Skip to main content
4. maí 2021

Jarðvísindi við Háskóla Íslands í hópi 100 bestu í heimi

Jarðvísindi við Háskóla Íslands í hópi 100 bestu í heimi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jarðvísindi við Háskóla Íslands eru í 87. sæti í heiminum samkvæmt útttekt fjölmiðlafyrirtækisins U.S. News & World Report á bestu háskólum heims. 

Fyrirtækið hefur tekið saman lista yfir bestu háskóla heims undanfarin sjö ár en það hefur 30 ára reynslu af birtingu sams konar lista fyrir Bandaríkin. Markmiðið með listunum er m.a. að veita vaxandi hópi stúdenta, sem kýs að fara í háskólanám utan síns heimalands, upplýsingar til að bera saman styrk einstakra háskóla, bæði almennt og á einstökum fræðasviðum.

Jarðvísindadeild Háskóla Íslands býður bæði upp á nám í jarðeðlisfræði og jarðfræði og hafa vinsældir deildarinnar meðal alþjóðlegs hóps nemenda vaxið umtalsvert, bæði í grunn- og framhaldsnámi. Við deildina starfa enda fræðimenn sem eru meðal þeirra fremstu í heiminum á sínu sviði. Þeir hafa tekið þátt í og stýrt stórum alþjóðlegum og þverfræðilegum rannsóknarverkefnum sem snerta hvers kyns jarðhræringar, eins og jarðskjálfta og eldgos, jöklafræði, jarðefnafræð, bergfræði, fjarkönnun og loftslagsfræði svo dæmi séu tekin. 

Úttekt U.S. News & World Report byggist á sams konar kvörðum og úttektir margra annarra aðila á frammistöðu háskóla, eins og Times Higher Education og ShanghaiRanking Consultancy. Horft er m.a. til rannsóknavirkni skóla og tilvísana í rannsóknir, orðspors háskóla á alþjóðavettvangi, sem byggist á alþjóðlegum könnunum, og alþjóðlegs samstarfs skólanna. Alls er tekið mið af 13 mælikvörðum og þeir vegnir saman til þess að reikna út stöðu hvers háskóla, bæði á heildarlista U.S. News & World Report yfir fremstu háskóla heims almennt og innan einstakra fræðasviða.

Mat U.S. News & World Report nær til tæplega 1.750 háskóla og raðast Háskóli Íslands í 406. sæti á heildarlista yfir fremstu háskóla heims. Skólinn kemst enn fremur inn á fjóra lista fjölmiðlafyrirtækisins á einsökum fræðasviðum þar sem hann er hæst metinn í jarðvísindum, eða í 87. sæti af 250 skólum sem metnir eru á því sviði. 

Vísindamenn Jarðvísindadeildar, Jarðvísindastofnunar Háskólans og samstarfsaðilar þeirra innan annarra deilda skólans hafa verið í eldlínunni að undanförnu í tengslum við jarðhræringar sem staðið hafa yfir á Reykjanesi síðustu tvo mánuði. Þeir vinna ásamt innlendum og erlendum samstarfsaðilum að því að meta og túlka framvindu gossins við Fagradalsfjall og jarðskjálfta á svæðinu ásamt því að miðla niðurstöðum sínum til almennings á hverjum degi í bæði innlendum og erlendum fjölmiðlum.

Háskóli Íslands hefur á síðustu árum menntað mikinn fjölda sérfræðinga í jarðvísindum sem hafa ekki bara haslað sér völl erlendis heldur gegna þeir mikilvægum störfum hér heima. Mikilvægi vel menntaðs jarðvísindafólks hefur sjaldan verið jafn áberandi og nú enda auka jarðvísindin ekki bara skilning okkar á eldsumbrotum og jarðhræringum heldur einnig loftslagsbreytingum, umhverfisbreytingum og annars konar náttúruvá.

Jarðvísindafólk með menntun frá Háskóla Íslands beitir auk þess þekkingu sinni við úrlausn ýmissa annarra verkefna, svo sem við nýtingu jarðhita, orkuöflun, undirbúning mannvirkjagerðar, leit að byggingarefnum, málmleit auk eftirlits með umbrotum í jarðskorpunni eins og dæmin sanna. 

Stöðu Háskóla Íslands á listum U.S. News & World Report og forsendur matsins má sjá vef fyrirtækisins.
 

Eldgos