Grunnskólakennsla yngri barna
Grunnskólakennsla yngri barna
B.Ed. gráða – 180 einingar
Viltu verða kennari? Grunnskólakennsla yngri barna er fræðilegt og starfstengt nám í kennslu með áherslu á nám barna í 1.-5. bekk. Fjallað er um þroska barna og áhersla lögð á mál, þróun boðskiptahæfni og málnotkun, lestrarnám og lestrarkennslu auk máluppeldis og móðurmálsnáms. Rík áhersla er lögð á mikilvægi foreldrasamstarfs og helstu námssvið í yngstu bekkjum grunnskóla.
Skipulag náms
- Haust
- Inngangur að kennslufræði grunnskóla
- Fræðileg skrif og gagnrýninn lestur
- Samþætting og skapandi starf
- Íslenska í skólastarfi I
- Stærðfræði I
- Vor
- Læsi og lestrarkennsla
- Kennslufræði grunnskóla
- Að leika og skapa: leiklist, myndlist og tónlist
- Barnabókmenntir fyrir yngri börn
- Stærðfræði II
Inngangur að kennslufræði grunnskóla (KME102G)
Um er að ræða inngangsnámskeið í kennslufræði, ætlað verðandi grunnskólakennurum. Hér eru hugmyndir, aðferðir og hugtök kynnt til sögunnar, sem fá svo ítarlegri umfjöllun og meðferð í síðari kennslufræðinámskeiðum (NK-námskeiðum). Meginmarkmið er að veita nemendum innsýn í kenningar og rannsóknir um nám og kennslu í skóla án aðgreiningar, auk þess að gefa mynd af störfum og starfsumhverfi grunnskólakennara. Áhersla er lögð á tengsl við starfsvettvang og að nemendur tengi viðfangsefni námskeiðsins eigin reynslu og viðhorfum og leggi grunn að eigin starfskenningu. Mikilvægar hugmyndir, hugtök og viðfangsefni: Námskenningar, menntarannsóknir, nám-nemandi-námsaðstæður, kennsluhættir og kennsluáætlanir, samskipti og samstarf, kennarinn sem fagmanneskja, starfskenning og starfsuhverfi kennara, lagarammi, reglugerðir og námskrár sem snerta skyldunám.
Vinnulag: Fyrirlestrar, málstofur, skapandi viðfangsefni og margvísleg verkefni unnin einstaklingslega eða í samvinnu við aðra. Tengsl við vettvang.
Fræðileg skrif og gagnrýninn lestur (ÍET102G)
Meginmarkmið námskeiðsins er að búa nemendur í háskólanámi undir lestur og ritun fræðilegra texta og þjálfa þá í gagnrýnum lestri enda er hvort tveggja grundvallaratriði í öllu háskólanámi.
Fjallað verður um ýmsar tegundir fræðilegs efnis og framsetningar á því. Nemendur kynnast helstu einkennum fræðilegra skrifa og læra hvað felst í ritstýrðum og/eða ritrýndum textum. Nemendur öðlast þjálfun í að lesa, greina og meta slíka texta. Rætt verður um sjálfstæð, gagnrýnin og heiðarleg vinnubrögð ásamt því sem fjallað verður um höfundarrétt, ritstuld og falsfréttir.
Nemendur öðlast færni í að vinna efni upp úr fræðilegum texta, svo sem útdrætti, og að flétta saman heimildir við eigin texta. Rætt verður ítarlega um fræðilegar ritgerðir á háskólastigi og nemendur fá þjálfun við gerð slíkra ritgerða. Þá verður fjallað um viðeigandi málnotkun í fræðilegum skrifum og hún þjálfuð.
Fjallað verður sérstaklega um heimildaleit og heimildamat; gæði heimilda og hvernig greina megi vandaðar heimildir frá óvönduðum. Þá fá nemendur þjálfun í heimildaskráningu. Einnig verða nemendur þjálfaðir í að nota heimildir í eigin skrifum og greina milli eigin raddar og heimildarinnar sjálfrar.
Samþætting og skapandi starf (GKY102G)
Á námskeiðinu er megináhersla á samþættingu námsgreina með því að nota Söguaðferðina (Storyline) sem meginþráð í náminu. Valin eru viðfangsefni tengd náttúru og samfélagi og unnið með þau á fjölbreyttan og skapandi hátt. Áhersla verður á að nemendur skynji námið sem heild. Hugað verður að námsmati og hvernig námsmatsaðferðir henta.
Lögð verður áhersla á ólíka reynslu og forsendur nemenda, út frá einstaklingmiðuðu námi og menntun fyrir alla í fjölmenningarsamfélagi þar sem gagnrýnin og skapandi hugsun er sem rauður þráður í gegnum námið.
Íslenska í skólastarfi I (ÍET103G)
Í námskeiðinu verður fjallað um íslenska menningu og bókmenntir í víðum skilningi og þátt þeirra í almennri málnotkun sem og í málheimi ólíkra faggreina innan skólakerfisins.
Fengist verður við grundvallarhugtök í bókmenntafræði, orðræðugreiningu og menningarfræði og gefin dæmi um fjölbreyttar leiðir og miðla við kennslu sem stuðla að skilningi og áhuga grunnskólanema á eigin menningu og annarra.
Kennaranemar fá tækifæri til að lesa fagurbókmenntatexta úr fortíð og nútíð og setja í samhengi við eigin reynsluheim og kennslu ólíkra faggreina í framtíðinni.
Fjallað verður um fjölbreytta texta, jafnt fagurbókmenntir sem nytjatexta og afþreyingartexta, með það að markmiði að nemendur geri sér grein fyrir því að tungumálið er það verkfæri sem við notum í öllu okkar daglega lífi og námi þvert á námsgreinar. Í námskeiðinu verður leitast við að greina þau djúpu lög merkingar sem finna má í ólíkum textum og búa nemendum í hendur verkfæri til að greina texta í umhverfi sínu á sjálfstæðan og gagnrýninn hátt.
Í fyrirlestrum kennara og verkefnum kennaranema verður sjónum beint að því hvernig samþætta má ólíkar námsgreinar grunnskólanna. Þannig verður einblínt á þann þátt kennarastarfsins sem felur í sér að kenna ólíkar námsgreinar á íslensku. Nemendum gefst því tækifæri til að ígrunda þátt tungumálsins í ólíkum greinum, t.d. samfélagsfræði, stærðfræði og raungreinum, erlendum tungumálum, og ekki síst í listgreinum, t.a.m. myndmennt og leiklist.
Stærðfræði I (SNU101G)
Á námskeiðinu kynnast kennaranemar meginmarkmiðum náms í stærðfræði í grunnskóla. Fjallað er um hvað felst í stærðfræðinámi og hvernig styðja má grunnskólanemendur við stærðfræðinám.
Nemendur læri hvernig fjölbreyttar leiðir í kennslu geta stuðlað að því að skilningur nemenda á stærðfræðilegum hugtökum styrkist.
Fjallað verður um hlutverk stærðfræðikennarans og hæfni sem hann þarf að búa yfir.
Nemar kynnast beitingu upplýsingatækni við nám og kennslu.
