Skip to main content
20. nóvember 2020

Í hópi háskóla sem þykja búa nemendur best undir atvinnulífið

Í hópi háskóla sem þykja búa nemendur best undir atvinnulífið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er í 162. sæti á nýjum lista tímaritsins Times Higher Education yfir þá háskóla í heiminum sem teljast skila hæfustum nemendum út í atvinnulífið samkvæmt mati stórs hóps alþjóðlegra fyrirtækja. 

Listinn sem um ræðir nefnist Global University Employability Ranking og hefur verið unninn af frönsku ráðningarstofunni Emerging í samstarfi við þýska markaðsrannsóknafyrirtækið Trendence. Listinn var fyrst birtur árið 2011 og hefur verið birtur á vegum Times Higher Education undanfarin ár.

Listinn byggist á könnunum meðal forsvarsmanna stórra alþjóðlegra fyrirtækja á ýmsum sviðum um allan heim og það þessu sinni nær hann til svara um 9.000 manns í 22 löndum. Kannanirnar hverfast um þá háskóla sem þátttakendur telja undirbúa nemendur sína best fyrir þátttöku á atvinnumarkaði. Listinn þykir gefa mikilvæga innsýn í hversu vel skólarnir eru tengdir atvinnulífi og hversu vel námið undirbýr nemendur fyrir þátttöku í því.

Háskóli Íslands komst fyrst á listann árið 2016 og er sá eini hér á landi sem hefur verið á listanum. Listinn í ár nær til alls 250 skóla um víða veröld og er Háskóli Íslands í 162. sæti sem fyrr segir. Til samanburðar var hann í 181. sæti í fyrra. 

Virk þátttaka í samfélagi og atvinnulífi eru eru meðal megináherslna í stefnu Háskólans og á undanförnum árum hefur hann unnið að því að styrkja tengsl við atvinnulíf hér heima með ýmsum hætti. Má þar nefna Tengslatorg skólans sem miðar að því að fjölga tækifærum stúdenta til að nýta þekkingu sína og færni úr háskólanámi úti í atvinnulífinu og stuðla að enn frekara samstarfi nemenda og rannsakenda við starfsvettvang, stofnanir og atvinnulíf. 

„Sterk staða skólans á alþjóðavettvangi, sem endurspeglast m.a. í veru hans á tveimur virtustu listunum yfir bestu háskóla heims, hefur enn fremur skapað bæði starfsfólki og nemendum fjölmörg ný tækifæri til samstarfs og atvinnu í alþjóðlegu umhverfi,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, þennan góða árangur háskólans á listanum.

Heildarlistann Times Higher Education Global University Employability Ranking má nálgast á vefsíðu Times Higher Education
 

Nemendur í Gimli