Skip to main content
3. október 2018

Áhrif og lærdómar hrunsins á ráðstefnu í Háskóla Íslands

„Þegar Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn forseti tók hann af mér loforð um að við samstarfsmenn hans í verkefninu „Hrunið, þið munið“ myndum standa fyrir ráðstefnu á tíu ára afmæli hrunsins. Í raun erum við fyrrum samstarfsfólk hans í Háskóla Íslands að efna það um leið og við setjum punktinn fyrir aftan gagnasöfnun sem staðið hefur yfir í tengslum við verkefnið.“ Þannig lýsir Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku- og menningardeild, kveikjunni að ráðstefnu sem ber sama heiti og verkefnið og fer fram í Aðalbyggingu Háskólans dagana 5. og 6. október nk. 

Streymt verður frá setningu ráðstefnunnar föstudaginn 5. október kl. 13.

Tilgangur ráðstefnunnar er að miðla og ræða niðurstöður nýlegra rannsókna á aðdraganda og afleiðingum af hruni íslenska bankakerfisins haustið 2008, en fjöldi fræðimanna af ótal fræðasviðum innan og utan Háskólans hefur látið sig hrunið varða í rannsóknum allt frá því að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað Guð að blessa Ísland hinn 6. október 2008. Alls verður boðið upp á um 100 fyrirlestra í yfir 20 málstofum á ráðstefnunni þar sem fjallað verður um þær víðtæku breytingar og áhrif sem hrunið hafði í för með sér í íslensku samfélagi og þá lærdóma sem hægt er að draga af því. Öll fræðasvið Háskólans og rektorsskrifstofa eiga fulltrúa í ráðstefnunefndinni en undirbúningsnefndina skipa þau Berglind Rós Magnúsdóttir (Menntavísindasviði), Jón Karl Helgason (Hugvísindasviði), Kristín Loftsdóttir (Félagsvísindasviði),  Magnús Diðrik Baldursson (skrifstofa rektors), Ragnar Sigurðsson (Verkfræði- og náttúruvísindasviði) og Rúnar Vilhjálmsson (Heilbrigðisvísindasviði). Starfsmaður nefndarinnar er Jón Bragi Pálsson.

Kveikja ráðstefnunnar var upplýsingavefurinn „Hrunið, þið munið“ sem Jón Karl og Guðni Th., þáverandi sagnfræðiprófessor og nú forseti Íslands, ýttu úr vör árið 2015 í félagi við fleiri háskólakennara. Þeir höfðu þá báðir kennt námskeið í Háskóla Íslands tengd hruninu, Guðni innan sagnfræðinnar og Jón Karl innan bókmenntafræðinnar. „Þegar ég frétti af námskeiði Guðna ákváðum við að setja á fót spánnýjan íslenskan banka, reyndar bara gagnabanka. Hann hafði upprunalega að geyma umfjöllun nemenda okkar beggja um verk sem tengjast hruninu, svo sem skáldverk, leikrit, kvikmyndir og fræðibækur, en á þeim árum sem liðin eru hafa háskólakennarar af fleiri fræðasviðum lagst á árarnar,og munar þar mest um öfluga þátttöku félagsvísindafólks,“ segir Jón Karl. 

Gagnabankinn hefur gildnað með árunum og þar er nú að líka m.a. að finna yfirlit yfir laga- og reglusetningu og dóma tengda hruninu og ýmsar skýrslur sem unnar hafa verið vegna þess, en þetta er efni sem Björg Thorarensen og Andrés Fjeldsted söfnuðu saman. „Hugmyndin með gagnabankanum er að víkka sýn almennings og fræðimanna á efnið og auðvelda frekari rannsóknir,“ segir Jón Karl en með honum í verkefninu hafa unnið, meðal margra annarra, Kristín Loftsdóttir, Markús Þórhallsson, Einar Kári Jóhannesson og Xinyu Zhang. 

Ráðstefnan Hrunið, þið munið verður sett í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskólans kl. 13 á föstudag. Þar mun Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytja ávarp og aðalfyrirlesari ráðstefnunnar Ralph Catalano, prófessor í lýðheilsu við Berkeley-háskóla í Bandaríkjunum, fjallar um áhrif efnahagsniðursveiflna á lýðheilsu. 

Báða dagana verður enn fremur boðið upp á fjöldamargar málstofur þar sem m.a. verður fjallað um mótmælin í hruninu, áhrif þess á bókmenntir og listir í landinu, félagslegan ójöfnuð í kjölfar hrunsins, áhrif hrunsins á heilsu landsmanna, skólastarf og að sjálfsögðu stjórnmálin, samspil hrunsins og ferðamannalandsins Íslands og hið langvinna þrætuepli þjóðarinnar, Icesave. Að ráðstefnunni koma innilendir og erlendir fræðimenn, listamenn og fleiri.

Ráðstefnan er öllum opin og er aðgangur ókeypis. Dagskrá hennar í heild sinni er aðgengileg á vef ráðstefnunnar.
 

Mótmælendur á Austurvelli