Læsi og lestrarkennsla (KME204G)
Á námskeiðinu verður stefnt að því að nemar öðlist góða þekkingu á grundvallaratriðum læsis, og þróun þess frá upphafi til loka grunnskóla. Fjallað verður um nám og kennslu í lestri og ritun, um áhrif tvítyngis á læsi, lestrarörðugleika og úrræði við þeim. Veitt verður innsýn í fræðilegar undirstöður lesskilnings og fjallað á hagnýtan hátt um kennsluaðferðir, lestrarhvatningu, val á lesefni, gagnrýninn lestur og lestur á rafrænum miðlum og neti.
Sýnd verða dæmi um kennslu og kennsluaðferðir í lestri, lesskilningi og ritun, og nemendur hvattir til að leita leiða til að auka færni nemenda sinna og lestrargleði. Skoðað verður hvaða lesefni er gefið út handa nemendum grunnskóla, og hvernig unnt er að nota það nemendum til gagns og gleði.
Í lok námskeiðs er þess vænst að nemendur hafi öðlast fræðilega og hagnýta þekkingu til að geta gefið framtíðarnemendum sínum þann stuðning sem þarf til að þeir taki stöðugum framförum í læsi, frá æsku til fullorðinsára.
Kennslufræði grunnskóla (KME206G)
Námskeiðið miðar að því að kennaranemar öðlist þekkingu og leikni í almennri kennslufræði og hæfni til að kenna grunnskólanemendum.
- Áhersla er á kennsluhætti og kennsluaðferðir í grunnskólum, námsumhverfi og bekkjarstjórnun, og leitað er svara við spurningunni um hvað einkenni árangursríka kennslu.
- Athygli er beint að einkennum aldursstiga grunnskóla, yngsta- mið- og efsta stigi eða unglingastigi, og kynntar leiðir til að örva þroska og koma til móts við ólíkar þarfir nemenda í skóla án aðgreiningar.
- Fjallað verður um samvinnu og samskipti nemenda, teymisvinnu og teymiskennslu kennara, en einnig tengsl heimila og skóla og þátttöku foreldra í námi barna sinna.
- Kennaranemar fá þjálfun í framsögn og raddvernd, tjáningu og framkomu.
- Með vettvangsnámi fær kennaranemi æfingu í að skipuleggja fjölbreytt nám, útfæra kennsluaðferðir, nýta upplýsingatækni og leggja mat á reynslu sína.
Að leika og skapa: leiklist, myndlist og tónlist (KME205G)
Nemendur kynnast þýðingu lista í námi barna. Unnið verður með fjölbreyttar aðferðir listsköpunar með áherslu á grunnþætti listmenntunar og einfalda tækni. Umfjöllun um leiklist, myndlist, tónlist í skólastarfi.
Barnabókmenntir fyrir yngri börn (LSS207G)
- Barnabókmenntir sem bókmenntagrein.
- Menningarlegt og listrænt mat á fjölbreyttum barnabókum fyrir yngri börn.
- Barnabækur sem grundvöllur upplifunar, orðlistar, sköpunar, tjáningar og miðlunar.
- Gildi barnabókmennta í uppeldi og menntun barna með áherslu á menningu og samfélag, jafnrétti, fjölmenningu, lestur, læsi og lífsleikni.
- Tengsl barnabókmennta við þjóðlegan og alþjóðlegan sagnasjóð sem og aðrar tegundir bókmennta og listgreina.
Þeir sem hófu nám í Grunnskólakennslu með áherslu á íslensku, B.Ed., haustið 2021 eiga að taka námskeiðið LSS207G með tveimur vettvangseiningum og fara í vettvangsnám í grunnskóla.
Stærðfræði II (SNU204G)
Á námskeiðinu styrkja nemar tök sín á völdum þáttum úr stærðfræði, þar á meðal talnafræði og rúmfræði. Jafnframt er fjallað um talnaritun og reikning.
Áhersla er lögð á fjölbreytni og sjálfstæði í leit að lausnum á stærðfræðilegum þrautum. Nemendur kynnist því hvernig fjölbreyttar leiðir í kennslu geta stuðlað að auknum skilningi nemenda á stærðfræðilegum hugtökum.
- Haust
- Þróun máls og læsis
- Þroska- og námssálarfræði
- Vor
- Lestrarkennsla á yngsta stigi grunnskóla
- Námskrá og námsmat
- Óháð misseri
- Leikskólafræði I - Leikskólinn sem menntastofnunV
- Sjálfbærni, náttúra og listirV
- Hreyfing og leikræn tjáning, úti og inniV
Þróun máls og læsis (GKY301G)
Um er að ræða 10 eininga námskeið þar sem nemendur öðlast þekkingu á undirstöðuatriðum máltöku og læsisþróunar hjá börnum upp að 10 ára aldri. Meginviðfangsefni námskeiðsins beinast að því hvernig börn læra tungumálið og hvernig tungumálið virkar sem undirstaða alls bóklegs náms. Í námskeiðinu er fjallað tengsl málþroska við aðra þroskaþætti, hugtakanám og tjáningu. Ennfremur er fjallað um víxlverkandi áhrif lestrar og málþroska. Nemendur kynnast helstu frávikum í málþroska og aðferðum til að vinna með börn með málþroskafrávik innan grunnskólans. Enn fremur verður farið í tví- og fjöltyngi og hvernig má vinna á árangursríkan hátt með þeim barnahópum innan grunnskólans. Nemendur fá innsýn í nokkur málþroskapróf. Námskeiðið er undanfari námskeiðsins Lestrarkennsla á yngsta stigi grunnskólans sem er kennt á vormisseri.
Þroska- og námssálarfræði (KME301G)
Tilgangur þessa námskeiðs er að nemendur öðlist heildarsýn á þroska barna frá fæðingu og fram á unglingsár.
Inntak/viðfangsefni:
Fjallað verður um þær breytingar sem verða á þroska barna á mismunandi sviðum og aldursskeiðum og helstu kenningar sem notaðar hafa verið til að varpa ljósi á þessar breytingar. Fjallað verður um vitsmunaþroska, tilfinningaþroska og þróun tilfinningalegra tengsla, félagsþroska, þróun sjálfsmyndar og siðferðisvitundar. Námskenningum og vistfræðilegum kenningum (ecological approach) verður einnig gerð skil. Rætt verður um orsakir og eðli einstaklingsmunar, samfellu í þroska og sveigjanleika þroskaferlisins. Tengsl náms og þroska, áhugahvöt og áhrif uppeldis, menningar og félagslegra aðstæðna á þroska barna verða einnig til umfjöllunar. Áhersla verður lögð á gildi þroskasálfræðinnar í uppeldis- og skólastarfi.
Vinnulag:
Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðu/verkefnatímum. Í umræðu/verkefnatímum fá nemendur þjálfun í að ræða námsefnið á gagnrýninn hátt.
Lestrarkennsla á yngsta stigi grunnskóla (GKY401G)
Á námskeiðinu er megináhersla lögð á að kennaranemar dýpki þekkingu sína á lestrarkennslu í fimm meginþáttum lestrarnáms: hljóðkerfis og hljóðavitund, umskráningu, lesfimi, orðaforða og lesskilningi auk ritunar og öðlist skilning á ábyrgð og hlutverki kennarans í lestrarnámi barna. Fjallað er um forsendur lestrarnáms, raunprófaðar kennsluaðferðir í tengslum við lestrarkennslu og lestrarerfiðleika. Einnig hvernig grundvallarþættir í lestri: hljóðkerfisvitund, umskráning, lesfimi, orðaforði, lesskilningur/hlustunarskilningur og ritun flettast saman og stuðla að öryggi og fimi hjá lesandanum. Áherslur beinast að mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og kennslu nemenda í áhættu vegna lestrarerfiðleika.
