Skip to main content

Doktorsvörn í viðskiptafræði - Ingibjörg Sigurðardóttir

Doktorsvörn í viðskiptafræði - Ingibjörg Sigurðardóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. mars 2022 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 25. mars 2022 ver Ingibjörg Sigurðardóttir doktorsritgerð sína „Hestaferðaþjónusta á Íslandi: Klasaþróun og tækifæri til nýsköpunar“ (e. Equestrian tourism in Iceland: Cluster development and innovation opportunities). Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14.00 og er öllum opin. Vörninni verður einnig streymt.

Tengill yfir á streymi.

Leiðbeinandi var dr. Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ásamt Runólfi sáu í doktorsnefnd dr. Anne Mette Hjalager, prófessor við Department of Entrepreneurship and Relationship Management, University of Southern Denmark, dr. Dorhe Eide, prófessor við Business School, Nord University, Noregi og dr. Guðrún Helgadóttir, prófessor við Department of Business and IT, University of South-Eastern Norway.

Andmælendur eru dr. Birgit Leick, prófessor við Department of Business and IT, University of South-Eastern Norway  og dr. Erika Anderson Cederholm, dósent við Department of Service Management and Service Studies, Lund University, Svíþjóð.

Vörninni stjórnar dr. Gylfi Magnússon, deildarforseti Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.

Um doktorsefnið
Ingibjörg Sigurðardóttir er fædd í Skagafirði 15. júní 1973. Sambýlismaður hennar er Sólberg Logi Sigurbergsson. Börn hennar eru Aron Smári Pálsson, Sindri Snær Pálsson, Fjóla Indíana Sólbergsdóttir og Björn Austdal Sólbergsson.

Ingibjörg er lektor við Háskólann á Hólum og deildarstjóri Ferðamáladeildar. Hún lauk stúdentsprófi af hagfræðabraut frá Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki, búfræðiprófi og frumtamningaprófi Félags tamningamanna af hrossaræktarbraut Hólaskóla, diplóma í ferðamálum dreifbýlis frá sama skóla auk landvarða- og staðarvarðaréttinda. Einnig BS prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og MS prófi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Auk kennslu, rannsókna og stjórnunarstarfa innan háskóla, hefur Ingibjörg sinnt ýmsum störfum í ferðaþjónustu, landbúnaði og hestamennsku ásamt því að hafa unnið að stofnun og stjórnun fyrirtækja.

Ágrip

Í rannsókninni er fjallað um hestaferðaþjónustu sem atvinnugrein. Leitað er svara við því hvað einkennir þróun greinarinnar á Íslandi og með hvaða hætti greinin sjálf, tengdar atvinnugreinar og klasar, rekstrarumhverfið og tiltækar auðlindir geta stuðlað að aukinni samkeppnishæfni. Rannsóknin var gerð með eigindlegum og blönduðum rannsóknaraðferðum.

Tengslanet og klasar gegna veigamiklu hlutverki til að skapa samkeppnishæfa hestaferðaþjónustu. Niðurstöður staðfesta lífstílseinkenni fyrirtækja í greininni sem flest eru fremur smá og hafa orðið til vegna hestaáhuga stofnendanna. Hérlendis eru til staðar sérstakar auðlindir sem eru mikilvæg forsenda nýsköpunar í greininni en forsendur til nýsköpunar liggja til dæmis þar sem vellíðunarferðaþjónusta, náttúruupplifun og hægfara hestaferðamennska (e. slow adventure) eru þróaðar fyrir sérhæfðan markhóp ferðamanna. Til að veruleg nýsköpun eigi sér stað, þarf að auka stuðning við frumkvöðla. Slíkan stuðning má t.d. veita í samstarfi við eða gegnum virk samstarfsnet og/eða klasa.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er dregin saman í líkani um mikilvæga samkeppnisþætti hestaferðaþjónustu. Í líkaninu er horft til grunnþátta tengdra atvinnugreina. Hestamennska (t.d. ræktun, tamning, kennsla, viðburðir) og ferðaþjónusta (t.d. áfangastaðir, innviðir, ímyndarsköpun, markaðssetning) skipta þannig miklu máli fyrir greinina. Einnig aðgerðir hins opinbera og ytra umhverfi (t.d. menntun, rannsóknir, stoðkerfi, skráning hagstærða, skattkerfi, lagalegt umhverfi, gengi krónunnar). Aðgengilegar auðlindir s.s. íslenski hesturinn, náttúra, menning, saga, aðgengi að víðernum, lítt snortinni náttúru, og reiðleiðum, graslendi til beitar og heyskapar og hæft starfsfólk, eru grunnþættir frekari þróunar. Aðgerðir greinarinnar sjálfrar og tengdra klasa skipta einnig sköpum og geta t.d. falið í sér aukna sérhæfingu, sýnileika, nýsköpun og nýtingu tækninýjunga, áhættugreiningu, sameiginlega stefnumótun, aukið samstarf og eflingu félagskerfis.

Með því að vinna með meginþætti líkansins, má ætla að greinin verði samkeppnishæfari auk þess sem að lagt er til að líkanið verði nýtt sem grunnur að stefnumótun fyrir greinina og sem vegvísir fyrir frekari rannsóknir á hestaferðaþjónustu sem atvinnugrein.

 

Föstudaginn 25. mars mun Ingibjörg Sigurðardóttir verja doktorsritgerð sína við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Doktorsvörn í viðskiptafræði - Ingibjörg Sigurðardóttir