Skip to main content
21. október 2020

Stór styrkur til rannsóknar á geðheilsu áhættuhópa í COVID-19

""

Rannsóknarhópur undir forystu Unnar Önnu Valdimarsdóttur, prófessors í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, hefur hlotið um 150 milljóna króna styrk frá norrænu rannsóknastofnuninni NordForsk til rannsóknar sem tengist áhrifum kórónuveirufaraldursins á geðheilsu í fjórum norrænu ríkjanna og Eistlandi.

Rannsóknin er eitt fimm norrænna rannsóknarverkefna sem tengjast heimsfaraldrinum sem fá styrk að þessu sinni. Öll hafa það að markmiði að auka þekkingu í þágu heimsins alls á áhrifum þessa skæða sjúkdóms. Um leið er ætlunin að efla samstarf norrænna vísindamanna þannig að löndin verði betur í stakk búin til þess að takast á við slíka faraldra í framtíðinni. 

Rannsóknarverkefnin fimm snerta fjölbreytt svið, m.a. áhrif COVID-19 á meðgöngu og hlut reykinga í framgangi sjúkdómsins, og hlýtur hvert þeirra styrk að upphæð 10 milljónir norskra króna, jafnvirði um 150 milljóna íslenskra króna.

Rannsókn Unnar og samstarfsfólks nefnist Þróun geðheilsu í áhættuhópum fimm landa í heimsfaraldri COVID-19. Í henni er ætlunin að bregðast við ákalli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og vísindasamfélagsins um auknar rannsóknir á áhrifum kórónuveirufaraldursins á geðheilsu fólks. Faraldurinn hefur nú þegar haft áhrif á líkamlega heilsu milljóna manna um allan heim og um leið sett efnahag þjóða úr skorðum en mikilvægt er talið að kanna hvaða langtímaáhrif hann kann að hafa á andlega heilsu.

Í rannsókninni er aðalmarkmiðið að varpa ljósi á þrjá þætti:

1)    Hvort saga um geðsjúkdóma hafi áhrif á áhættu og framgang COVID-19-sýkingar.
2)    Áhrif sjúkdómsins á geðheilsu COVID-19-sjúklinga, aðstandenda þeirra og framlínustarfsmanna í faraldrinum, bæði til skamms og langs tíma. 
3)    Áhrif faraldursins á geðheilsu almennt út frá ólíkum viðbrögðum við faraldrinum og dánarhlutfalli í löndunum sem eru til skoðunar, þ.e. á Íslandi, í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Eistlandi.

Í rannsókninni er m.a. stuðst við gagnasöfn og sjúkraskrár sem þátttökulöndin hafa yfir að ráða. Einnig verða gögn úr yfirstandandi rannsóknum á andlegri heilsu fólks í faraldrinum nýtt en hér á landi hafa Unnur og samstarfsfólk hennar við Háskóla Íslands, Embætti landlæknis og sóttvarnarlæknis og Landspítala staðið fyrir rannsókninni Líðan þjóðar á tímum COVID-19. Hún snýst um að kanna áhrif faraldursins á einkenni streitu, sálræna líðan og almennan lífsstíl landsmanna og hvort saga um sjúkdóma og aðra áhættuþætti, hugsanleg eða staðfest COVID-19-smit tengist verri líðan og lífsgæðum. 

Vonast er til að norræna rannsóknin veiti nýja sýn á hlut geðrænna þátta í orsökum og afleiðingum COVID-19-sjúkdómsins og færi um leið norrænu ríkjunum nýja þekkingu sem geri þeim kleift að takast betur á við nýjar áskoranir innan heilbrigðiskerfa landanna í kjölfar faraldursins og faraldra framtíðarinnar. 

Auk Unnar og samstarfsfólks hennar hér á landi koma fræðimenn frá Karólínsku stofnuninni í Svíþjóð,  Stofnun sjálfbærnimála við Óslóarháskóla í Noregi, Háskólanum í Tartu í Finnlandi og verkefninu The Capital Region of Denmark að rannsókninni.
 

Unnur Anna Valdimarsdóttir