Skip to main content
19. nóvember 2020

Áfram á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, eru áfram í hópi þeirra vísindamanna sem mest áhrif hafa innan síns fræðasviðs samkvæmt nýjum lista hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics sem birtur var í vikunni. Báðir hafa verið á listanum undanfarin ár. Þrír gestaprófessorar við Háskóla Íslands eru einnig á listanum.

Listinn sem um ræðir nefnist Highly Cited Researchers og hefur verið birtur frá árinu 2014. Hann tekur til eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum. Listinn byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science og í ár er tekið mið af tilvitnunum á árabilinu 2009-2019. Listinn í ár nær til um 6.400 vísindamanna á 21 fræðasviði.

Jón Atli er prófessor í Rafmagns- og tölvuverkfræðideild og hefur verið rektor undanfarin fimm ár. Hann er höfundur meira en 400 fræðigreina og bókarkafla á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði og í hópi fremstu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar en hún felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Mikið er vitnað til verka Jóns Atla og þá hefur hann fengið margvíslegar viðurkenningar á alþjóðavettvangi og hér heima fyrir rannsóknir sínar, nú síðast verðlaun IEEE Geoscience and Remote Sensing Society (GRSS) fyrir framlag sitt til menntunar á sviði fjarkönnunar.

Kára Stefánsson þarf vart að kynna en hann stofnaði Íslenska erfðagreiningu fyrir rúmum tveimur áratugum og hefur leitt fyrirtækið í fremstu röð í rannsóknum á tengslum erfða og sjúkdóma. Kári hefur verið prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 2008. Hann hefur hlotið fjölmargar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir störf sín og hefur ásamt samstarfsfólki sínu verið í fararbroddi í rannsóknum á og viðbrögðum við COVID-19-faraldrinum hér á landi.

Auk þeirra Jóns Atla og Kára eru þrír gestaprófessorar við Háskóla Íslands á listanum yfir áhrifamestu vísindamenn heims, þeir Bernharð Örn Pálsson, Jocelyn Chanussot og Ian F. Akyildiz.

Bernharð er prófessor í líftækni og læknisfræði við Kaliforníuháskóla í San Diego og hefur m.a. sérhæft sig í svokallaðri kerfislíffræði. Hann beitti sér m.a. fyrir stofnun Kerfislíffræðiseturs við Háskóla Íslands fyrir rúmum áratug. 

Þeir Jocelyn Chanussot og Ian F. Akyildiz eru gestaprófessorar við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Chanussot er prófessor við Grenoble Institute of Technology í Frakklandi og hefur sérhæft sig í fjarkönnun. Hann hefur verið gestaprófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild frá árinu 2013. Akyildiz er prófessor emeritus við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Georgia Institute of Technology og á að baki afar farsælan feril á sviði rannsókna í fjarskiptafræðum. Hann varð gestaprófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild núna í haust.

Heildarlista Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims má finna á vef fyrirtækisins.

Jón Atli Benediktsson og Kári Stefánsson