Allir nemendur geta náð framúrskarandi árangri | Háskóli Íslands Skip to main content
12. desember 2019

Allir nemendur geta náð framúrskarandi árangri

Lesskilningur barna er mun lakari hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og töluvert undir meðaltali OECD-ríkjanna. Lesskilningur og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur lítið breyst frá síðustu PISA-könnun fyrir þremur árum. Þriðjungur drengja mælist ekki með grunnhæfni í lesskilningi og í heildina nær fjórðungur nemenda ekki viðmiðum. Frammistaða íslenskra nemenda er talsvert misjöfn milli landshluta en nemendur á höfuðborgarsvæðinu stóðu sig betur en nemendur í öðrum landshlutum. Þá er það áhyggjuefni hversu fáir teljast afburðanemendur. 

Þetta er meðal atriða í niðurstöðum nýrrar PISA-könnunar OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) sem voru kynntar á fjölmennum fundi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í síðustu viku.

Menntavísindasvið og Menntamálastofnun boðuðu til fundarins en sérfræðingar beggja stofnana hafa unnið að greiningu gagna og túlkun niðurstaðna síðustu vikurnar. Þetta er í annað sinn sem slíkur fundur er haldinn hér á landi en mikilvægt er að auka skilning á þýðingu niðurstaðna PISA fyrir íslenskt menntakerfi. Fundarstjóri var Kolbrún Þ. Pálsdóttir forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. 

Upptöku af fundinum má nálgast HÉR

Ekki sjálfgefið að börn læri íslensku

Frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi í heild hefur ekki breyst marktækt frá síðustu könnun PISA en þó hefur nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings fjölgað hlutfallslega.

Baldur Sigurðsson, dósent og Sigríður Ólafsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, fjölluðu um stöðu og þróun lesskilnings. Með lesskilningi er átt við getu nemenda til að nýta sér ritaðar upplýsingar í daglegu lífi til að geta uppfyllt persónulegar, samfélagslegar og menntunarlegar þarfir sínar.

Í erindi þeirra kom fram að lykilatriði sé að efla orðaforða og sú þjálfun fari fram alla ævi. „Skýr tengsl orðaforða og lesskilnings hafa komið fram í fjölmörgum rannsóknum. Lestrariðkun er forsenda framfara í lestri, en munur á orðaforða og lesskilningi barna hefur tilhneigingu til að aukast með aldri. Ef of mörg orð í texta eru lesanda framandi lendir hann í vandræðum og nær ekki að vinna frekar með efnið,“ útskýrir Sigríður. 

Mörg sóknarfæri eru í stöðunni til að efla lesskilning nemenda. Svíar horfðu t.d. fram á verulega afturför í lesskilningi í PISA-könnunum fram að árinu 2012 en gripu þá til markvissra aðgerða. Í kjölfarið hefur frammistaða sænskra nemenda tekið miklum framförum, kennslustundum í sænsku hefur verið fjölgað og starfsþróun kennara efld. 

Samkvæmt skýrslu OECD frá árinu 2010 eiga allir nemendur að geta náð framúrskarandi árangri. „Til þess að það sé mögulegt þarf að ná fram sameiginlegum skilningi á stefnunni menntun án aðgreiningar á Íslandi. Við verðum að geta mætt hverjum og einasta nemenda á faglegan hátt en aðeins 26% íslenskra unglingastigskennara telja sig vel undirbúna til að mæta þörfum nemenda með ólíka námsgetu,“ bendir Sigríður á. Þess má geta að 61% sænskra kennara telja sig vel gæta mætt þörfum allra nemenda. 

„Tækifæri til framfara hér á landi felast í auknum rannsóknum á íslenskum orðaforða sem liggur til grundvallar námsárangri. Fjölga þarf kennslustundum í íslensku og meiri áhersla á að vera á djúpan skilning, umræður og ritun. Mikilvægt er líka að efla læsi þvert á námsgreinar.“

Sjá: „Verðum að nýta tímann betur“

Stúlkur bæta sig meira en drengir í stærðfræði

Íslenskir nemendur stóðu sig í heild marktækt betur í læsi á stærðfræði en í síðustu PISA-könnun og eru rétt yfir meðaltalinu í löndum OECD. Þá náðu hlutfallslega fleiri stúlkur grunnhæfniviðmiðum PISA í læsi á stærðfræði en í síðustu könnun. Árangur ársins 2018 er svipaður og árið 2012.

Með stærðfræðilæsi er átt við getu einstaklings til að setja fram, beita og túlka stærðfræði í margs konar samhengi. Í því felst að geta beitt stærðfræðilegri röksemdafærslu, að geta notað stærðfræðileg hugtök, aðferðir, staðreyndir og hjálpartæki til að lýsa, skýra og spá fyrir um fyrirbæri. 

Freyja Hreinsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, rýndi í niðurstöður á læsi í stærðfræði. „Helstu niðurstöðurnar eru þær að stúlkur hafa bætt sig meira en drengir. Hlutfallslega færri íslenskir unglingar eru á neðsta hæfniþrepinu sem er mjög jákvæð þróun. Ef rýnt er í gögn ársins 2012, en þá var stærðfræði aðalsvið, kemur fram nokkur munur á mismunandi færnisviðum. Þannig gengur íslenskum nemendum vel  að setja fram, í meðallagi að beita frekar einfaldum reikningum og frekar illa að túlka stærðfræðilegar niðurstöður en hið síðastnefnda á sérstaklega við um stráka,“ segir Freyja.

Freyja mælir með að stærðfræðikennsla á yngsta stigi og miðstigi grunnskólans verði skoðuð sérstaklega og að sett verði af stað umbótaverkefni í stærðfræðikennslu að sænskri fyrirmynd. 