Rætt er hvernig lestrarhvetjandi og skapandi námsumhverfi, markviss kennsla og námsgögn við hæfi geta glætt lestraráhuga og aukið lestrargetu. Kynnt verða ýmis matstæki í lestrarkennslu; símat, fyrirbyggjandi mat (skimun) og greinandi próf. Ábyrgð og hlutverk kennara verður gaumgæft í tengslum við lestrarkennslu í margbreytilegum nemendahópi þar sem tekið er mið af einstaklingsmun og aðferðum sem beinast að því að hjálpa nemendum að ná sem bestum tökum á lestri.
Vettvangshluti námskeiðsins (3Ve) fer fram í samstarfsskólum Menntavísindasviðs og samsvarar einni og hálfri viku á vettvangi, 6 tíma á dag.
Námskrá og námsmat (KME402G)
Námskeiðið miðar að því að nemendur öðlist þekkingu, leikni og hæfni sem snýr að námskrárfræðum og námsmati og geti beitt þekkingu sinni á því í skólastarfi.
Nemendur kynnast lykilhugtökum námsmats- og námskrárfræða. Fjallað er um áherslur og hugmyndastefnur sem greina má í opinberum námskrám, lögum, reglugerðum og öðrum stefnuritum. Þætti sérfræðinga (kennara, stjórnenda og fleiri) í námskrárgerð og þróun skólanámskrár eru gerð skil og þar með einnig við gerð námsáætlana fyrir námshópa, bekki eða einstaka nemendur.
Fjallað er um forsendur, tilgang og aðferðir við mat á námi og námsárangri (sbr. leiðsagnarmat, lokamat, gerð prófa og annarra matstækja og notkun einkunna og vitnisburða). Lögð er áhersla á að nemendur kynnist helstu hugtökum og aðferðum í námsmatsfræðum.
Nemendur lesa og ræða einnig um álitamál og ólíka hugmyndafræðilega strauma sem tengjast grundvallarspurningum um tilgang og markmið skyldunáms.
Vinnulag á námskeiðinu felst í lestri greina og bókakafla, fyrirlestrum, kynningum, umræðum í málstofum og hópverkefnum.
Leikskólafræði I - Leikskólinn sem menntastofnun (LSS101G, LSS309G, LSS202G)
Námskeiðið miðar að því að nemendur öðlist þekkingu og innsýn í hlutverk og stöðu leikskólans í íslensku menntakerfi, hvernig ólík hugmyndafræði, sýn og viðhorf endurspeglast í markmiðum og starfsháttum leikskóla og hlutverk leikskólakennara í námi barna.
Námskeiðið er inngangsnámskeið í leikskólafræði þar sem m.a. er lögð áhersla á að kynna menntunarhlutverk leikskóla og starfsvettvang leikskólakennara. Lögð er til grundvallar sú sýn að börn eigi rétt á krefjandi viðfangsefnum og tækifærum til að taka þátt í samfélagi sem byggir á jafnrétti og lýðræðislegri þátttöku.
Meðal þeirra þátta sem fjallað er um eru:
- Lagarammi skólastigsins, grunnþættir menntunar og aðalnámskrá leikskóla
- Stefna og hugmyndafræði leikskólastarfs
- Hlutverk og starfskenning leikskólakennara
- Leik- og námsumhverfi barna
- Skipulag og starfshættir í leikskólum
- Samstarf heimilis og leikskóla
- Matarmenning – tengsl umhverfisþátta á næringu og heilbrigði
Fyrirlestrar, málstofur og verkefnavinna, einstaklingslega eða í samstarfi við aðra. Námskeiðið hefur skýr tengsl við vettvang þar sem nemendur vinna verkefni sem tengjast viðfangsefnum námskeiðs og fara í kynnisferð í leikskóla.
Fyrirkomulag kennslu
Kennslustundir fara að jafnaði fram í rauntíma fyrir hádegi. Gert er ráð fyrir að nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu mæti í kennslustundir í Stakkahlíð en nemendur sem búa utan höfðuðborgarsvæðisins taki þátt í kennslustundum í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma. Sjá nánar um kennslufyrirkomulag í leikskólakennaranámi.
Sjálfbærni, náttúra og listir (LSS101G, LSS309G, LSS202G)
Þau viðfangsefni sem unnið verður með á námskeiðinu eru sjálfbærni og sjálfbærnimenntun, sem felur í sér þátttöku barna í samfélaginu og nám þeirra um náttúruna í tengslum við sjálfbærnimenntun. Unnið verður með með hugmyndir barna um líkama sinn og tengsl við heilsu þeirra og velferð, líffræðilegan fjölbreytileika og samspil lífvera í náttúrunni. Unnið verður með gildi og tilgang sjálfbærnimenntunar, samskipti manns og náttúru með tilliti til umhverfisvandamála og hvað megi gera til að bæta þessi samskipti m.a. í ljósi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Kannaðar verða árangursríkar leiðir í sjálfbærnimenntun.
Áhersla verður á náttúruskynjun og fagurfræði og hvernig vinna má með náttúru og sjálfbærni í myndmennt með börnum. Fjallað verður um hvernig megi vinna með viðfangsefni námskeiðsins í leiklist svo sem í; hlutverkaleik, hefðbundnum leikjum og spuna þ.e.a.s. úrvinnslu skynjunar, upplifunar, tilfinninga og hugmynda í sköpun og leik.
Hreyfing og leikræn tjáning, úti og inni (LSS101G, LSS309G, LSS202G)
Meginmarkmið námskeiðsins eru að nemendur
- efli eigið næmi, hugmyndaflug og sköpunargáfu
- kynni sér tjáningu og samskipti barna, bæði í skipulögðum og sjálfsprottnum leikjum
- öðlist færni í að skipuleggja hreyfingu og leikræna tjáningu í daglegu starfi, úti sem inni
Kennslufyrirkomulag: Námskeiðið verður kennt í nokkrum staðbundnum lotum fyrir alla nemendur, bæði í stað - og fjarnámi.
Viðfangsefni: Kynntar verða leiðir í leikrænni tjáningu sem tengjast umhyggju, trausti og öryggiskennd barna sem leið til að efla umburðarlyndi, vináttu og tjáningu. Í gegnum hreyfingu og leik stuðlar kennari að því að barnið skilji eigin styrk og getu í þeim tilgangi að efla sjálfstraust þess og lífsleikni. Fjallað er um mikilvægi hreyfingar og hreyfiuppeldis í daglegu lífi barna og kynntar aðferðir sem byggja á styrkleikum barna og áhuga ásamt þörf þeirra til að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Kynntar verða fjölbreyttar leiðir til tjáningar og líkamsþjálfunar sem hæfa börnum í leikskóla og yngri bekkjum grunnskóla. Fjallað er um val leikja og sköpun nýrra leikja sem stuðla að tjáningu og hreyfingu barna, aðferðir sem samþætta hreyfiþjálfun, leikræna tjáningu og sköpun auk tengsla við aðra þætti skólastarfs.
