Skip to main content
28. október 2022

Með skiptinámi má draga úr líkum á átökum milli þjóða

Með skiptinámi má draga úr líkum á átökum milli þjóða - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Skiptinám er mjög mikilvægt fyrir háskólanema, sérstaklega nú á dögum. Ef allir í heiminum gætu búið í öðru landi í eitt ár, þá gætum við kannski komið á heimsfriði. Þetta hljómar kannski eins og draumsýn, en ef allir gætu upplifað hvernig það er að vera útlendingur í öðru landi - og fengju tækifæri til að sjá hvernig aðrir lifa og hugsa - þá myndum við hafa minni átök og færri stríð.“ Þetta segir Daniel Haataja, lektor í finnsku við Minnesota-háskóla, á lýtalausri íslensku en hann er Bandaríkjamaður af finnsku bergi brotinn. Þegar hann víkur að skiptinámi talar Daniel út frá eigin reynslu en hann er á því að skiptinám dragi hreinlega úr líkum á átökum milli þjóða.

Daniel er alinn upp í stórborginni Minneapolis og fékk í vöggugjöf tengslin við töfra tungumálanna. Afi hans og amma töluðu alltaf finnsku sín á milli og sem barn lærði Daniel að hlusta eftir sérkennum finnskunnar og hann greip strax nokkur orð og fáeina frasa. Þessi nánd við finnskuna og tenglsin við upprunann gerðu það að verkum að hann fór 16 ára gamall til Finnlands í skiptinám. Þar bjó hann í eitt ár til að ná raunverulegum tökum á tungu forfeðranna. Seinna bætti Daniel svo Íslandi við en hann kom hingað í skiptinám seint á níunda áratugnum þegar George Michael naut hvað mestrar hylli og íslenskir karlmenn létu faxið vaxa aftur á axlir.

Í veislu til heiðurs 40 ára samtarfi HÍ og Minnesota-háskóla fyrr í haust hélt Daniel tölu sem snart strengi í hjarta allra Íslendinga á staðnum. Hann talaði reiprennandi íslensku og vék að því þegar hann var í skiptinámi á landinu kalda. Hann bjó á Gamla garði og vann um stund við nemendaskrá Háskóla Íslands og sagðist í ræðunni hafa notið hverrar sekúndu á Íslandi. „Það að búa á Gamla garði var mikið happ, okkur kom öllum mjög vel saman fólkinu sem ég bjó með, bæði Íslendingum og útlendingum, það voru allir mjög vingjarnlegir.“ 

Daniel segir að árið á Íslandi hafi líka fært honum mikið sjálfstraust. „Ég uppgötvaði að ég gæti flutt til nýs lands og þrifist þar. Það sem var eftirminnilegast var samt kannski náttúran á Íslandi  – hún er svo stórfengleg, manni finnst maður svo lítill í samanburðinum.“  

Frábært að læra íslensku

Íslenska er langt í frá að vera fyrsta tungumálið sem flesta unga Bandaríkjamenn dreymir um að læra. Daniel segir hins vegar að það hafi verið frábært að læra íslensku en hann hafði farið á námskeið í forníslensku við Minnesota-háskóla áður en hann flutti hingað. Á því námi byggði hann skilning sinn á málfræði og formgerð tungunnar í nútímanum.  Með forna málið í farteskinu hóf Daniel að tala íslensku frá fyrstu mínútu á íslenskri grund.

„Það var mjög erfitt í byrjun,“ segir Daniel og brosir, „en smátt og smátt lærði ég og gat talað við fólk. Ég held að það sé best að tala við fólk frá fyrsta degi á tungumáli landsins sem þú flytur til, annars verður það svo erfitt að skipta um tungumál með þeim sem þú ert fyrst búinn að tala við á ensku. Tungumál er nefnilega mikilvægur hluti af sambandinu sem þú átt við fólk. Vinkonan mín, hún Gunna, hjálpaði mér líka mjög mikið. Við vorum vön að sitja í eldhúsinu á Gamla garði og kjafta og drekka kaffi klukkutímum saman. Og þegar ég byrjaði að vinna á nemendaskrá fór íslenskan upp á hærra stig. Í lok ársins gat ég talað um næstum því hvað sem er á íslensku,“ segir Daniel og hlær. 

„Ég hef líka alltaf heillast af eyjum. Ísland er allt öðruvísi en Minnesota, þar sem ég ólst upp. Landið hefur sína eigin menningu, bókmenntir og tungumál, svo ekki sé talað um fallega náttúru. Og vegna þess að Ísland er smátt, og á vissan hátt einangrað eða afmarkað, þá gat maður reynt að læra næstum því allt um landið og í raun og veru að þekkja það vel,“ segir Daniel sem er hér í hinni fallegu íslensku náttúru seint á níunda áratug síðustu aldar.

Tengslin mikilvæg milli Háskóla Íslands og Minnesota-háskóla

Daniel starfar nú sem lektor í finnsku við Minnesota-háskóla en það hefur hann gert frá árinu 2002. Hann stundaði sjálfur nám við Minnesota-háskóla og lauk þaðan BA-námi í finnsku og rússnesku. Seinna lauk hann MA-námi í málvísindum frá Indiana-háskóla og loks doktorsgráðu í málvísindum með sérhæfingu í hljóðkerfisfræði frá Kaliforníuháskóla í Santa Cruz. 

„Tengslin milli Háskóla Íslands og Minnesota-háskóla eru mjög mikilvæg,“ segir Daniel. „Sambandið við Minnesota-háskóla er það fyrsta sem Háskóli Íslands kom á fót við erlendan háskóla. Þetta er orðin löng saga og sterk tengsl hafa leitt til mikillar samvinnu sem hefur breytt lífi mjög margra til hins betra, bæði skiptinema og starfsmanna beggja háskóla.“

Daniel i mosa

„Ég uppgötvaði að ég gæti flutt til nýs lands og þrifist þar. Það sem var eftirminnilegast var samt kannski náttúran á Íslandi  – hún er svo stórfengleg, manni finnst maður svo lítill í samanburðinum.“  

Trén eru orðin hærri

Þegar Daniel var á Íslandi hafði hann ættarnafnið Karvonen. Margir muna kannski eftir honum með það nafn. „Haataja var upprunalegt ættarnafn langafa míns sem kom frá Finnlandi til Ameríku og mig hafði alltaf langað að taka það upp,“ segir Daniel. 

Hann hefur komið margsinnis til Íslands eftir árið sitt hér í skiptinámi. „Trén eru orðin hærri!,“ segir hann og hlær aðspurður um helstu breytingar sem hafi orðið á vegi hans. „Já og svo er Reykjavík líka miklu stærri, og það eru mun fleiri útlendingar á Íslandi í samanburði við tímann þegar ég var þar árin 1988 til 1989.“  

Daniel segir að Ísland se þó enn mjög sérstakur staður eða hreinlega óvenjulegur. Það hafi ekki breyst í tímans rás. Hann segir að óvenjulegir staðir hafið líka alltaf vakið áhuga sinn, alveg frá blautu barnsbeini. „Ég hef líka alltaf heillast af eyjum. Ísland er allt öðruvísi en Minnesota þar sem ég ólst upp. Landið hefur sína eigin menningu, bókmenntir og tungumál, svo ekki sé talað um fallega náttúru. Og vegna þess að Ísland er smátt, og á vissan hátt einangrað eða afmarkað, þá gat maður reynt að læra næstum því allt um landið og í raun og veru að þekkja það vel.“ 

Daniel Haataja, lektor í finnsku við Minnesota-háskóla