Sjá: Útkoman umhugsunarverð

Standa verr að vígi í læsi á náttúruvísindi

Frammistaða íslenskra nemenda í læsi á náttúruvísindi er nær óbreytt frá því í síðustu könnun. Íslenskir nemendur standa áfram verst að vígi miðað við jafnaldra þeirra á Norðurlöndunum.

Auður Pálsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, fjallaði um mögulegar skýringar á slæmri stöðu nemenda í náttúrufræði og til hvaða aðgerða þurfi að grípa í framhaldinu. Hún bendir á að hlutfall náttúrugreina af heildarkennslu unglinga hér á landi sé langlægst af Norðurlöndunum.

Þá er um þriðjungur íslenskra grunnskólakennara sem ber ábyrgð á náttúrufræðikennslu menntaður á sviði náttúru-fræða. „Meirihluti kennara hefur því hvorki sérþekkingu í náttúrufræðigreinum né kennslufræði náttúrufræðigreina. Eins hafa rannsóknir á skólastarfi sýnt að kennarar eru mjög bundnir bókum. Skortur er á verklegu námi, lítið er um útikennslu og sömu sögu er að segja um þrautalausnir og getu til að takast á við þær. Í PISA-könnuninni er slík hæfni m.a. mæld.“

Að sögn Auðar er áríðandi að beina sjónum að námsmati í náttúrugreinum og hvernig nemendur fá upplýsingar eða endurgjöf um eigin framfarir. „Þá þarf að stórefla starfsþróun náttúrufræðikennara, endurskoða námsefni og kennsluleiðbeiningar, og endurskoða aðalnámskrána. En umfram allt verður að bæta endurgjöf til nemenda um framvindu árangurs þeirra í námi og styðja kennara í að veita nemendum slíka endurgjöf,” skýrir Auður.

Sjá: Snýst um getu kennara ekki græjur
Sjá: Slök útkoma bókmenntaþjóðar í náttúrufræði

Þjónar engum tilgangi að leita sökudólga

Miklar og heitar umræður skapast í samfélaginu um menntamál í hvert sinn sem niðurstöður PISA-könnunarinnar eru birtar. Í því samhengi er almenningi oft tíðrætt um skort á gæðum í íslensku skólastarfi.

„Oftast er umræðan málefnaleg en stundum einkennist hún af upphrópunum, leitað er sökudólga eða einföldum lausnum skellt fram. Eftir skamman tíma hljóðnar umræðan og liggur jafnvel í dvala þar til niðurstöður næstu PISA-könnunar eru birtar, í ljós kemur að þær ráðstafanir sem gripið var til hafa ekki dugað og enn og aftur lendir Ísland of neðarlega á listanum. Þetta gerist á Íslandi og í mörgum öðrum löndum,“ segir Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor við Háskóla Íslands, en hún hefur rannsakað menntaumbætur í skólum og menntakerfum um árabil.

„Eitt af brýnustu viðfangsefnum í íslensku menntakerfi er að efla traust og styrkja fagmennsku á öllum stigum kerfisins. Engin leið er að vita nákvæmlega hverjar eru ástæður fyrir slakri útkomu íslenskra unglinga í PISA, þær geta legið í ákvörðunum sem voru teknar eða ekki teknar fyrir löngu síðan. Ekki er heldur hægt að segja til um hvort aðgerðir sem gripið hefur verið til síðan 2015 hafi skilað árangri eða ekki, mögulega hefur eitthvað sem ekki var gert eða gert ranglega spillt fyrir árangri. Því þjónar það ekki tilgangi að leita sökudólga. Líta þarf fram á veginn, greina veikleika og styrkleika menntakerfisins út frá breiðu sjónarhorni, viðurkenna stöðuna og taka stefnuna þaðan, með hag allra barna að leiðarljósi og með hugsjón um jöfnuð, faglega þekkingu og hæfni í farteskinu,“ segir Anna Kristín að endingu.

Sérrit Netlu um niðurstöður PISA

Ólíkar raddir verða að heyrast

Í lok fundarins sköpuðust fjörlegar umræður hjá fyrirlesurum og öðrum fundargestum.
Til að mynda var bent á eftirfarandi atriði:

•    Kennarar verða að eiga skýra aðild að menntaumbótum
•    Samþætting námsgreina er mikilvæg í þessu samhengi, t.d. í list- og verkgreinum
•    Staða íslenskunnar er breytt í samfélaginu með tilkomu nýrra miðla
•    Huga þarf markvisst að vinnufrið kennara og skólabrag 
•    Skapa þarf gott námsumhverfi

Þá var einnig rætt um almenna velferð nemenda. Ráða þarf bót á lítilli hreyfingu og of litlum svefn unglinga og líta þarf heildstætt á menntun, nám og þroska.

Um PISA-könnunina

PISA er alþjóðlegt könnunarpróf sem framkvæmt er á þriggja ára fresti í 79 löndum. Könnunin var lögð fyrir 15 ára nemendur á Íslandi vorið 2018. Kannaður er lesskilningur og læsi á stærðfræði og náttúruvísindi en ein greinanna er áherslugrein í hvert sinn. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á lesskilning.

Menntamálastofnun sér um framkvæmd PISA-könnunarinnar hér á landi. Stofnunin hefur tekið saman skýrslu þar sem fjallað er um helstu niðurstöður og þær bornar saman við niðurstöður annarra þátttökuríkja.

Skýrslu um niðurstöður PISA má nálgast HÉR
 

Hvað segja sérfræðingar Menntavísindasviðs um niðurstöður PISA-prófsins? Frá vinstri: Baldur Sigurðsson dósent, Sigríður Ólafsdóttir lektor, Freyja Hreinsdóttir dósent, Auður Pálsdóttir lektor, og Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor. MYND/ Samsett