Skip to main content
13. nóvember 2020

Háskóli Íslands hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Háskóli Íslands hefur hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar – Hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu sem miðar að því að jafna hlut kynjanna í stjórnunarstörfum fyrirtækja og stofnana. Tilkynnt var um það á rafrænni ráðstefnu verkefnisins í gær. 

Markmið Jafnvægisvogarinnar að auka kynjajafnrétti í efsta lagi fyrirtækja og stofnana á Íslandi þannig að það verði orðið að minnsta kosti 40/60 árið 2027. Jafnframt miðar verkefnið að því að virkja íslenskt atvinnulíf til að verða fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir. Þátttakendur í Jafnvægisvoginni koma úr öllum kimum íslensks atvinnulífs, jafnt úr hópi fyrirtækja, stofnana, sveitarfélaga og félagasamtaka. 

Aðstandendur Jafnvægisvogarinnar veita á árlega viðurkenningar til þeirra aðila sem náð hafa markmiðum Jafnvægisvogarinnar en mat á árangri er í höndum sérstaks jafnvægisvogarráðs. Á árlegum fundi Jafnréttisvogarinnar, sem fram fór á netinu í gær, var tilkynnt um það hvaða þátttakendur í verkefninu hefðu náð markmiðum þess á undanförnu ári. Þeir reyndust 44 og í þeim hópi var Háskóli Íslands. 

Háskólinn sótti um aðild að verkefninu fyrr árinu og undirritaði Jón Atli Benediktsson, rektor skólans, viljayfirlýsingu um samstarf þar að lútandi til fimm ára við Félag kvenna í atvinnulífinu. Með því skuldbindur skólinn sig til að vinna stöðugt að því að jafna hlutfall karla og kvenna í stjórnendastöðum innan skólans.

 

Jón Atli Benediktsson, rektor skólans, og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, með viljayfirlýsingu um samstarf við FKA um Jafnvægisvogina. MYND/Kristinn Ingvarsson
Viljayfirlýsing um samstarf