Skip to main content
15. mars 2024

Forsætisáðherra vill samtal um leiðir til að draga úr kynjabilinu í atvinnulífinu

Forsætisáðherra vill samtal um leiðir til að draga úr kynjabilinu í atvinnulífinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og fulltrúar úr háskólasamfélagi og viðskiptalífi ræddu hverning draga megi úr kynjabilinu í atvinnulífi á viðburði sem var hluti af ráðstefnunni Viðskipti og vísindi og Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands stendur fyrir í þessari viku. Fjöldi viðburða er í boði og þetta er í annað sinn sem ráðstefnan er haldin.

Yfirskrift viðburðarins var „Hver geta dregið úr kynjabilinu í atvinnulífinu?“ og fór hann fram í Hátíðasal Háskóla Íslands. Þar steig Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild, fyrst á svið og fór yfir helstu niðurstöður rannsókna sem hún og samstarfsfólk í deildina hafa unnið að á undanförnum fimm árum. Hún sagði frá rannsókn meðal áhrifakvenna í atvinnulífinu, viðtölum við stjórnarfólk í öllum skráðum félögum hér á landi, framkvæmdastjóra og stjórnarformenn lífeyrissjóða og netpanelskönnun meðal almennings. 

Karlar eru mun andvígari kynjakvótum en konur

Í erindi Ástu Dísar mátti greina nokkurn samhljóm milli þessara mismunandi aðila og voru þau mjög kynjaskipt. Konur eru þeirrar skoðunar að aðgerða og inngripa sé þörf til þess að jöfn tækifæri séu fyrir kynin í æðstu stjórnunarstöðum hér á landi. Konurnar voru hlynntari tímabundnum inngripum á borð við kynjakvóta á framkvæmdastjórastöður í atvinnulífinu, þær töldu að auglýsa ætti forstjórastöður og að karlar þyrftu að líta aðeins lengra en í eigið tengslanet. Sé litið til almennings þá var tæplega helmingur svarenda sammála því að karlar og konur hefðu jöfn tækifæri til að hljóta stjórnendastöður í atvinnulífinu og rúmlega 57% sögðu að það gengi of hægt að jafna tækifærin og kynjahlutföllin í atvinnulífinu. Um 36% vildu setja á kynjakvóta og voru konur þar í meirihluta.

Potturinn með hæfum konum er ekki nógu stór

Karlarnir vilja síður inngrip og telja að atvinnulífið eigi að leysa þetta sjálft. Þeir vilja síður auglýsa forstjórastöður því að þá berist alls kynd umsóknir, líka frá mishæfum körlum. Konur þurfi að vera þolinmóðar í um það bil 10-15 ár til viðbótar, þetta komi allt með aukinni menntun og reynslu, að sögn karla. Þá sögðu karlarnir að konur hefðu ekki næga reynslu til þess að gegna starfi forstjóra og að fjöldi kvenna sem hefðu hæfni, reynslu og þekkingu væri bara ekki nægilega mikill. Þetta væru alltaf sömu konurnar.

Er ekki tilbúin að bíða í 10-15 ár í viðbót

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók næst til máls og sagði að það hefði verið virkilega gaman að hlusta á erindi Ástu Dísar, en bætti svo við: „Nei, reyndar var það ekki gaman, heldur sláandi og jú líka gaman.” Katrín áréttaði það að jafnrétti kæmi ekki að sjálfu sér, til þess væru hún og aðrir í samfélaginu búin að bíða nógu lengi og að hún væri ekki tilbúin í önnur 10 -15 ár. Mál þróuðust ekki nægilega hratt og vitnaði hún m.a. til markmiðs Jafnvægisvogarinnar og forsætisráðuneytisins um að hlutfall kvenna og karla í framkvæmdastjórnum félaga skyldi verða 40/60 árið 2027. Það væri augljóst að þetta myndi ekki nást með sömu þróun og verið hefði. Þá benti Katrín máli sínu til stuðnings á spálíkan sem Ásta Dís hafði birt á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar 2023 um að ef að haldið væri áfram á sömu braut og undanfarin ár og þróunin yrði svipuð og verið hefur þá yrði markmiðinu ekki náð fyrr en árið 2048.