Hluti námskeiðsins er einnar viku vettvangsnám (2Ve) sem fer fram í samstarfsskólum Menntavísindasviðs. Vettvangshluti námskeiðs skal tekin samhliða vettvangsnámi í námskeiðinu Leikskólafræði II - leikur, samskipti og skráning.
- Haust
- Aðferðafræði og menntarannsóknir
- Á mótum leik- og grunnskóla
- Vor
- Lokaverkefni
- Skapandi stærðfræðinám
- Óháð misseri
- Umhverfi sem uppspretta námsV
- Leikskólafræði II - Leikur, samskipti og skráningV
Aðferðafræði og menntarannsóknir (KME501G)
Viðfangsefni námskeiðsins fela í sér tvennt. Annars vegar er um að ræða þjálfun í rannsóknaraðferðum, meðferð gagna og úrvinnslu þeirra og hins vegar læsi á menntarannsóknir, sem aðrir hafa framkvæmt og niðurstöður þeirra. Í öllum þáttum námskeiðsins er lögð áhersla á þekkingu og skilning á helstu hugtökum og hugmyndum úr aðferðafræði menntarannsókna. Gert er ráð fyrir að nemendur kynni sér þessi hugtök í lesefninu og beiti þeim í verkefnum er tengjast megindlegum, eigindlegum og blönduðum aðferðum, einnig aðferðum við starfendarannsóknir.
Vinnulag á námskeiðinu felst í fyrirlestrum, kynningum og vettvangstengdum viðfangsefnum. Reynt er að samhæfa viðfangsefni þeirra sem sækja tíma reglulega og þeirra sem stunda námið að mestu sem fjarnemar.
Á mótum leik- og grunnskóla (LSS501G)
Viðfangsefni á námskeiðinu eru hugmyndafræði og rannsóknir á námi barna þegar þau fara á milli skólastiga, leik- og grunnskóla og frístundar. Skoðað verður hvað hugtökin þáttaskil í skólastarfi, samfella í námi barna og skólafærni fela í sér. Byggt er á ólíkum sjónarhornum barna, foreldra og kennara. Rýnt verður í þætti sem skapa forsendur fyrir þróun skólastarfs s.s. sögu, hefðir, viðhorf, menningu og námskrár. Fjallað verður um fjölbreyttar námsleiðir barnsins og kynntar nálganir í námi og kennslu, sem byggja á virkni barna, svo sem leik, könnunaraðferð (e. project approach), leik með einingakubba og heimspeki með börnum.
Lokaverkefni (GKY601L)
Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í grunnskólakennslu er 10 eininga skriflegt verkefni sem unnið er undir handleiðslu leiðbeinanda.Lokaverkefnið er unnið undir lok grunnnámsins og miðar að því að nemandi dýpki skilning sinn á:
- afmörkuðu efni og tengi það sínu fræðasviði (grein og sérhæfingu)
- verkefnin skulu hafa gildi á sviði kennslu
Skapandi stærðfræðinám (GKY202G)
Á námskeiðinu kynnast kennaranemar hve skapandi stærðfræði er sem fræðigrein og hvernig ýta má undir leiðir til þess að byggja upp skapandi stærðfræðinám. Fjallað er um uppbyggingu stærðfræðihugmynda ungra barna, lausnaleit þeirra, námsmat og aðra þætti stærðfræðináms. Kennaranemar vinna verklega og taka þátt í umræðum um stærðfræðinám. Þeir ígrunda eigið stærðfræðinám og nýta vettvangsnám til þess að æfa það sem þeir læra á námskeiðinu og ígrunda eigin kennslu.
Sérstaklega verður hugað að því að kennaranemi styrki tök sín á inntaksþáttum og vinnubrögðum stærðfræðinnar til þess að hafa forsendur til að geta greint nám nemenda sinna. Sjónum verður beint að skilningi á helstu inntaksþáttum í stærðfræðinámi á yngsta stigi. Einnig verður fjallað um þátt tungumáls og röksemdafærslu í stærðfræðinámi.
Leiðir við kennslu og uppbygging námsumhverfis fá gott rými. Skoðað verður hvernig nálgast má viðfangsefni með rannsóknum, hlutbundinni vinnu, rafrænni leit, umræðum og uppsprettum úr daglegu lífi og umhverfi nemenda. Námsefni og námsgögn í stærðfræði verða greind og fjallað um náms- og kennsluumhverfi sem mætir ólíkum þörfum barna við stærðfræðinám. Hugað verður sérstaklega að stafrænum námsgögnum fyrir börn og leiðum til að meta slíkt efni. Fjallað verður um námsmat í stærðfræði og hvernig kennari getur nýtt sér mat á skilningi og færni nemenda til að byggja á við skipulag kennslu.
Kennaranemar kynnast fræðasviðinu stærðfræðimenntum og leiðum til að fylgjast með rannsóknum og þróun kennsluhátta til að þeir geti sótt sér hugmyndir og hvatningu til að þróa markvisst stærðfræðikennslu sína.
Vinnulag
Haldnir verða fyrirlestrar og nemendur taka þátt í umræðum og verklegri vinnu. Nemendur lesa sér til um rannsóknir og glíma sjálfir við stærðfræðileg viðfangsefni ásamt því að skipuleggja kennslu og kenna eftir skipulagi sínu.
Vettvangshluti námskeiðsins (3Ve) fer fram í samstarfsskólum Menntavísindasviðs og samsvarar einni og hálfri viku á vettvangi, 6 tíma á dag.
Nemar halda dagbók um nám sitt og ígrundun á því frá upphafi námskeiðs og byggja á henni við skrif lokaverkefnis námskeiðsins.
Umhverfi sem uppspretta náms (LSS105G, LSS206G)
Í námskeiðinu verður skoðað hvernig umhverfi barna getur gefið fjölbreytt tækifæri til náms í náttúrufræði og stærðfræði með áherslu á athuganir og tilraunir barna. Nemendur kynnast meginhugmyndum um útikennslu og verða tekin nokkur dæmi um heppileg viðfangsefni. Fjallað verður um náttúrufræðileg og stærðfræðileg fyrirbæri í umhverfi barna svo sem spendýr, smádýr, plöntur, form, fjölda, mynstur, vatn og loft. Nemendur skoða gögn og leiðir sem nýta má við undirbúning og skipulagningu kennslu þar sem umhverfið er nýtt sem uppspretta náms í náttúrufræði og stærðfræði. Nemendur prófa valin viðfangsefni með börnum á vettvangi.
Vinnulag
Fyrirlestrar, kynningar, umræður, verklegar æfingar, vettvangsferðir, verkefnavinna, skólaheimsóknir og nemendur vinna verkefni með börnum í skólum.
Fyrirkomulag kennslu
Kennslustundir fara að jafnaði fram í rauntíma fyrir hádegi. Gert er ráð fyrir að nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu mæti í kennslustundir í Stakkahlíð en nemendur sem búa utan höfðuðborgarsvæðisins taki þátt í kennslustundum í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma. Sjá nánar um kennslufyrirkomulag í leikskólakennaranámi.
Leikskólafræði II - Leikur, samskipti og skráning (LSS105G, LSS206G)
Í námskeiðinu er fjallað um ólíkar kenningar um leik og áhrif þeirra á sýn á börn og leikskólastarf. Rýnt verður í ólíkar birtingamyndir leiks og náms, annars vegar út frá sjónarhorni barna og hins vegar sjónarhorni fullorðinna. Áhersla er lögð á rannsóknir um samskipti barna og leik. Fjallað verður um hlutverk leikskólakennara og námskrár í tengslum við leik. Kynntar verða athugunar- og skráningaleiðir sem nýttar eru í þeim tilgangi að meta og gera nám barna í leik sýnilegt. Auk þess verður skoðað hvernig námsumhverfi leikskólans hefur áhrif á þátttöku barna í leik.
