Skip to main content
27. október 2020

Á níu listum THE yfir bestu háskóla heims

""

Háskóli Íslands er á níu listum tímaritsins Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum og hefur aldrei verið á fleiri slíkum. Skólinn kemst m.a. í fyrsta sinn á lista yfir fremstu skóla heims á sviði viðskipta og hagfræði.

Háskóli Íslands hefur allt frá árinu 2011 verið á heildarlista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims, eða tíu ár í röð. Tímaritið hefur á síðustu árum einnig birt lista yfir bestu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum og þar hefur Háskóli Íslands sótt í sig veðrið á hverju ári. Skólinn komst á fimm lista fyrir þremur árum en er nú á níu listum samkvæmt mati Times Higher Education sem birt var í morgun.

Samkvæmt nýjum listum fyrir árið 2021 er Háskóli Íslands í:

  • 151.-175. sæti á sviði lífvísinda
  • 201.-250. sæti á sviði raunvísinda
  • 201.-250. sæti á sviði verkfræði og tækni
  • 251.-300. sæti á sviði menntavísinda
  • 251.-300. sæti á sviði félagsvísinda
  • 251.-300. sæti á sviði hugvísinda
  • 251.-300. sæti á sviði sálfræði
  • 401.-500. sæti á sviði klínískra heilbrigðisvísinda
  • 401.-500. sæti á sviði viðskipta og hagfræði

Í öllum tilvikum byggist mat Times Higher Education á þrettán þáttum í starfi skólanna, m.a. rannsóknastarfi, áhrifum rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, gæðum kennslu, námsumhverfi og alþjóðlegum tengslum. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.

Listarnir níu undirstrika í sameiningu þann alhliða styrk sem Háskólinn hefur öðlast í alþjóðlegu vísindasamstarfi á undanförnum árum en þessi góði árangur hefur orðið grundvöllur að fjölmörgum samstarfstækifærum við erlenda háskóla, bæði á sviði vísindarannsókna, kennslu og stúdenta- og starfsmannaskipta.

Háskóli Íslands einn íslenskra háskóla á tveimur virtustu matslistunum

Styrkur skólans fær enn fremur staðfestingu í stöðu hans á Shanghai-listanum svokallaða, en þar er skólinn í 501.-600. sæti samkvæmt mati ShanghaiRanking Consultancy sem birt var í sumar. Listar ShanghaiRanking á einstökum fræðasviðum sýna enn fremur að Háskóli Íslands er sá sjötti besti í heiminum á sviði fjarkönnunar en hún felst m.a. í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Þá er Háskólinn í 40. sæti yfir þá fremstu á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði, í hópi 150 bestu á sviði jarðvísinda og hjúkrunarfræði, í sæti 151-200 á sviði lífvísinda, í 200.-300. sæti innan landfræði, líffræði mannsins, stjórnmálafræði og ferðamálafræði og í 301.-400. sæti á sviði loftslagsvísinda, lýðheilsuvísinda og klínískrar læknisfræði. Enn fremur skilar frammistaða skólans honum í hóp 500 bestu á sviði sálfræði, vistfræði og hagfræði.

Háskóli Íslands er eini skólinn hér á landi sem ratar á þessa tvo virtustu lista heims yfir þá háskóla sem hæst eru metnir á alþjóðavettvangi.  

„Það er afar ánægjulegt er að sjá þennan glæsilega árangur Háskóla Íslands á þessum mikilvægu listum Times Higher Education. Alhliða styrkur Háskólans kemur hér skýrt fram og öll fimm fræðasvið skólans mælast þar inni. Það er enn fremur frábært að viðskipta- og hagfræði í Háskóla Íslands komi í fyrsta skipti inn á listann og að menntavísindi við Háskólann halda áfram að hækka á listanum en þau komu inn í fyrsta skipti á síðasta ári. Ég óska starfsfólki og stúdentum innilega til hamingju!“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Nýjan lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum má finna á vef tímaritsins

 

Byggingin Oddi