Skip to main content
6. nóvember 2020

Á snjóþrúgum við heimsskautsbaug sigraði í ljósmyndakeppni á Alþjóðadögum

Brot úr ljósmyndasýningu á Alþjóðadögum

Ljósmynd Elíasar Arnars bar sigur úr býtum í ljósmyndasamkeppni sem efnt var til í tilefni af Alþjóðadögum Háskóla Íslands. Dómnefndin var einróma í vali sínu á myndinni en alls bárust rúmlega hundrað ljósmyndir. Myndirnar voru settar upp í rafrænt gallerí og verða til sýnis út nóvember.

Skrifstofa alþjóðasamskipta við Háskóla Íslands stóð fyrir ljósmyndasamkeppninni en þar gafst nemendum, sem farið hafa í skiptinám eða eru í skiptinámi, kostur á að deila ljósmyndum sem lýsa upplifuninni af skiptinámi vel.

Elías Arnar var skiptinemi við Háskólann í Bergen á vormisseri 2020 og stundar nám í landfræði við Háskóla Íslands. Í verðlaun eru tveir miðar í FlyOver Iceland og matur fyrir tvo í Stúdentakjallaranum. Við óskum honum til hamingju og þökkum öllum þeim sem tóku þátt.

 Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu kemur fram að myndin nái að tjá þætti í skiptinámsreynslunni mjög vel. Í matinu segir að myndin sé fallega samsett og ljósmyndunin frábær. „Það að mynda fólk getur verið krefjandi hvað varðar fagurfræði og uppbyggingu en myndin nær hvoru tveggja einstaklega vel. Myndin er einnig lýsandi fyrir félagslegu hlið skiptinámsins en skiptinemar segja oft að vinirnir sem þeir eignast í skiptináminu séu það sem stendur upp úr og ljósmyndin fangar vel þá vináttu og traust sem getur skapast. Myndin hefur einnig skírskotun í eitthvað ævintýralegt þar sem manneskjurnar tvær eru í víðáttumikilli náttúrunni en um leið hafa þær hvora aðra til að halla sér að."
 
Dómnefndina skipuðu Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari við Háskóla Íslands, Nanna Teitsdóttir, verkefnastjóri á Skrifstofu alþjóðasamskipta, og Emily Helga Reise, alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

 

Vinningsmyndin