Hluti námskeiðsins er tveggja vikna vettvangsnám (4Ve) sem fer fram í samstarfsskólum Menntavísindasviðs. Nemendur taka vettvangsnámið samhliða vettvangsnámi í námskeiðinu Hreyfing og leikræn tjáning, úti og inni (2Ve), samtals 3 vikur. Í vettvangsnámi taka nemendur þátt í daglegum viðfangsefnum leikskóla, samhliða verkefnum námskeiða.
- Heilsársnámskeið
- Mentor í SprettiV
- Haust
- Inngangur að enskukennsluV
- Yngstu börnin í leikskólanumV
- Færninámskeið IV
- Inngangur að táknmálsfræðiV
- Hönnun nytjahlutaV
- Hönnun glerhlutaV
- Átakasvæði í heiminum – áskoranir fjölmenningarV
- Lífsleikni – siðfræðiV
- Leikur, tækni og sköpunV
- Að kenna um bylgjur, ljós, hljóð og umhverfiV
- Umhverfi sem uppspretta námsV
- Nemi styður nema - fjölbreytt háskólasamfélag (haust)V
- Leiklistarbræðingur - miðlunarleiðir leiklistarV
- Leiklist, sögur og frásagnirVE
- Orka og efni í náttúru og samfélagiVE
- Fata- og nytjahlutahönnunVE
- Tölvuleikir, leikheimar og leikjamenningVE
- TextílaðferðirVE
- Vor
- Trans börn og samfélagV
- Bókmenntir og sjálfsmynd(ir)V
- Hinsegin menntunarfræðiVE
- Fatahönnunar- og híbýlasaga – tíska, textíll, húsgögn og byggingarV
- Nemi styður nema - fjölbreytt háskólasamfélag (vor)V
- Netnám og opin menntunV
- Forritun og tæknismiðjurVE
- Mál og miðlunVE
- Trúarbragðafræðsla og margbreytileikiVE
- Listin að skapa tónlistVE
- Hugmynda- og hönnunarvinnaVE
- Hönnun og smíði leikfangaVE
- SjónlistirVE
- Að kenna um hreyfingu, krafta, orku og umhverfiVE
- Sumar
- Ævintýri, forysta og ígrundun: Undir berum himniV
- Staðartengd útimenntunV
- Eldur og ís – náttúruöflin, nám og upplifunVE
Mentor í Spretti (GKY001M)
Í námskeiðinu felast verkefni nemenda í að vera mentor fyrir þátttakendur á framhalds- og háskólastigi í verkefninu „Sprettur”. Mentorar sinna því mikilvæga starfi að styðja og hvetja ungmenni í námi og félagslífi. Hlutverk mentora er að skapa uppbyggjandi samband við þátttakendur, vera jákvæð fyrirmynd og taka þátt í sameiginlegum viðburðum skipulögðum í Spretti. Mentorhlutverkið snýst um tengslamyndun og samveru sem felur í sér skuldbindingu gagnvart ungmennunum sem mentor styður.
Sprettur er verkefni sem styður við nemendur með innflytjenda- eða flóttamannabakgrunn sem koma úr fjölskyldum þar sem fáir eða engir hafa háskólamenntun. Nemendur í námskeiðinu eru mentorar þátttakenda og eru þeir tengdir saman með hliðsjón af sameiginlegu áhugasviði. Hver mentor ber ábyrgð á að styðja tvo þátttakendur. Mentorar skipuleggja samveru og verja þremur klukkustundum á mánuði (frá ágúst fram í maí) með þátttakendum í Spretti, þremur klukkustundum í mánuði í heimavinnuhópi og mæta í fimm málstofur sem dreifast yfir skólaárið. Nemendur skila dagbókarfærslum á Canvas í nóvember og mars. Dagbókarfærslur byggjast á lesefni og hugleiðingum nemenda um mentorstarfið. Námskeiðið er kennt á íslensku og ensku.
Nemendur sækja um þátttöku á námskeiðinu. Sjá rafrænt umsóknareyðublað. Umsækjendur fara í viðtal og eru 15-30 nemendur valdir til þátttöku.
Frekari upplýsingar um verkefnið „Sprettur” má nálgast hér: www.hi.is/sprettur
Inngangur að enskukennslu (ÍET202G)
Farið verður yfir þróun tungumálakennslu undanfarinna áratuga og sjónum einkum beint að þekkingu og skilningi á þeim straumum og stefnum sem nú eru efst á baugi. Fjallað verður um hugtök, kenningar, aðferðir og þá þætti sem stuðla að fagmennsku tungumálakennarans og nemendur öðlast reynslu í að ígrunda eigin afstöðu og hugmyndir. Kynntar verða rannsóknir á tungumálanámi og kennslu og fjallað sérstaklega um nemendamiðaða kennslu.
Námskrá í ensku verður yfirfarin og greind. Kennaranemar fá tækifæri til að skoða og meta kennslu á myndböndum og þjálfast í að ígrunda eigin hugmyndir um kennslu og eigin reynslu af tungumálanámi.
Vinnulag:
Vinna í námskeiðinu krefst virkrar þátttöku og mikið verður lagt upp úr lestri nemenda og úrvinnslu úr lesefni, umræðum, hópa- og einstaklingsvinnu og dæmakennslu.
Yngstu börnin í leikskólanum (LSS306G)
Í námskeiðinu er fjallað um sjónarhorn og námsleiðir ungra barna (1-3ja ára) í leikskóla. Í brennidepli er virkni barna í sköpun eigin þekkingar gegnum fjölbreytta tjáningu s.s. hreyfingu, leik, tónlist og myndsköpun. Fjallað er um aðlögun, samskipti og samstarf leikskólakennara við fjölbreyttan foreldra- og barnahóp. Rýnt er í hvernig umgjörð leikskólastarfsins; umhyggja, tengsl, daglegar athafnir, leikumhverfi og skráningar styðja við nám og þátttöku barna.
Færninámskeið I (TÁK102G)
Markmið og viðfangsefni námskeiðsins:
Nemendum eru kynnt grundvallaratriði íslenska táknmálsins. Megináhersla verður lögð á mál sem tengist daglegu lífi og þær meginreglur sem gilda um táknmálssamtalið. Áhersla verður lögð á bæði tjáningu og skilning táknmáls. Í námskeiðinu er fjallað um skyldubundin látbrigði með táknum og próformasögnum og mikilvægi þeirra í táknmáli. Nemendur nota myndbandsupptökur til þess að ná auknu valdi á málinu. Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrum og æfingum í tímum sem nemendur taka virkan þátt í.
Námsmat: Verkefni, aðallega upptökuverkefni, sem dreifast yfir misserið. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði sem og uppfylla mætingaskyldu.
Inngangur að táknmálsfræði (TÁK108G)
Í námskeiðinu verður fjallað um táknmálssamfélög, sér í lagi samfélag íslenska táknmálsins (ÍTM). Fjallað verður um döff menningu og sögu ÍTM, um málhugmyndafræði og um stöðu og lífvænleika íslenska táknmálsins. Beitt verður nálgunum döff fræða, mannfræði og félagslegra málvísinda.
