Litháarnir við Laptevhaf í íslenskri þýðingu
Út er komin bókin Litháarnir við Laptevhaf eftir Daliu Grinkevičiūtė í þýðingu Geirs Sigurðssonar, prófessors við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og Vilmu Kinderyté.
Bókin er safn minninga Daliu Grinkevičiūtė frá útlegðarárum hennar í Síberu en árið 1941 var hún meðal þeirra þúsunda íbúa Eystrasaltsríkjanna sem sovésk yfirvöld fluttu þangað nauðuga í þrælkunarvinnu. Þá var Dalia fjórtán ára gömul og bókin hefur að geyma minningar hennar frá fyrstu árum útlegðarinnar sem hún skrifaði á laus blöð og faldi í garði við æskuheimili sitt í Kaunas í Litháen. Minningarnar eru sögulegur vitnisburður um þá hryllilegu meðferð sem útlagarnir þurftu að sæta af hendi sovéskra yfirvalda en greina einnig frá hetjulegri lífsbaráttu, draumum um betra líf og viðhaldi mennskunnar í ómanneskjulegum kringumstæðum.
Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, ritstýrði bókinni og útgefandi er Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.