Skip to main content
29. apríl 2020

Menntavísindasvið rannsakar áhrif COVID-19 á skóla- og frístundastarf 

Hópur fræðimanna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands hefur hafið rannsókn á áhrifum COVID-19 faraldursins á skóla- og frístundastarf í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið, Menntamálastofnun og fleiri aðila.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti sviðsins, er í rannsóknarhópnum. Hún segir þjóðfélagið ekki hafa farið varhluta af áhrifum heimsfaraldursins á skóla- og frístundastarf í landinu. Kennarar og annað starfsfólk í menntakerfinu hafi unnið þrekvirki við að halda námi og kennslu gangandi við mjög sérstakar aðstæður. „Það er gríðarlega mikilvægt að varpa ljósi á starfsaðstæður barna og starfsfólks í skóla- og frístundastarfi og leitast við draga lærdóm af þeirri umbyltingu sem faraldurinn hefur valdið. Áfall og áskorun af þeim toga sem samfélagið hefur tekist á við undanfarnar vikur dregur mjög skýrt fram hvað það er sem skiptir mestu máli – það er öryggi og velferð allra borgara landsins. Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og því eru rannsóknir á því sviði dýrmætar til að við getum lært af reynslunni og gert enn betur.“

Rafræn spurningakönnun hefur verið send til starfsfólks og stjórnenda allra grunnskóla á landinu auk stjórnenda félagsmiðstöðva og frístundaheimila. Meðal annars er spurt um skipulag starfsins, kennsluhætti, stafræna tækni, heimanám, foreldrasamstarf, stuðning við börn sem standa höllum fæti, samskipti og félagslega stöðu barna og samvinnu milli skóla- og frístundastarfs. Að sögn Kolbrúnar er þetta fyrsta skrefið í viðamikilli gagnasöfnun sem mun einnig ná til starfsfólks annarra skólastiga auk foreldra og ungmenna. 

„Áfall og áskorun af þeim toga sem samfélagið hefur tekist á við undanfarnar vikur dregur mjög skýrt fram hvað það er sem skiptir mestu máli – það er öryggi og velferð allra borgara landsins. Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og því eru rannsóknir á því sviði dýrmætar til að við getum lært af reynslunni og gert enn betur,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs og einn rannsakenda.

„Það er mikilvægt að könnunin tekur ekki eingöngu til kennara heldur alls starfsfólks skóla. Í mörgum grunnskólum starfa t.d. þroskaþjálfar og  frístundaleiðbeinendur og það er mikilvægt að heyra þeirra upplifun af því hvernig hefur gengið að veita öllum börnum stuðning og þjónustu í skertu skóla- og frístundastarfi,“ segir Ruth Jörgensdóttir Rauterberg, aðjunkt í þroskaþjálfafræði. Ruth er ein af þeim sem stendur að rannsókninni ásamt stórum hópi fræðafólks af Menntavísindasviði. Hún bendir á að samkomubannið hafi haft víðtæk áhrif á líf og líðan barna og því beinist rannsóknin einnig að mati starfsfólks á félagslegum tengslum og samskiptum barna við jafnaldra sína.

Kristín Jónsdóttir, lektor í kennslufræði, sem einnig er í rannsóknarhópnum, segir foreldra hafa öðlast ný hlutverk í námi barna sinna og samskipti við kennara hafa breyst þegar skólinn færðist að hluta heim á eldhúsborðið. „Slíkar breytingar og alls kyns ný og breytt viðfangsefni í störfum kennara geta haft áhrif á skólaþróun til framtíðar. Við viljum gjarnan strax fá innsýn í viðhorf og mat kennara og annars fagfólks á áhrifum kórónuveirufaraldursins. Niðurstöðurnar gætu líka verið leiðbeinandi við þróun kennaranáms á Menntavísindasviði.“ 

Hans Haraldsson, verkefnastjóri við Menntavísindastofnun, rannsóknarstofnun sviðsins, hvetur starfsfólk og stjórnendur eindregið til þátttöku. „Góð svörun skiptir meginmáli fyrir réttmæti rannsóknarinnar og til þess draga upp sem besta mynd af starfinu.“ Fyrstu niðurstaðna er að vænta í byrjun maí og er ljóst að þær munu geta skipt verulegu máli fyrir stefnumótun og forgangsröðun í menntakerfinu á komandi mánuðum.

kennarar að störfum