Hönnun nytjahluta (LVG203G)
Námskeiðið er inngangsnámskeið fyrir nemendur sem velja kjörsviðið hönnun og smíði og hentar einnig öðrum sem vilja kynna sér hönnun og smíði nytjahluta.
Markmið
Nemar hljóti þekkingu á og þjálfun í smíði hluta sem þeir hanna og teikna sjálfir.
Inntak / viðfangsefni
Áhersla er lögð á nytjahluti úr tré. Fjallað verður um nýtingu á íslenskum skógi og sjálfbæra þróun í hönnun. Unnið er m.a. með þætti sem tengjast gömlu handverki. Verkfæra- og viðarfræði er felld inn í þá verkþætti sem fengist er við hverju sinni. Sérstök áhersla er lögð á notkun véla og verkfæra ásamt öryggi og heilsuvernd. Fjallað verður um hönnun nytjahluta í daglegu umhverfi sem byggja á tæknilegri virkni og undirstöðuatriði í formhönnun. Einnig kynnast nemendur öðrum smíðaefnum. Verkleg þjálfun er undirstaða námsins.
Vinnulag
Vinnulag í staðnámi: Verkleg þjálfun er undirstaða námsins en að öðru leyti fer kennsla fram í fyrirlestrum og umræðu- og leiðsögutímum. 80% sóknarskylda.
Vinnulag í fjarnámi: Verkefni eru send í tölvupósti og sett upp á vefsíðu hönnunar og smíða. Nemendur skila eins miklu af verkefnum sínum í gegnum tölvusamskipti og unnt er. Sérstök áhersla verður lögð á öryggisþætti er tengjast vinnu kennara og barna í hönnun og smíði og fræðslu um skyndihjálparþætti.
Hönnun glerhluta (LVG601G)
Nemendur læra mismunandi tækni og vinnubrögðum við mótun glers. Áhersla er á listrænar útfærslur list-, skart- og nytjahluta.
Markmið
Að kennaranemar kynnist mismunandi aðferðum við glervinnu og hljóti þjálfun í að vinna með og kenna í grunnskólum.
Inntak / viðfangsefni
Unnið er með steint (tiffany's) gler, bræðslugler (flotgler) og mósaík. Verkefnin geta verið t.d. gluggaskreytingar, skálar, bakkar, lágmyndir og skúlptúrar o.fl. Lögð er áhersla á frumleika og hönnun. Kennd verður gerð glermóta í fíber eða önnur efni og kannað hvaða möguleikar eru fyrir hendi varðandi litun og skreytingar á glerhlutum. Einnig verður reynt að tengja önnur efni glerinu í hönnunarverkefnum s.s. tré og plast.
Vinnulag
Verkleg þjálfun er undirstaða námsins en að öðru leyti fer kennsla fram í fyrirlestrum, umræðu- og leiðsögutímum. Nemendur gera verkefnamöppu auk glerhluta.
Reikna má með staðlotu fjarnema á miðri önn auk þeirrar sem er í upphafi annar. Verkefnin eru unnin að miklu leyti í staðlotunum. Veraldarvefurinn er hagnýttur eins og kostur er.
Átakasvæði í heiminum – áskoranir fjölmenningar (SFG001G)
Meginviðfangsefni námskeiðsins eru átök og átakasvæði í heiminum einkum með hliðsjón af tækifærum og áskorunum sem slík viðfangsefni gefa í kennslu. Þátttakendur kynnast hugmyndum og sjónarmiðum tengdum átökum og tengja við landfræðilegar aðstæður, sögu, menningu og trúarbrögð. Unnið verður með valin tvö til þrjú átakasvæði. Til greina koma Írland og írska lýðveldið, Ísrael og Palestína, Mexíkó, Myanmar, Nígería og Tyrkland, auk átaka sem erfitt er að afmarka landfræðilega. Val á viðfangsefnum verður í samráði við þátttakendur og eftir atvikum verða þau tengd við íslenska sögu og aðstæður.
Verkefni námskeiðisins snúa að æfingum í upplýsingaleit, framsetningu sögulegra og landfræðilegra upplýsinga og í að útskýra flókna eða viðkvæma þætti efnisins.
Lokapróf gildir 40%, en verkefni og hlutapróf 60%. Í námskeiðinu er 80% mætingaskylda í kennslustundir.
Sjá nánari upplýsingar á Canvas-vef námskeiðsins.
Lífsleikni – siðfræði (SFG006G)
Viðfangsefni: Á námskeiðinu er unnið með þá þætti lífsleikni sem miða að samskiptum og siðfræði með fræðilegum og hagnýtum hætti. Efni námskeiðsins er í samræmi við ákvæði úr námskrám íslenskra leik-, grunn- og framhaldsskóla um að efla andlega heilsu, heilbrigða sjálfsmynd og siðferðilegan styrk nemenda. Meðal annars er fjallað um siðferðileg hyggindi, styrkleika og samkennd.
Vinnulag: Fyrirlestrar og umræður verða í flestum vikum. Fyrirlestrar verða að jafnaði teknir upp fyrirfram og settir á Canvas-vef námskeiðsins. Gert er ráð fyrir að nemendur kynni sér þá og taki svo þátt í umræðum á Zoom. Umræðutímarnir verða ekki teknir upp en þeir sem ekki komast í umræðutíma geta uppfyllt þátttökuskyldu með því að skila þátttökubloggi. Einnig eru unnin tvö verkefni auk lokaverkefnis.
Leikur, tækni og sköpun (SNU003G)
Námskeiðið fjallar um skapandi starf með börnum þar sem stuðst er eða fengist við stafrænan búnað og tækni. Nemar rýna og ræða les- og myndefni sem lýtur að sköpun með stafrænni tækni í leik- og grunnskólum. Þeir kynnast lýsandi dæmum í starfi valinna skóla og ígrunda færar leiðir til að beita upplýsingatækni og miðlun með ungum nemendum á frjóan hátt. Nemar spreyta sig á teikningu og skapandi myndvinnslu í stafrænu umhverfi með stafræna sögugerð fyrir augum. Þeir myndskreyta og hljóðsetja sögur ætlaðar börnum og setja sig í spor ungra nemenda í skapandi starfi þar sem reynir á listræna framsetningu í hljóði, mynd og hreyfingum. Greint er frá frumkvöðlum um forritun fyrir börn og bent á leiðir til að útbúa einfalt efni, sögur og leiki í myndrænu forritunarumhverfi. Fjallað er um valdar tæknilausnir sniðnar að ungum nemendum til að varpa ljósi á tæknihönnun, forritun og sjálfvirkni. Nemar kynnast lítillega kennslu um slíkan búnað á vettvangi og fá sjálfir að spreyta sig á glímu við hann. Kynntar eru leiðir til að tengja myndræna forritun og leikföng hönnun og nýsköpun úr ýmsum efniviði með hagnýt not eða listræna sköpun í huga. Fjallað er um nýsköpun og nýsköpunarmennt sem viðfangsefni í skólastarfi og greint frá starfi í sköpunarsmiðjum. Kynntur er búnaður sem nota má við leiserskurð í ýmsan efnivið, skurð og brot í pappír, teikningu og prentun í þrívídd og vinnu með textíl. Nemar lýsa vinnu sinni og tilraunum með tæknileikföng og nýsköpunarbúnað í myndum og myndskeiðum studdum texta og einfaldri vefsíðugerð.
