Skip to main content
5. desember 2022

Aflar nýrrar þekkingar til að bæta heilsu 

Aflar nýrrar þekkingar til að bæta heilsu  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Mikið hefur verið fjallað í fréttum um lífsstíl ungmenna sem í einhverjum tilvikum helgast af löngum setum yfir snjalltækjum og tölvum og minni hreyfingu en áður var partur af hefðbundnu uppeldi. Rannsóknir sýna fram á mikilvægi þess að ungmenni hreyfi sig nægjanlega en langtímarannsóknir hafa verið í gangi víða þar sem leitað er svara við því hvort hreyfing í æsku hafi jákvæð áhrif á heilsufar síðar á lífsleiðinni. Fjöldi niðurstaðna styður að svo sé. Vísindafólk telur því afar brýnt  að fylgjast með því og mæla hvernig hreyfing þróast meðal ungmenna yfir tíma. 

Nú er einmitt í gangi rannsókn við HÍ sem snýst um að skoða hreyfingu og þrek íslenskra ungmenna frá sjö til sautján ára aldurs en markmiðið er að sjá hvernig þessir þættir breytast á þessum tíma og hvaða áhrif breytingarnar hafa á andlega og líkamlega heilsu ungmennanna. 

„Rannsókn sem kölluð er Heilsuhegðun ungra Íslendinga hófst árið 2006 þegar krökkum úr sex grunnskólum í Reykjavík var boðin þátttaka og þeim svo fylgt eftir og þau rannsökuð fjórum sinnum yfir tíu ára tímabil,“ segir doktorsneminn Þuríður Helga Ingvarsdóttir. „Gögn úr stóru rannsókninni gefa einstakt tækifæri til að fylgjast með langtímabreytingum á heilsutengdri hegðun íslenskra barna frá barnæsku til unglingsára.“ 

Rannsókn Þuríðar Helgu fer fram við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda.

Vísindakona sem vill fyrirbyggja sjúkdóma 

Áhugi Þuríðar Helgu hefur helst legið á sviði heilsutengdrar hegðunar og þróunar lífsstílstengdra sjúkdóma. Hún er hjúkrunarfræðingur og komst að því í hjúkrunarfræðináminu að hún vildi frekar leggja áherslu á forvarnir og að fyrirbyggja sjúkdóma og heilsufarsleg vandamál en að vinna með afleiðingar slíkra vandamála þegar þau væru fram komin. „Þá getur skipt máli að reyna að beita hnitmiðuðum fyrirbyggjandi aðgerðum snemma á lífsleiðinni, þar sem sú heilsutengda hegðun sem einstaklingar tileinka sér á yngri árum er líkleg til að fylgja þeim að einhverju leyti og hafa áhrif á heilsu þeirra seinna á lífsleiðinni,“ segir Þuríður Helga. 

Það eru ekki komnar niðurstöður úr rannsókn hennar enn en vísindafólkið býst þó við því að hreyfing og þrek íslenskra barna minnki á þessum tíma og að lítil hreyfing og verra þrek tengist verri líkamlegri og andlegri heilsu þeirra á þessu tímabili.

Í heildarstefnu Háskóla Íslands er lögð rækt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en þar er heill kafli helgaður heilsu og velferð. Þuríður sér afar skýr tengsl rannsóknarinnar við þau sjálfbærnimarkmið. 

„Rannsóknin mín tengist undirmarkmiði 3.4, hún snýr að því að kanna stöðu heilsutengdra þátta íslenskra barna í því skyni að geta beitt hnitmiðuðum fyrirbyggjandi aðgerðum til að stuðla að bættri heilsu og vellíðan þeirra. Þessi rannsókn mun veita dýrmætar upplýsingar um stöðu mikilvægra heilsufarslegra þátta meðal íslenskra barna og hvernig þeir breytast yfir tíu ára tímabil. Rannsóknin gefur tækifæri til að sjá hvar hægt er að gera betur í heilsueflingu barna og unglinga og þannig beita aðgerðum á hnitmiðaðri hátt í þeim tilgangi að efla heilsu og heilbrigði þjóðarinnar.“

Sjálfbærni felst í að nýta sér þekkingu til að bæta velferð fólks

Þuríður Helga segir að nýsköpun í rannsókninni felist í því að afla nýrrar þekkingar á sviði heilsu. „Sjálfbærni mun einnig eiga sér stað ef heilbrigðisyfirvöld nýta sér þessa nýju þekkingu til að bæta líðan og velferð fólks til lengri tíma litið.“

Þuríður Helga segir að í nútíma vestrænum þjóðfélögum sé afar mikilvægt að stundaðar séu rannsóknir til að afla gagnreyndrar þekkingar um lifnaðarhætti fólks og þá þætti sem hafa áhrif á almenna heilsu og velferð þess. „Afrakstur rannsókna veitir að sama skapi tækifæri til að hafa bein áhrif á þá heilsufarsþætti sem betur mega fara og þannig efla og bæta heilsu fólks, vellíðan þess og velferð.“

Aðalleiðbeinandi Þuríðar Helgu í doktorsverkefninu er Erlingur Jóhannsson, prófessor á menntavísindasviði HÍ, og meðleiðbeinandi er Nanna Ýr Arnardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri. Annað samstarfsfólk hennar í doktorsverkefninu eru Vaka Rögnvaldsdóttir og Rúna Sif Stefánsdóttir, sem báðar eru lektorar við Menntavísindasvið HÍ, og Óttar Guðbjörn Birgisson, aðjunkt og doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ.

Þuríður Helga Ingvarsdóttir