Ný stofnun í íslenskum fræðum við kínverskan háskóla | Háskóli Íslands Skip to main content
19. júní 2018

Ný stofnun í íslenskum fræðum við kínverskan háskóla

Hópur starfsfólks Mála- og menningardeildar Háskóla Íslands sótti nýverið málþing í Kína á vegum Beijing Foreign Studies University (BFSU) í Peking, þar sem fjallað var um miðlun og kennslu tungumála og framandi menningar með áherslu á íslensku. Við þetta tækifæri setti BFSU formlega á stofn Rannsóknarsetur um íslensk fræði (Bingdao yanjiu zhongxin). Það var Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Kína, sem afhjúpaði skilti setursins fyrir háskólann og setti það um leið formlega á stofn þann 4. júní síðastliðinn.

BFSU er fremsti háskóli Kína á sviði tungumála- og menningarfræðslu. Þar eru kennd yfir 90 tungumál og á að fjölga í yfir 100 á næstunni. Íslenska hefur verið kennd við skólann síðan 2007 og hafa tugir Kínverja lokið námi í greininni. Wang Shuhui, fyrrum nemandi Háskóla Íslands í íslensku sem öðru máli, stýrir nú náminu hjá BFSU.   

Meðal þátttakenda á málþinginu voru kennarar Háskóla Íslands á sviði ensku, dönsku, franskra fræða, spænsku, rússnesku, japönsku, kínverskra fræða, Mið-Austurlandafræða (arabísku), grísku og latínu, en einnig voru með í för starfsfólk Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, Íslensku- og menningardeildar, Menntavísindasviðs og Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Austurlandi.

Hópurinn heimsótti einnig höfuðstöðvar Konfúsíusarstofnunarinnar í Peking og kynnti sér starfsemi hennar sem fram fer á um 700 stöðum víðs vegar um heim, þar á meðal við Háskóla Íslands. Að því loknu ferðaðist hópurinn um Kína og heimsótti m.a. Kínamúrinn, fornu höfuðborgina Xi´an og hina framúrstefnulegu viðskiptaborg Sjanghæ. Skipuleggjendur ferðarinnar voru Magnús Björnsson, forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa, og Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands. Kennslumálasjóður Háskóla Íslands veitti hluta þátttakenda styrk til að mæta kostnaði við verkefnið.

Þátttakendur í málþinginu við BFSU ásamt Gunnari Snorra Gunnarssyni sendiherra og Peng Long, rektor BFSU.