rithöfundar skrifi á sinni mállýsku og noti stafróf þess tungumáls sem notað er í heimalandi þeirra.

Ritstjórar bókarinnar Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks eru Sofiya Zahova, Kristín Guðrún Jónsdóttir  og Ásdís Rósa Magnúsdóttir. Hún er gefin út á Alþjóðlegum degi rómískunnar af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaúgáfunni. 

Verður Alþjóðadagur rómískunnar haldinn hátíðlegur á Íslandi?

Já, en vegna aðstæðna getum við ekki boðið upp á viðburð í Veröld – húsi Vigdísar með þátttöku málfræðinga og höfunda úr hópi Rómafólks, eins og upphaflega var áætlað. En við ætlum að fagna deginum með einni áhrifaríkustu leiðinni til að kynnast félagslegri, menningarlegri og sögulegri reynslu Rómafólks  - með útgáfu smásagnasafns.

Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks er fyrsta bókin sem kemur út á íslensku eingöngu með verkum Rómafólks eða Sígauna. Bókin er gefin út í tengslum við þverfaglega rannsóknanetið Roma in the Centre og sem hluti af ritröð einmála bóka í samvinnu við Háskólaútgáfuna. Hún inniheldur valdar smásögur eftir sex af þekktustu Róma-höfundum heims: Georgí Tsvetkov (Rússlandi), Ilona Ferková (Tékklandi), Jess Smith (Skotlandi), Jorge Emilio Nedich (Agrentínu), Jovan Nikolić (Serbía / Þýskalandi) og Matéo Maximoff (Frakklandi). Þar sem Rómahöfundar skrifa oft á tungumáli meirihlutans koma þessir höfundar frá mismunandi tungumálahefðum og hafa sinn eigin ritstíl og frásagnarhátt. Innan þessa fjölbreytta hóps getum við engu að síður séð viðfangsefni sem eru dæmigerð fyrir bókmenntir Rómafólks, eins og erfiða reynslu í sögulegu samhengi, mismunun, sterk fjölskyldutengsl og mikilvægi munnlegrar frásagnahefðar. Þessi þemu eru mjög algeng í bókmenntum Rómafólks um allan heim.

Svo þetta er bók um Rómafólk, skrifuð af höfundum úr þeirra hópi, en þýdd og ritstýrð á íslensku?

Við höfum flest kynnst því hvernig Rómafólk eða Sígaunar hafa verið túlkaðir í bókmenntum, listum og fjölmiðlum heimsins í gegnum tíðina. En fáir vita að Rómafólk hefur frá miðri 19. öld skapað sér umtalsverðan bókmenntaarf. Við hjá Vigdísarstofnun höfum komist að því að íslenska er eitt þeirra opinberu tungumála í Evrópu sem bókmenntir Rómafólks hafa ekki verið þýddar á, að undanskildum nokkrum ljóðum í þýðingu Einars Braga.

Sögurnar af bókunum eru allar eftir höfunda úr hópi Rómafólks, þýddar á íslensku af Ásdísi Rósu Magnúsdóttur, Irenu Guðrúnu Kojić, Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur, Rebekku Þráinsdóttur og Renötu Emilssyni Peskova. Ég sá um valið á verkunum með það í huga að gefa sem fjölbreyttasta mynd af smásögum rómískra rithöfunda. Við Ásdís Rósa Magnúsdóttir skrifum inngang bókarinnar, þar sem við rekjum sögu rómískra bókmennta og segjum frá helstu einkennum þeirra. Málvísindamaðurinn Ian Hancock, sem er einn mikilvægasti baráttumaður samtímans fyrir réttindum Rómafólks, skrifar eftirmála. Ásdís Rósa Magnúsdóttir og Kristín Guðrún Jónsdóttir ritstýrðu textunum og ég vil nota tækifærið til að þakka þeim fyrir þeirra miklu og framúrskarandi vinnu við útgáfu bókarinnar.

Og að lokum, er eitthvað á rómísku máli í bókinni?

Margir rómískir höfundar innlima rómíska tungumálið í beinni ræðu persónanna eða nota rómísk orð um mikilvæg menningarfyrirbæri sem þýðast ekki á fullnægjandi hátt á önnur tungumál. Sumir höfunda bókarinnar Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks nota einnig orðasambönd og orð á rómísku og við höfum reynt að halda þeim á rómísku í íslensku þýðingunni til að virða þann stíl sem höfundarnir vilja koma á framfæri. Dæmi um slíkt eru kveðjur sem Rómafólk skiptist á. Það er því vel við hæfi að við endum þetta með því að kveðja á rómísku: Te oven saste thaj baxtale! Verið sæl og blessuð!

Áhugasöm geta fræðst frekar um bókina á Hugvarpi – hlaðvarpi Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Þar er rætt við þær Ásdísi Rósu Magnúsdóttur og Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur um hana.

"Sofiya Zahova"