Skip to main content
20. janúar 2015

165 milljónir í öndvegisstyrki til vísindamanna HÍ

Fimm öndvegisstyrkir samtals að upphæð tæplega 165 milljónir króna, sem Rannsóknasjóður Vísinda- og tækniráðs úthlutaði til nýrra rannsóknaverkefna fyrir árið 2015, voru allir veittir til verkefna undir stjórn vísindamanna við Háskóla Íslands. Þetta varð ljóst nýverið þegar stjórn sjóðsins lauk úthlutun sinni. Auk þess komu sjö rannsóknastöðustyrkir af tíu í hlut vísindamanna við Háskóla Íslands og vísindamenn skólans voru aðalumsækjendur eða meðumsækjendur í 45 verkefnistyrkjum af 52 sem veittir voru að þessu sinni.

Alls bárust Rannsóknasjóði Rannís 226 gildar umsóknir að þessu sinni og voru 67 þeirra styrktar eða tæplega 30% umsókna. Fimmtíu og sjö þeirra tengjast Háskóla Íslands. Eftir því sem segir á heimasíðu Rannís samtals var tæpum 725 milljónum úthlutað til rannsóknaverkefna að þessu sinni eða tæplega þriðjungi umbeðinnar upphæðar. Meðalupphæð umsókna var 10,4 milljónir króna en meðalupphæð styrkja er 10,8 milljónir.

Að þessu sinni voru 16 umsóknir um öndvegisstyrki og var ákveðið að veita fimm sem fyrr segir, samtals að upphæð 164,3 milljónir króna. Styrkina hlutu eftirfarandi vísindamenn við Háskóla Íslands:

Egill Skúlason, dósent við Raunvísindadeild, hlýtur ásamt samstarfsfólki sínu, þeim Guðbjörgu Hrönn Óskarsdóttur og Helgu Dögg Flosadóttur, verkefnisstjórum hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Sveini Ólafssyni, vísindamanni við Raunvísindastofnun, Líneyju Árnadóttur við Oregon State University, og Önnu Louise Garden, nýdoktor við Raunvísindastofnun, tæplega 42 milljóna króna styrk til verkefnisins „Fertilizer from air and water: From theory to experiments“.

Eiríkur Steingrímsson og Helga M. Ögmundsdóttir, prófessorar við Læknadeild, Helga Zoéga, dósent í lýðheilsuvísindum, og Margrét Helga Ögmundsdóttir, nýdoktor við Læknadeild, hljóta ásamt Vésteini Þórssyni, vísindamanni við Institute of System Biology í Seattle í Bandaríkjunum, Gunnari Bjarna Ragnarsson, sérfræðingi í krabbameinslækningum við Landspítalann, Lionel Larue, rannsóknastjóra við Curie-stofnunina í Frakklandi, og Deboruh Goberdhan, vísindamqnnivið Oxford-háskóla,  tæplega 28 milljóna króna styrk til verkefnisins „v-ATPase, pH and cancer“.

Ingi Þorleifur Bjarnason, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskóla, hlýtur ásamt Tatyönu Alexandrovnu Smaglichenko, jarðeðlisfræðingi í Rússlandi, og  Martin Hensch, jarðskjálftafræðingi við Veðurstofu Íslands, styrk að upphæð tæplega 22 milljónir króna fyrir verkefnið „4D seismic of the SISZ: A tool for a strong earthquake forecasting“.

Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu og prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, hlýtur nærri 39 milljóna króna styrk ásamt þeim Gro Birkefeldt Möller Pedersen við Jarðvísindastofnun Háskólans, Nicola Falco, Olgu Kolbrúnu Vilmundardóttir og Pedram Ghamisi, doktorsnemum við Háskóla Íslands, Guðrúnu Gísladóttur, prófessor við Líf- og hverfisvísindadeild,  Guðfinnu Th Aðalgeirsdóttur, dósent við Jarðvísindadeild, Freysteini Sigmundssyni, vísindamanni við Jarðvísindastofnun Háskólans, Þorsteini Sæmundssyni, vísindamanni við Raunvísindastofnun,  Daniel Hölbling, vísindamanni við Háskólann í Salzburg,  Borgþóri Magnússyni, forstöðumanni vistfræðideildar hjá Náttúrustofnun Íslands,  Kolbeini Árnasyni, jarðeðlisfræðingi við Landmælingar Íslands og Háskóla ÍslandsSimone Tarquini, vísindamanni við Istituto Nazionale di Geofisica e Vulcanologia, Sezione di Pisa á Ítalíu , , Lorenzo Bruzzone, prófessor við Háskólann í Trento, og Melbu M. Crawford , prófessor við Purdue University til verkefnisins „Environmental mapping and monitoring of Iceland by Remote Sensing (EMMIRS)“.

Þórarinn Guðjónsson, prófessor við Læknadeild hlýtur ásamt Gunhild Maelandsmo, vísindamanni við Háskólasjúkrahúsið í Osló, Þórði Óskarssyni,vísindamanni við Heidelberg Institute for Stem Cell Technology and Experimental Medicine,  Jóni Þór Bergþórssyni, lektor við Læknadeild, og Magnúsi Karli Magnússyni, prófessor við Læknadeild, styrk að upphæð nærri 34 milljónir króna til verkefnisins „The endothelial niche in breast morphogenesis and cancer“.

Enn fremur voru veittir 10 rannsóknastöðustyrkir  samtals að upphæð tæplega 77 milljónir króna og komu sjö þeirra til vísindamanna við Háskóla Íslands og tengdar stofnanir sem starfa á ólíkum fræðasviðum við skólann. Umsóknir um slíka styrki voru 35 talsins.
Þá bárust 175 umsóknir um svokallaða verkefnastyrki á ólíkum fræðasviðum og voru tæplega 30% þeirra, eða 52 umsóknir, styrktar. Samanlögð upphæð styrkjanna var um 483 milljónir króna. Af þessum fjölda komu 38 styrkir í hlut vísindamanna við Háskóla Íslands sem voru aðalumsækjendur og níu styrkir fóru til verkefna þar sem vísindamenn við skólann voru meðumsækjendur.

Nánari upplýsingar um einstaka styrkhafa má finna á vef Rannís.
 

Allir fimm öndvegisstyrkirnir sem úthlutað var úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs að þessu sinni komu í hlut vísindamanna við Háskóla Íslands.
Allir fimm öndvegisstyrkirnir sem úthlutað var úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs að þessu sinni komu í hlut vísindamanna við Háskóla Íslands.