Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 5. nóvember 2020

12/2020
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2020, fimmtudaginn 5. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Einar Sveinbjörnsson óskaði eftir að liður 7c yrði ræddur, en ekki voru gerðar athugasemdir við „bókfærð mál“ að öðru leyti og skoðast þau því samþykkt.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a.    Fyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 1. október sl.
Inn á fundinn komu Daði Már Kristófersson, prófessor við Hagfræðideild, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, Einar Þór Sverrisson og Jón Örn Árnason, lögmenn hjá Mörkinni lögmannsstofu hf., og Hilmar Kristinsson, viðskiptafræðingur. Rektor gerði ásamt þeim grein fyrir framlögðum samþykktum fyrir einkahlutafélagið Fasteignir Háskóla Íslands ehf. og drögum að yfirliti um eignir fyrirhugaðs félags. Málið var rætt og svöruðu rektor og gestir fundarins spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Samþykkt einróma.

Daði Már, Guðmundur R., Einar Þór, Jón Örn og Hilmar viku af fundi.

b.    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021.
Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir helstu atriðum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021 er lúta að háskólum og samkeppnissjóðum almennt og Háskóla Íslands sérstaklega. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum ráðsmanna.

c.    Stefna ríkisaðila til þriggja ára og starfsáætlun, sbr. bréf mennta- og menningarmálaráðherra.
Rektor gerði grein fyrir framlögðu skjali um stefnumiðaða áætlun Háskóla Íslands til þriggja ára, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015. Málið var rætt og svöruðu rektor og Jenný Bára spurningum.

Jenný Bára vék af fundi.

d.    Starf endurskoðunarnefndar.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi. Ásthildur Margrét Otharsdóttir, formaður nýrrar endurskoðunarnefndar háskólaráðs, gerði grein fyrir starfsreglum og starfi nefndarinnar, og skýrslu um innra gæðamat á innri endurskoðun Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu þær Ásthildur og Ingunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Ingunn vék af fundi.

3.    Skipulag fræðasviða og deilda, sbr. starfsáætlun háskólaráðs, ásamt niðurstöðu umfjöllunar Heilbrigðisvísindasviðs um innra skipulag deilda og námsbrauta, sbr. fund ráðsins 4. júní sl.
Inn á fundinn kom Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, og gerði grein fyrir greinargerð fræðasviðsins vegna svars háskólaráðs við erindi sviðsins um hugsanlega stofnun sjúkraþjálfunardeildar. Rektor reifaði helstu forsendur, viðmið og sjónarmið varðandi skipulag fræðasviða og deilda sem ráðgert er að farið verði yfir í vetur, sbr. starfsáætlun háskólaráðs. Málið var rætt og svöruðu rektor og Inga spurningum og athugasemdum.

Inga vék af fundi.

4.    Undirbúningur nýrrar heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026. Staða mála.
Rektor fór yfir verk- og tímaáætlun við mótun nýrrar heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026. Fram kom m.a. að leitast verður við að hafa víðtækt samráð innan og utan Háskóla Íslands við stefnumótunina og verður málið m.a. á dagskrá háskólaþings 13. nóvember nk. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði.

5.    Samstarf Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar.
Inn á fundinn kom Magnús Örn Úlfarsson, deildarforseti Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar, og gerði ásamt rektor grein fyrir áformum um aukið samstarf Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar. Málið var rætt.

Magnús Örn vék af fundi.

6.    Kynning á starfsemi Hugvísindasviðs. Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs.
Inn á fundinn kom Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs, og gerði grein fyrir skipulagi, starfsemi, rekstri, áherslumálum og framtíðarsýn fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.

7.    Bókfærð mál.
a.    Endurskoðuð viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands, sbr. starfsáætlun háskólaráðs.

– Samþykkt.

b.    Endurskoðaðar verklagsreglur um undirbúning og stofnun nýrra námsleiða.
– Samþykkt.

c.    Breyting á 50. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 er varðar kærunefnd í málefnum nemenda.
Rektor gerði grein fyrir málinu.
– Samþykkt.

d.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á 4. mgr. 100. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Varðar að lágmarkseinkunn í MS-námi í lyfjafræði verði 6,0 í stað 5,0.
– Samþykkt.

e.    Tillaga frá námsstjórn lýðheilsuvísinda um stofnun nýrrar námsleiðar til doktorsprófs í líftölfræði.
– Samþykkt.

f.    Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að breytingu á 7. gr. reglna nr. 319/2009 um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands. Varðar inntökuskilyrði í Stjórnmálafræðideild.
– Samþykkt.

g.    Breytt heiti vísindasiðanefndar háskólanna.
– Samþykkt. Breytt heiti nefndarinnar er: Siðanefnd háskólanna um vísindarannsóknir.

h.    Samningur Háskóla Íslands og Embættis landlæknis um Heilsubrunn.
– Samþykkt.

i.    Tillaga um stuðning vegna rannsóknamissera innanlands.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a.    Dagskrá háskólaþings 13. nóvember 2020.
b.    Stjórn Watanabe styrktarsjóðsins við Háskóla Íslands.
c.    Valnefnd vegna árlegrar viðurkenningar til starfsfólks Háskóla Íslands.
d.    Hátíð í tilefni af 80 ára afmæli kennslu í verkfræði við Háskóla Íslands.
e.    Glærur rektors frá upplýsingafundi með starfsfólki Háskóla Íslands 7. október 2020.
f.    Glærur aðstoðarrektors vísinda um jafnlaunavottun frá upplýsingafundi rektors 7. október 2020.

g.    Brú á milli háskóla og atvinnulífs. Grein Odds Más Guðmundssonar, forstjóra Matís, og Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, í Fréttablaðinu 2. október 2020.
h.    Aldrei fleiri þátttakendur á Menntakviku, árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs.
i.    Háskólatónleikar hefja göngu sína á ný á netinu.
j.    Matvælafræðinemar fá tvenn verðlaun fyrir Frosta Skyr.
k.    Stór styrkur til rannsóknar á geðheilsu áhættuhópa í COVID-19.
l.    Bréf frá Gæðaráði íslenskra háskóla, dags. 27. október 2020, um fyrirhugaða ytri úttekt á Háskóla Íslands.
m.   Á 9 listum yfir bestu háskóla heims.
n.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 28. október 2020.
o.    Newsweek Report um Ísland í október 2020.

p.    Viðtal rektors við Country Reports in partnership with Newsweek.
q.    Niðurstöður könnunar Eurostudent um félagslega stöðu stúdenta.
r.    Rektor Háskóla Íslands kjörinn forseti Aurora háskólanetsins.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.50.