Skip to main content
23. janúar 2023

Rannsakaði kínverska þýðingu á Sjálfstæðu fólki

 Rannsakaði kínverska þýðingu á Sjálfstæðu fólki  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jia Yucheng hefur varið doktorsritgerð sína í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, Context Recognition and Reconstruction in Literary Translation. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Gauta Kristmannssonar, prófessors við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Tu Guoyuan, prófessor við Ningbo háskólann og Þórhallur Eyþórsson, prófessor við Háskóla Íslands. 

Andmælendur við vörnina voru Geir Sigurðsson, prófessor við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og Yang Chenghu, prófessor við Ningbo háskólann í Kína. Jón Karl Helgason, varaforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 20. janúar. (Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni).

Um rannsóknina

Bókmenntaþýðingar fela ekki einungis í sér að þýða texta á milli tungumála, heldur einnig að flytja með sér samhengi og dýpri merkingu frá frumtexta. Þó að það sjónarmið sé viðtekið að ekkert sé algilt í bókmenntaþýðingum, og að þýðing feli alltaf í sér einhverja sköpunargáfu þýðandans, getur enduruppbygging samhengis í bókmenntatexta verið sá prófsteinn sem ekki aðeins þýðingargagnrýnendur, heldur einnig lesendur, geta nýtt sér til að meta hvort þýðing bókmenntaverks hafi heppnast vel eða ekki. Þar sem 独立的人们 (dú lì de rén men), er eina þýðing á verki Halldórs Laxness, Sjálfstætt fólk, á meginlandi Kína, er þessi þýðing mjög mikilvæg frumraun í þá átt að kynna íslenskar bókmenntir fyrir kínverskum lesendum. Því miður eru nokkrir augljósir annmarkar á þýðingunni, sem hrjá ekki aðeins kínverska lesendur, heldur einnig hitt, sem er alvarlegra, draga niður gæðin í þessu stórvirki Halldórs Laxness. Með greiningu á samhengi í 独立的人们 setur þessi ritgerð fram lausnir um endurgerð þess í bókmenntaþýðingum á kínversku. Þýðendum er uppálagt að þeir þekki og geti enduruppbyggt dýpri merkingu textans til að tryggja að hægt sé að skila áfram grunnhugsun frumtextans. Jafnframt er nauðsynlegt að þekkja og endurgera jaðarsamhengi textans eins og kostur er þannig að öll lög grunntextans nái að skila sér í enduruppbyggingu bókmenntaverksins í þýðingarferlinu.

Um doktorinn

Jia Yucheng er með BA próf í enskum bókmenntum frá Hunan-háskóla og MA próf í þýðingafræði frá South Central University í Kína.

Jia Yucheng