Skip to main content
27. febrúar 2024

Landsliðsmaður lýkur prófi í þroskaþjálfafræði

Landsliðsmaður lýkur prófi í þroskaþjálfafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Viggó Kristjánsson er íslensku handboltaáhugafólki að góðu kunnur. Hann hefur vakið mikla athygli með íslenska landsliðinu á undanförnum árum en samhliða hefur hann leikið sem atvinnumaður í Evrópu. Viggó var í hópi bestu leikmanna íslenska liðsins á nýafstöðnu Evrópumóti í handbolta og þá hefur hann leikið feiknavel með þýska liðinu Leipzig í vetur. Færri vita hins vegar að samhliða krefjandi atvinnumennsku í bestu handboltadeild heims hefur Viggó verið í námi í þroskaþjálfafræði við Háskóla Íslands og var í hópi þeirra sem brautskráðust frá skólanum á föstudaginn var. Viggó ber náminu vel söguna og segist m.a. hafa nýtt námið til að dreifa huganum fyrir leiki.

Saga Viggós er afar athyglisverð og til marks um bæði þrautseigju og námsáhuga en um leið aukna áherslu Háskóla Íslands á að koma betur til móts við fjarnema. Viggó hóf nám í þroskaþjálfafræði árið 2015. „Eftir að ég kláraði stúdentspróf vann ég í tvö ár í grunnskóla sem stuðningsfulltrúi undir leiðsögn þroskaþjálfa. Þar kynntist ég faginu aðeins og hún hvatti mig til þess að fara í námið sem ég gerði,“ segir Viggó aðspurður um það hvernig námið hafi orðið fyrir valinu á sínum tíma.

Viggó lauk fyrsta námsárinu hér heima en bauðst árið 2016 að fara í atvinnumennsku í handbolta í Danmörku. Þar lauk hann öðru árinu í fjarnámi en í kjölfarið gerði hann hlé á náminu, m.a. vegna þess að reglur gerðu þá ráð fyrir að hann þyrfti taka ákveðin námskeið og vettvangsþjálfun hér heima. Hann nýtti hins vegar tækifærið úti og kláraði lokaritgerðina árið 2017. „Ég átti því bara smotterí eftir í öll þessi ári,“ segir hann.

Starfaði á búsetukjarna fyrir fatlað fólk síðasta sumar

Með COVID-19-faraldrinum rýmkuðu reglur um viðveru í námi og Viggó segir að eftir faraldurinn hafi hann því farið að grennslast fyrir um það hvort hann gæti ekki klárað þau námskeið sem hann átti eftir og vettvangsnám. Hann hafi þá mætt miklum sveigjanleika af hálfu starfsfólks Menntavísindasviðs, þar sem námið er hýst, og það hafi gefið honum tækifæri til að klára námið.
Viggó lauk síðustu námskeiðunum síðastliðið haust en hafði þá jafnframt um sumarið tekið vettvangsnám hér á Íslandi, á meðan sumarhlé var í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. „Ég tók vettvangsnámið í nýjum búsetukjarna hjá Seltjarnarnesbæ,“ segir Viggó sem sjálfur er alinn upp á Nesinu. 

Tækifæri þroskaþjálfa fjölbreytt

Aðspurður um upplifunina af náminu ber hann því vel söguna. „Maður lærir af öllu námi þannig séð. Þetta er náttúrlega svolítið óvenjulegt hjá mér þar sem þetta varir yfir svo langan tíma með pásum á milli þannig að maður var búinn að gleyma helling í millitíðinni sem svo rifjaðist upp þegar maður byrjaði aftur í náminu. En í grunninn snýst námið um að styðja við líf fatlaðs fólks og gæta þess að réttindi þess séu virt. Það verður að gæta þess að sofa ekki á verðinum þar,“ segir Viggó og bendir á að skjólstæðingar þroskaþjálfa hafi margir hverjir litla eða jafnvel enga rödd í samfélaginu.

Viggó segir námið víðfemt og að tækifæri þroskaþjálfa séu fjölbreytt. „Það er hægt að vinna með allt frá ungum börnum til aldraðs fólks,“ segir Viggó og bætir við: „Ég hef sjálfur bara reynslu af því að vinna í grunnskóla og svo í búsetukjarna í vettvangsnámi en það er margt annað sem er áhugavert.“

Háskólanám byggist m.a. á samvinnu nemenda og aðspurður hvernig það hafi gengið samhliða atvinnumennskunni segir Viggó að það hafi gengið betur en hann þorði að vona. „Við vorum mikið í samskiptum í gegnum Teams og svo Zoom og bæði hópavinna og samskipti við kennara gekk framar vonum. Mikið af samnemendunum mínum búa úti á landi þannig að þau eru í raun í sömu stöðu og ég,“ bendir hann enn fremur á.