Að kenna um bylgjur, ljós, hljóð og umhverfi (SNU003M)
Í þessu námskeiði verða þátttakendur búnir undir að kenna bylgjur, ljós og hljóð bæði með því að styrkja þekkingu nema á viðfangsefnunum og á kennsluhugmyndum sem þeim tengjast. Jafnframt verður skoðað hvernig fyrirbæri tengd þessum hugtökum birtast í manngerðu og náttúrulegu umhverfi. Mikil áhersla verður lögð á að tengja viðfangsefnin við hugmyndir og reynslu þátttakenda. Fjallað verður um rannsóknir á hugmyndum barna um viðfangsefnin og mögulegar leiðir til að tengja með kennslu þessi viðfangsefni við reynsluheim og hugmyndir grunnskólabarna. Fjallað verður um kennslu náttúrufræðilegra viðfangsefna námskeiðsins, skoðaðar kennslubækur og verklegar athuganir. Náttúrufræðileg viðfangsefni námskeiðsins eru: Sveiflur, bylgjur á streng, öldur á vatni, almennir bylgjueiginleikar, hljóð, myndun þess, útbreiðsla og víxlverkun við efni, ljós, myndun þess, útbreiðsla og víxlverkun við efni, og sjóntæki.
Umhverfi sem uppspretta náms (LSS105G)
Í námskeiðinu verður skoðað hvernig umhverfi barna getur gefið fjölbreytt tækifæri til náms í náttúrufræði og stærðfræði með áherslu á athuganir og tilraunir barna. Nemendur kynnast meginhugmyndum um útikennslu og verða tekin nokkur dæmi um heppileg viðfangsefni. Fjallað verður um náttúrufræðileg og stærðfræðileg fyrirbæri í umhverfi barna svo sem spendýr, smádýr, plöntur, form, fjölda, mynstur, vatn og loft. Nemendur skoða gögn og leiðir sem nýta má við undirbúning og skipulagningu kennslu þar sem umhverfið er nýtt sem uppspretta náms í náttúrufræði og stærðfræði. Nemendur prófa valin viðfangsefni með börnum á vettvangi.
Vinnulag
Fyrirlestrar, kynningar, umræður, verklegar æfingar, vettvangsferðir, verkefnavinna, skólaheimsóknir og nemendur vinna verkefni með börnum í skólum.
Fyrirkomulag kennslu
Kennslustundir fara að jafnaði fram í rauntíma fyrir hádegi. Gert er ráð fyrir að nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu mæti í kennslustundir í Stakkahlíð en nemendur sem búa utan höfðuðborgarsvæðisins taki þátt í kennslustundum í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma. Sjá nánar um kennslufyrirkomulag í leikskólakennaranámi.
Nemi styður nema - fjölbreytt háskólasamfélag (haust) (TÓS106G)
Viðfangsefni
Viðfangsefni námskeiðsins eru félagsleg samskipti, samvera og námsaðstoð við nemendur sem geta þurft aðstoð og/eða stuðning í námi sínu á Menntavísindasviði HÍ.
Í námskeiðinu verður fjallað um nýjar áherslur og nýbreytni í menntamálum, sérstök áhersla lögð á inngildandi nám, algilda hönnun og tækifærin sem hugmyndafræðin býður upp á. Einnig verður fjallað um jafnrétti, samfélag án aðgreiningar og mannréttindi í víðu samhengi. Kynntar verða leiðir til að efla náms- og félagslega þátttöku nemenda í háskólanum með fjölbreyttum hætti.
Að námskeiði loknu hljóta nemendur viðurkenningu/staðfestingu á að hafa lokið námskeiðinu sem þeir geta til dæmis nýtt í ferilskrá en námskeiðið er dýrmæt reynsla sem mun nýtast í leik og starfi.
Hægt er að taka námskeiðið tvisvar en það er kennt bæði vor og haust. Námskeiðið er einstaklingsmiðað og því aðlagað að hverjum nema hverju sinni og því ekki um endurtekningu efnis að ræða.
Vinnulag
Samstarf og samvera með samnemum er að jafnaði þrjár kennslustundir á viku. Samstarfið getur falið í sér námsaðstoð, til dæmis við verkefnavinnu, verkefnaskil, yfirferð á námsefni eða samveru á bókasafni eða matsal og þátttaka í félagslífi á vegum nemendafélaga.
þrír fræðslufundir með kennurum fyrrihluta misseris. Að auki geta nemendur pantað fundi eftir þörfum með kennurum námskeiðsins.
Nemendur vinna dagbókarverkefni jafnt og þétt yfir misserið og skila lokaskýrslu um reynslu sína af námskeiðinu.
Leiklistarbræðingur - miðlunarleiðir leiklistar (LVG108M)
Viðfangsefni: Nemendur fá kennslu í samsettum (devised) aðferðum leiklistar ásamt því að vinna með aðferðir leikhúss líkamans og Ímyndarleikhús. Nemendur kynna sér listamenn og listviðburði í íslensku samfélagi og tengja við hugmyndafræði og kenningar um listupplifun. Mögulegir snertifletir leiklistarinnar verða kannaðir út frá margvíslegum sjónarhornum með mismunandi miðlunarleiðir að leiðarljósi.
Vinnulag: Vinna í smiðjum þar sem nemendur leita fjölbreyttra leiða til að vinna með miðlunarleiðir leiklistar þ.e. leikrit (hefðbundin, óhefðbundin), útvarpsleikrit eða hljóðmyndir, miðlun í gegnum kvikmyndum, eða uppsetningu í gegnum samfélagsmiðla í tengslum við nám barna og unglinga. Þá verða listviðburðir sóttir og rætt við listamenn um starfsgrein þeirra.
Unnin verða verkefni sem reyna á sköpun og tjáningu, tengjast þróun eigin starfskenningar, námskrárgerð í leiklist ásamt ígrundun um menningar- og samfélagslega vídd leiklistarinnar.
Leiklist, sögur og frásagnir (LVG308G)
Markmið:
Að nemendur
- þekki til fræðilegra kenninga um uppeldislegt gildi frásagna og ævintýra fyrir börn
- geti tengt aðferðir leiklistar við sögur og frásagnir og þannig gert hlustendur að virkum þátttakendum í frásögn
- hafi innsýn í sérstöðu leiklistar sem virkrar reynslu
- hafi sjálfstæði og nokkra færni til að segja börnum sögur og ævintýri ásamt því að þjálfa börnin í að segja frá eigin upplifunum
- hafi kynnst á vettvangi skóla hvernig frásagnir eru tengdar námsgreinum, til dæmis lífsleikni, trúarbragðafræðslu og sjálfbærni.
Viðfangsefni: Fræði um uppeldislegt gildi frásagna og ævintýra fyrir börn og mikilvægi leiklistar í tengslum við virka upplifun þátttakenda. Þjálfun í að segja áheyrilega frá og tvinna leiklist inn í frásögn til þess að dýpka skilning á efni. Mótun leiklistarferlis í tengslum við frásagnir og ævintýri. Athugun á því hvernig kennarar nýta sögur og ævintýri með ungum nemendum.
