Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 3. desember 2020

13/2020
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2020, fimmtudaginn 3. desember var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir, Snædís K. Bergmann (varamaður fyrir Einar Sveinbjörnsson) og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
    Inn á fundinn komu þau Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021 (staða málsins).
Fram kom að önnur umræða um frumvarpið er ekki hafin á Alþingi. Málið var rætt og svöruðu rektor og Jenný Bára spurningum ráðsmanna.

b.    Tillaga að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands.
Rektor og Guðmundur fóru yfir drög að tillögu fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands m.t.t. þeirra forsendna sem liggja fyrir. Málið var rætt og svöruðu rektor og Guðmundur spurningum ráðsmanna.

c.    Staða rekstraráætlana einstakra starfseininga.
Jenný Bára fór yfir stöðu rekstraráætlana einstakra starfseininga innan Háskóla Íslands. Málið var rætt, m.a. um mismunandi greiðslufyrirkomulag fyrir kennslu, og svöruðu þau Jenný Bára og Guðmundur spurningum ráðsmanna.

Guðmundur og Jenný Bára viku af fundi.

3.    Niðurstöður háskólaþings 13. nóvember sl. og stefnumótun Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026.
Inn á fundinn komu þau Magnús Þór Torfason, dósent við Félagsvísindasvið, Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent við Heilbrigðisvísindasvið, Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs, fulltrúar í stýrihópi stefnumótunar, og Andrea G. Dofradóttir, verkefnisstjóri stefnuinnleiðingar.

Rektor gerði grein fyrir niðurstöðum háskólaþings 13. nóvember sl. Helsta mál á dagskrá þingsins var mótun heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026 og fór rektor ítarlega yfir stöðu málsins, mögulegar áherslur nýrrar stefnu í kjölfar þingsins og funda með stjórnendum og Stúdentaráði ásamt tíma- og verkáætlun fyrir stefnumótunina. Málið var rætt ítarlega, m.a. um forgangsröðun mögulegra áhersluatriða í nýrri stefnu. Fram kom að opnuð hefur verið samráðsgátt um stefnumótunarferlið þar sem nálgast má gögn um stefnumótunina, óska eftir samtali við stýrihópinn og senda inn skriflegar athugasemdir og tillögur.

Magnús Þór, Margrét Helga, Ragnhildur og Andrea viku af fundi.

4.    Erindi frá nemendum:
Inn á fundinn kom Erla Guðrún Ingimundardóttir, lögfræðingur á skrifstofu rektors, og gerði grein fyrir málum undir þessum lið..

a.    Ósk um endurskipun prófdómara.
– Háskólaráð beinir því til kærunefndar í málefnum nemenda að nefndin gefi álit sitt á erindinu.

b.    Beiðni um aðgang að gögnum.
– Háskólaráð beinir því til kærunefndar í málefnum nemenda að nefndin gefi álit sitt á erindinu.

Erla Guðrún vék af fundi.

5.    Málefni Happdrættis Háskóla Íslands. Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri HHÍ komá fundinn.
Inn á fundinn kom Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir stöðu og stefnu fyrirtækisins. Málið var rætt og svaraði Bryndís spurningum fulltrúa í háskólaráði.

6.    Bókfærð mál.
a.    Endurskoðaðar reglur um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna, sbr. fund háskólaráðs 10. september sl. og starfsáætlun ráðsins.
– Samþykkt.

b.    Tillögur um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir háskólaárið 2021-2022.
– Eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2021-2022 samþykktar (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2020-2021) sem og viðeigandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010.

I. Heilbrigðisvísindasvið

a.    Læknadeild
       − Læknisfræði, BS                        60      (60)
       − Sjúkraþjálfunarfræði, BS           35      (35)
       − Sjúkraþjálfun, MS                      35      (30)
       – Geislafræði, BS                          12       (12)
       – Talmeinafræði, MS                      0       (15)

b.    Hjúkrunarfræðideild
      − Hjúkrunarfræði (240 e til BS)                 120    (130)
      – Hjúkrunarfræði fyrir fólk með
         annað háskólapróf                                    20    (20+3)
     − Ljósmóðurfræði til starfsréttinda, MS       12    (12)

c.    Tannlæknadeild
     − Tannlæknisfræði                 8        (8+1)
     − Tannsmiðanám                   5        (5)

d.    Sálfræðideild
     − Hagnýt sálfræði, MS, klínísk,
        (áður cand. psych.)                              20      (20)
     − Hagnýt sálfræði, MS, megindleg,
        skóli og þroski, samfélag og heilsa      15      (15)

e.    Lyfjafræðideild
    − MS nám í klínískri lyfjafræði                   3       (2+1)

f.    Matvæla- og næringarfræðideild
    − MS nám í klínískri næringarfræði           2         (2)

II. Félagsvísindasvið

a.    Stjórnmálafræðideild
     − MA nám í blaða- og fréttamennsku       21      (21)

b.    Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild
    − MA nám í náms- og starfsráðgjöf          50       (40)

c.    Félagsráðgjafardeild
    − MA nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda 40      (40)

d.    Viðskiptafræðideild
    − MS nám í nýsköpun og viðskiptaþróun   14       (14)

III. Hugvísindasvið

a.    Íslensku- og menningardeild
    − MA nám í ritlist                  20      (25)

IV. Þverfaglegt nám

a.    Nám í hagnýtri atferlisgreiningu
      (samstarf MVS og HVS)
      − Nám til MS prófs, M.Ed. prófs
      eða diplómu                       20      (20)

c.    Tillögur að breytingum á inntökuskilyrðum.
– Samþykkt.

d.    Tillaga um að Skrifstofa alþjóðasamskipta verði stjórnsýslusvið í miðlægri stjórnsýslu.
– Samþykkt.

e.    Frá kennslusviði: Bráðabirgðaákvæði aftast í 47. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 verði framlengt um þrjú ár. (Varðar fagháskólanám).
– Samþykkt.

7.    Mál til fróðleiks.
a.    Áfram á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims.
b.    Nýliðunarsjóður kennaramenntunar. Starfsreglur o.fl.
c.    Yfirlýsing fundar menntamálaráðherra Evrópuríkja í Róm, dags. 19. nóvember 2020.
d.    Viðtal við rektor í Morgunblaðinu 16. nóvember 2020.
e.    100 ára afmæli Stúdentaráðs Háskóla Íslands 4. desember 2020.

f.     Kristinn Jóhannesson ráðinn nýr sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands.
g.    Háskóli Íslands hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar.
h.    Háskóli Íslands í hópi háskóla sem þykja búa nemendur best undir atvinnulífið samkvæmt Times Higher Education.
i.     Háskóli Íslands og bandaríska sendiráðið virkja nýsköpunarkraft kvenna í nýjum hraðli.
j.     Fréttabréf Háskólavina, dags. 1. desember 2020.
k.    Hátíð brautskráðra doktora 1. desember 2020, bæklingur og myndband.
l.     Glærur rektors frá upplýsingafundi með starfsfólki 3. desember 2020.
m.   Fjögur verðlaunuð fyrir framúrskarandi störf í þágu Háskóla Íslands.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.45.