Viðhorf til öldrunar neikvætt | Háskóli Íslands Skip to main content

Viðhorf til öldrunar neikvætt

""

Geir Sigurðsson, prófessor við Mála- og menningardeild

„Íslendingar eru að eldast sem þjóð.“  Þessi fullyrðing hefur verið áberandi í samfélagsumræðunni og á köflum líka í íslenskum fjölmiðlum þar sem bent er á að öldrun sé ein helsta áskorun samtímans. Til stuðnings fullyrðingunni hefur verið bent á að Íslendingar þurfi að breyta áherslum í samfélagsgerðinni í ljósi þess að sá hluti þjóðarinar sem hættir störfum vaxi nú mjög hratt.

Gjarnan er bent á neikvæðar afleiðingar af þessari þróun, t.d.  kalli hækkaður aldur þjóðarinnar á aukinn kostnað í stoðþjónustu og í heilbrigðiskerfinu og einnig á breytt húsnæðisúrræði fyrir þennan ört vaxandi hóp fólks. Íslendingar eru þó ekki alveg á sama stað og aðrir Evrópubúar því í mannfjöldaspá Hafstofunnar fyrir tímabilið 2016 til 2065 segir að þótt þjóðin sé að eldast þá séu Íslendingar nú, og verði um sinn, mun yngri en flestar Evrópuþjóðir. Hagstofan spáir því að árið 2060 verði meira en þriðjungur Evrópubúa eldri en 65 ára en bara um fjórðungur Íslendinga.

„Það er greinilegur munur á viðhorfum vestrænnar og kínverskrar heimspeki um öldrun. Raunar hefur vestræn heimspeki sýnt öldrun lítinn áhuga á meðan kínversk heimspeki er sér mjög meðvituð um þátt tímans í lífi okkar manneskjanna.“ Þetta segir Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands, en hann vinnur að rannsókn sem fæst við að þróa svið heimspeki öldrunar. Þetta gerir hann með áherslu á að öðlast innsýn í heimspeki mismunandi menningarheima. 

„Ég einblíni á vestræna og kínverska heimspeki en stefnan er að starfa líka með fræðimönnum sem hafa þekkingu á heimspeki annarra menningarheima,“ segir Geir í viðleitni sinni til að fanga þetta viðfangsefni. 

Sjálfsagt að eldast en ekki að vera aldurhnigin

Það er raunar ekki bara í vestrænni heimspeki sem áhuginn á ellinni er takmarkaður því svipað viðhorf endurspeglast í atvinnulífi Vesturlanda þar sem allra elstu starfskraftarnir eru ekki mjög eftirsóttir. Í listinni er þetta nokkuð áþekkt þar sem öldungar eru sjaldnast í miðju frásagnar og meira í því hlutverki að styðja við frásögnina ef þeir eru þá á annað borð sýnilegir. Áhugaverðar undantekningar eru þó á þessu eins og í sænsku kvikmyndinni Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf og í samnefndri skáldsögu eftir Jonas Jonasson. Aðalpersónan í bók og bíómynd hverfur daginn sem hún fagnar aldarafmæli og lendir í gríðarlegum og grátbroslegum ævintýrum. Í Börnum náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson og Einar Má Guðmundsson, sem tilnefnd var til Óskarverðlauna árið 1992, eru lykilpersónurnar líka rígfullorðnar. Myndin hefur fegurðina í framlínunni og fjallar á hrífandi hátt um fylgitungl öldrunarinnar.

Stundum henda skáldin þannig á loft spaugilegri hlið af elli og öldrun þegar þeir á annað borð draga hana fram þar sem kappkostað er að sýna okkur að þetta geti varla verið mjög eftirsótt æviskeið. „Á laugardögum líta barnabörnin við, á mánudaginn læt ég skipta um mjaðmarlið, en annars er ég bara góð,“ segir í laginu Ellismelli eftir söngsveitina Moses Hightower. Þar er vísað er til þess að eldri kynslóðin þurfi jafnvel varahluti og viðhald til að halda sér gangandi. Hann er enda velþekktur frasinn um að allir vilji verða gamlir en enginn samt vera í þeim sporum. 

„Ég tel að viðhorfið til öldrunar á Vesturlöndum sé fremur neikvætt án þess að nægilega góður rökstuðningur fylgi,“ segir Geir. „Að mínu mati er reynsla eldri kynslóða einfaldlega vannýtt í samfélagi okkar.“  

Það er mikið til í þessu með reynsluna hjá Geir ef við höfum í huga að eldra fólk skapaði á sínum ferli undirstöður þess sem yngri kynslóðirnar byggja á. Þetta sama eldra fólk hefur því safnað gríðarlegri reynslu sem er dýrmæt en sniðgengin að mati Geirs. Hann segist því hafa viljað taka öldrun til gagnrýninnar skoðunar, m.a. til að kanna hvort ekki væri að finna einhverjar jákvæðar hliðar á því að eldast, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og samfélagið sem hann býr í.

„Það er greinilegur munur á viðhorfum vestrænnar og kínverskrar heimspeki um öldrun. Raunar hefur vestræn heimspeki sýnt öldrun lítinn áhuga á meðan kínversk heimspeki er sér mjög meðvituð um þátt tímans í lífi okkar manneskjanna,“ Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands.

Við erum öll á valdi tímans

Geir segir að þegar grannt sé skoðað sjáist býsna vel að öldrun sé mjög heimspekilegt fyrirbæri. „Við erum öll á valdi tímans og þannig á öldrun við um okkur öll. Ég tel að við getum öll hagnast á því að skilja öldrun mun víðtækari skilningi en þeim að hún eigi aðeins við um tiltekna kynslóð.“

Geir segir að kveikjan að rannsókninni sé af tvennum toga. „Annars vegar er algengara en áður að heimspekingar taki til umfjöllunar samfélagsleg viðfangsefni sem félagsvísindin hafa haft á sínu forræði og hins vegar er öldrun vaxandi áskorun í stórum hluta heimsins.“
 
Geir segir að rannsóknin skipti okkur öll máli, því hún geti breytt viðhorfum okkar til ferlis sem á við um okkur öll. „Þessi rannsókn getur fengið okkur til að hugsa með uppbyggilegri hætti um bæði þá sem komnir eru á efri ár og það sem bíður okkar sjálfra. Heimspeki öldrunar er því um leið ákveðin lífsheimspeki.“

Hann segir að það með svona rannsókn sé hann einfaldlega að sýna viðleitni til að skilja lífið betur eins og tamt sé með rannsóknir svo hægt sé að bæta heiminn. „Fyrir áframhaldandi mennsku skiptir slík viðleitni öllu máli.“