Viggó leikur um þessar mundir með þýska liðinu Leipzig. Atvinnumennska í íþróttum er afar krefjandi, ekki einungis er æft tvisvar á dag heldur fylgja starfinu og landsliðsverkefnum mikil og regluleg ferðalög þannig að atvinnumenn eru mikið að heiman. Aðspurður hvort það hafi haft áhrif á námsástundun segir Viggó að þvert á móti hafi það eiginlega hjálpað til. MYND/Klaus Trotter

Lokaverkefni helgað fötluðu fólki og íþróttum

Íþróttir hafa átt hug Viggós frá unga aldri en hann var einnig mjög efnilegur knattspyrnumaður og á að baki leiki með yngri landsliðum og í efstu deild í þeirri íþrótt. Það kemur því kannski ekki á óvart að íþróttir hafi verið þungamiðja í lokaverkefni hans í þroskaþjálfafræði sem Viggó lauk, eins og áður sagði, árið 2017. „Í lokaverkefninu skoðaði ég m.a. hvort og þá hvernig virk íþróttaþjálfun getur hjálpað fötluðum börnum. Ég rýndi líka aðeins í afreksmennsku hjá fötluðu fólki,“ segir Viggó og bendir að hópur fatlaðra einstaklinga hér á landi hafi náð að sinna í afreksmennsku í íþróttum, en þekktustu dæmin eru eflaust í sundi og frjálsum íþróttum.

„Það var mjög áhugavert að vinna þetta verkefni. Ég held að það sé búið að sanna sig, hvort sem það eru fötluð börn eða önnur börn, að skipulögð íþróttaiðkun, hvort sem það er einu sinni eða oftar í viku, gerir heilmikið, eflir sjálfstraust og skapar vettvang fyrir börnin utan skólans. Þau eflast í hóp, takast á við bæði jákvæða og neikvæða hluti og læra að leysa ágreining. Og svo náttúrlega að læra að tapa og vinna,“ segir Viggó.

Sjálfur reyndi hann að setja fót íþróttahóp fyrir fötluð börn sem hittist einu sinni í viku þegar hann starfaði sem stuðningsfulltrúi í grunnskólanum á Seltjarnarnesi á sínum tíma. „Slíkt er hægara sagt en gert vegna þess að þú ert oft með fjölbreyttan hóp með fjölbreyttar þarfir og ólíka getu,“ segir Viggó og hrósar um leið íþróttafélaginu Ösp fyrir fjölbreytt og gott íþróttastarf fyrir fatlað fólk.

Viggo og landslisfelagar

Viggó ásamt nokkrum af félögum sínum í íslenska landsliðinu á nýafstöðnu Evrópumóti.

Námið dreifði huganum á leikferðalögum

Viggó hefur leikið sem atvinnumaður í handknattleik bæði Danmörku, Austurríki og Þýskalandi ásamt því að spila með íslenska landsliðinu. Atvinnumennska í íþróttum er afar krefjandi, ekki einungis er æft tvisvar á dag heldur fylgja starfinu og landsliðsverkefnum mikil og regluleg ferðalög þannig að atvinnumenn eru mikið að heiman. Aðspurður hvort það hafi haft áhrif á námsástundun segir Viggó að þvert á móti hafi það eiginlega hjálpað til. „Ég er með tvö lítil börn þannig að þegar ég er heima er nóg að gera en þegar við erum að keyra í útileiki þá er alltaf farið daginn áður og gist á hóteli og þar gafst mér eiginlega mestur tími til að sinna náminu. Það er líka fínt að dreifa huganum með því og hugsa ekki of mikið um handboltann,“ segir Viggó.

Viggó gat ekki verið viðstaddur brautskráninguna frá Háskóla Íslands á föstudag enda keppni í þýsku úrvalsdeildinni komin á fullt eftir Evrópumótið í janúar. Hann stendur engu að síður nú með BA-próf í þroskaþjálfafræði í höndunum eftir mikla vinnu. Aðspurður hvað standi upp úr eftir námið stendur ekki á svari. „Það sem stendur upp úr er ákveðin þrautseigja. Mig langaði alveg á tímabili að gefast upp og gleyma þessu sem hefði verið synd því ég var búinn með 130 einingar árið 2017,“ segir hann og bætir við: „Ég er sömuleiðis búinn að kynnast hópi af fólki í gegnum námið og þroskaþjálfum. Ég er bara ánægður með að vera loksins búinn með þetta. Þetta eykur framtíðarmöguleika manns.“

Nýtir námið í handboltanum

Það er sannarlega mikill áfangi í lífi hvers einstaklings að ljúka háskólanámi og aðspurður hvort hugur hans Viggó stefni á frekara nám segir hann allt opið. „Ég gæti alveg hugsað mér að fara í eitthvað annað núna eða taka meistarapróf í einhverju sambærilegu. Ég er enn þá skoða það og meta. Ég með samning hérna í þrjú og hálft ár í viðbót og stefni á að spila handbolta sem atvinnumaður lengur en það og það er því nægur tími,“ segir Viggó sem skrifaði í fyrra undir samning við Leipzig til ársins 2027.

„Eins og staðan er í dag er ég í draumavinnu fyrir mig, eitthvað sem ég er búinn að stefna að alla ævi, að vera atvinnumaður í íþróttum,“ segir Viggó og heldur áfram: „Mér finnst ég nýta námið strax í dag, maður lærir af allri reynslu og ég held að þetta nám, hvort sem það er beint eða óbeint, nýtist mér í handbolta. Mér finnst áhugavert og ég er með það bak við eyrað að ég hefði áhuga á því að vinna sem þroskaþjálfi í grunnskóla eða búsetukjarna í framtíðinni. Maður er alla vega með plan B ef allt fer á versta veg og íþróttaferlinum lýkur skyndilega vegna meiðsla,“ segir Viggó að endingu.

Háskóli Íslands óskar Viggó og öðrum nýútskrifuðum kandídötum innilega til hamingju með áfangann.

Kynntu þér nám í þroskaþjálfafræði í HÍ

Viggó í leik með íslenska landsliðinu.