Af þessu og fleiru má ráða að jafnrétti kemur ekki að sjálfu sér og Katrín sagði að hún væri mjög svo til í samtal um breytingar, hvort heldur að setja á kynjakvóta eða aðrar leiðir sem gætu virkað til þess að breyta stöðunni. Þá þyrfti einnig að skoða að fara að dæmi Norðmanna og sekta þau félög sem ekki fara að lögum. Þetta er ekkert flókið, sagði Katrín, jafnrétti væri ákvörðun.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í pontu í Hátíðasal HÍ. Þar sagðist hún reiðubúin í samtalum breytingar, hvort heldur að setja á kynjakvóta eða aðrar leiðir sem gætu virkað til þess að breyta stöðunni. Þá þyrfti einnig að skoða að fara að dæmi Norðmanna og sekta þau félög sem ekki fara að lögum. MYND/Kristinn Ingvarsson

Það er mýta að þetta séu alltaf sömu konurnar alls staðar

Næstur tók til máls Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður fyrir greiningu og ráðgjöf hjá Creditinfo. Hann benti á að greining fyrirtækisins sýndi að langt er í land með að jafnvægi milli kynjanna í æðstu stjórnendastöðum stærstu fyrirtækja landsins náist og í raun allt of langt ef fram heldur sem horfir. Einnig sýndi greiningin að smitáhrif laga um kynjakvóta yfir í smærri félög væri takmörkuð og að „endurnýting“ karla og kvenna í stjórnum væri sú sama, þ.e. að gamla mýtan um að „þetta eru alltaf sömu konurnar“ætti ekki við rök að styðjast í stjórnum stærstu félaga landsins. Að lokum benti hann á að um fimmtungur þeirra félaga sem lög um kynjakvóta ná yfir fylgdi ekki lögunum að öllu leyti.

Snædís Ögn Flosadóttir, forstöðumaður á Mörkuðum Arion banka, flutti erindið „Faldi fjórðungurinn, stækkum kökuna“. Þar ræddi hún um stöðu kynja í fjárfestingum og sagði að mikilvægt væri að fleiri konur færu fyrir fjármagni hér á landi. Þeim væri að fjölga en það þyrfti að gerast hraðar og undirstrikaði að herferð Arion banka, Konur fjárfesta, væri að skila árangri. Þá hefði konum fjölgað bæði sem stjórnendum lífeyrissjóða og sem sjóðsstjóra og það væri mjög jákvætt. Snædís sagðist sammála því að þróunin væri ekki nógu hröð þó svo að konum hefði fjölgað í æðstu stöðum frá árinu 1999 og skoða þyrfti leiðir til þess að beyta henni, ekki endilega kynjakvóta, það væru fjölmargar leiðir líkt og Ásta Dís hefði bent á í erindi sínu. Snædís ræddi einnig um hlutverk lífeyrissjóða út frá lögum frá 1997 og benti á að í þeim kæmi fram að allar fjárfestingar skyldu byggðar á viðeigandi greiningu á upplýsingum með öryggi, gæði, lausafjárstöðu og arðsemi safnsins í heild í huga. Þá skyldu lífeyrissjóðir setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Þar undir falli m.a. launamunur kynja, kynjafjölbreytni og kynjahlutföll í stjórnum félaga.

Eðlilegt að gera væntingar til kauphallarfyrirtækja um að vera til fyrirmyndar

Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, var næstur í pontu. Hann benti á að það væri eðlilegt að væntingar væru um að framsæknustu fyrirtæki landsins, sem eru skráð í Kauphöllinni, leiddu framfaraskref í þessum efnum sem og öðrum. „En félögin í Kauphöllinni eru bara 31 á meðan fjöldi félaga með 50 starfsmenn eða fleiri og lögbundinn kynjakvóti á við um eru tífalt fleiri. Ef við viljum hreyfa í alvöru við þessari þróun þá þarf líka að beina kastljósinu að stærri óskráðum fyrirtækjum og tryggja að hvatar þeirra til að brúa kynjabilið verði líka til staðar. Einnig ættu fagfjárfestar að öllu leyti að líta til sömu viðmiða í jafnréttismálum og öðrum samfélagsmálum, hvort sem er hjá skráðum eða óskráðum, innlendum sem erlendum, og hvort sem eignin í félögunum er bein eða óbein í gegnum sjóði, ef eignin uppfyllir á annað borð samræmd viðmið, sé t.d. yfir tilteknum stærðarmörkum.“ 

Gagnsæi og upplýsingagjöf eru besta vopnið

Þá sagði Magnús að eitt besta vopnið í þessari baráttu væri gagnsæi og upplýsingagjöf um kynjahlutföll sem geti hvatt félög til góðra verka. „Það er athugandi að setja í lög að öll félög með 50 starfsmenn eða fleiri birti á vef sínum upplýsingar um kynjahlutföll í stjórn og framkvæmdastjórn og ef þau eru ójöfn skýri hvers vegna. Með þessu yrði ekki gerð krafa um kynjajafnvægi en reglan krefst gagnsæis og að félögin standi fyrir máli sínu. Þá eru ýmis tækifæri á fjármálamarkaði til að sníða vörur sem auðvelda fjárfestum að styðja kynjajafnvægi frekar með fjárfestingum sínum.“

Þátttakendur í viðburðinum Hver geta dregið úr kynjabilinu í atvinnulífinu?