Skip to main content
11. mars 2020

Samningur við Útlendingastofnun ekki framlengdur

Háskólaráð Háskóla Íslands samþykkti einróma á fundi sínum 6. mars sl. að endurnýja ekki verksamning sem verið hefur í gildi á milli Háskóla Íslands og Útlendingastofnunnar.
Verksamningurinn snerist um kaup Útlendingastofnunar á þjónustu Tannlæknadeildar Háskóla Íslands í málum þar sem vafi leikur á aldri einstaklinga sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi.

Á sama tíma og samningurinn var undirritaður í mars 2019 kom Háskóli Íslands ábendingum til dómsmálaráðherra þess efnis að bókun barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá 16. nóvember 2017 kunni að gefa tilefni til þess að endurskoða lög um útlendinga nr. 80/2016, þ. á m. ákvæði um aldursgreiningar.

Í umræddri bókun barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna segir m.a. að ríki skuli notast við fjölþætt mat á líkamlegum og andlegum þroska barna, sem framkvæmt er af barnalæknum og öðrum sérfræðingum í þroska barna. Í sömu bókun kemur fram að ríki skuli m.a. forðast að notast við klínískar aldursgreiningar á tönnum. Háskóli Íslands kom sömu sjónarmiðum á framfæri í skriflegum athugasemdum við þingmannafrumvarp um breytingu á lögum um útlendinga haustið 2019. 

Háskólaráð hafði væntingar til þess að brugðist yrði við þessum athugasemdum með breytingum á reglum og verklagi Útlendingastofnunar í þá átt að heildstætt mat á aldri umsækjenda yrði fjölþættara og að einungis yrði notast við aldursgreiningar á tönnum í takmarkatilvikum. 

Þetta hefur ekki gengið eftir á því ári sem samningurinn hefur verið í gildi. Af þeirri ástæðu þótti háskólaráði rétt að endurnýja ekki umræddan verksamning við Útlendingastofnun. 

Aðalbygging Háskóla Íslands