Vinnulag: Fyrirlestrar, lestur og umræður/málstofur. Vettvangsathuganir og kynningar. Leiklistar- og frásagnarsmiðjur. Nemendur vinna sjálfstætt að því að skapa og móta leiklistarferli í tengslum við frásagnir og ævintýri með áherslu á loftslagsbreytingar.
Þjálfun í frásagnarlist.
_________
Æskilegt er að nemi hafi áhuga á að nýta leiklist og frásagnir með börnum. Námskeiðið hentar vel fyrir kennara í leikskóla og grunnskóla.
Orka og efni í náttúru og samfélagi (SNU018G)
Fjallað verður um orku í náttúru og samfélagi í víðu samhengi. Í þessu námskeiði verða þátttakendur búnir undir að kenna um orku og orkutengd viðfangsefni. Þetta er gert með því að styrkja bæði þekkingu nema á viðfangsefnunum og á kennsluhugmyndum sem þeim tengjast. Jafnframt verður skoðað hvernig fyrirbæri tengd þessum hugtökum birtast í manngerðu og náttúrulegu umhverfi þar með talið hvernig orkuflæði er háttað í náttúru og mannlegu samfélagi. Áhersla verður lögð á að tengja viðfangsefnin við hugmyndir og reynslu úr daglegu lífi og auk þannig skilning á því hvernig orka skiptir máli fyrir hvern einstakling. Fjallað verður um rannsóknir á hugmyndum barna og unglinga um viðfangsefnin og mögulegar leiðir til að tengja með kennslu þessi viðfangsefni við reynsluheim og hugmyndir barna og unglinga. Fjallað verður um kennslu náttúrufræðilegra viðfangsefna námskeiðsins, skoðaðar kennslubækur og verklegar athuganir. Viðfangsefni námskeiðsins eru: Einfaldar vélar, vinna, orka, einingar fyrir orku, afl, mismunandi orkuform svo sem hreyfiorka, þyngdarstöðuorka, varmaorka, fjaðurstöðuorka, einfaldir orkuútreikningar, umbreyting orku úr einu formi í annað, varðveisla orkunnar, nýtanleg orka, orka í náttúrunni, orka í samfélaginu, orkuvinnsla og orkunýting.
Vinnulag
Þátttakendur taka þátt í umræðum þar sem þeir kanna hugmyndir sínar um viðfangsefnin. Ígrundaðir verða textar um viðfangsefnin og kennslu þeirra og gerðar verklegar æfingar sem auka skilning á viðfangsefnunum. Meginviðfangsefni verða kynnt í fyrirlestrum en nemendum síðan gefin tækifæri til að afla frekari upplýsinga og þróa hugsun sína í gegnum umræður, verkefni og kynningar. Kennsla fer fram í kennslustofu og samtímis á neti auk þess sem kennslustundir verða teknar upp og gerðar aðgengilegar.
Fata- og nytjahlutahönnun (LVG501M)
Lögð er áhersla á sniðútfærslur og saumtækni í tengslum við hönnun á fatnaði og nytjahlutum. Nemendur vinna þematengda rannsóknarvinnu og upplýsinga- og gagnaöflun sem þeir nýta sem uppsprettur nýrra hugmynda og nýsköpunar. Lögð er áhersla á formsköpun og útlit og ígrunduð vinnubrögð. Nemendur vinna samkvæmt innihaldi fagbóka og aðferðafræði hönnunar sem felst í því að rannsaka, gera tilraunir og skipuleggja fullvinnslu afurða. Nemendur fá þjálfun í faglegum frágangi verkefna í hugmynda- og hönnunarmöppur. Unnar eru skýrslur um afrakstur námskeiðsins með tengingu við kennslufræðilega þætti og gildi hönnunar fyrir nám, kennslu og atvinnulíf.
Tölvuleikir, leikheimar og leikjamenning (SNU019G)
Fjallað verður um tölvuleiki í námi og kennslu með sérstakri áherslu á leikheima og netleiki og opna leikvanga á netinu og tengsl slíkra leikja við nám og tómstundastarf. Leikjamenning verður skoðuð, flokkunarkerfi og einkenni tölvuleikja, vægi þeirra í tómstundamenningu og tengsl við þjóðfélagsmál. Sérstaklega verður skoðað jafnréttissjónarhorn í tölvuleikjum og tölvuleikjamenningu og ýmis álitamál til dæmis tengd kynferði, ávanabindingu og/eða spilafíkn. Unnið verður með verkfæri til að smíða kennsluleiki/námsleiki og fjallað um þróun á „leikjun“ (e. gamification) í námi. Fjallað verður um námsleiki í ýmis konar tölvuumhverfi, jafn þrívíddarheimi á Interneti og leiki sem nota snjalltölvur eða síma.
Námskeiðið verður með fjarkennslusniði
Textílaðferðir (LVG021G)
Nemendur kynnast fjölbreytileika textíls innan handverks, iðnaðar og list. Þjálfuð eru grunntækni textílaðferða með áherslu á tilrauna- og þróunarvinnu í handverki aðferðanna. Nemendum er kynnt söguleg tenging textíla með áherslu á íslenska textílarfleifð og erlenda og hvernig sú þekking og nálgun getur orðið uppspretta nýrra hugmynda og verka. Í lokaverkefnum er unnið með blandaða tækni og lögð áhersla á skapandi og faglega nálgun og vönduð vinnubrögð. Þjálfað er vinnulag frá hugmynd til fullvinnslu með áherslu á sjálfbærni, endursköpun, endurnýtingu og nýsköpun. Nemendur skila fræðilegri greinargerð sem inniheldur umfjöllun og rök fyrir verkefnavali, efnisvali, úrvinnslu, framkvæmd og niðurstöðu. Nemendur tengja vinnu og afrakstur námskeiðsins við kennslufræðilegar áherslur og kennsluverkefni.
Trans börn og samfélag (UME204M)
Markmið:
Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum og rannsóknum í fræðum sem koma inn á veruleika og upplifanir trans fólks (trans fræði). Einnig verða meginhugmyndir gagnrýnna bernskufræða kynntar. Áhersla verður lögð á að þátttakendur verði meðvitaðir um veruleika trans ungmenna og trans barna og samfélagslega orðræðu um málaflokkinn.
Viðfangsefni:
Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynjatvíhyggja, kynsegin, kynvitund, samtvinnun, trans* hugtakið, síshyggja, umhyggja, barnavernd og réttindi barna. Fjallað verður um megininntak transfræða/hinseginfræða og hvernig hægt er að nýta sér þá nálgun til varpa ljósi á uppeldi, menntun, samfélag, tómstunda- og félagsstarf og íþróttir. Nálgunin verður í anda gagnrýnna trans- og bernskufræða og félagslegrar mótunarhyggju. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi og aðrar stofnanir, hérlendis og erlendis, og hvernig margs konar mismunun skapast og viðhelst og getur ýtt undir stofnanabundna transfóbíu og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við efnið. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi uppeldis- og menntunarfræðinga, þroskaþjálfa, foreldrafræðara, kennara, tómstunda- og félagsmálafræðinga, stjórnendur og annað fagfólk til að skapa hinsegin/trans vænt andrúmsloft í viðeigandi hópum sem unnið er með.
Bókmenntir og sjálfsmynd(ir) (ÍET006G)
Í námskeiðinu verður fjallað um íslenskar bókmenntir frá aldamótunum 1900 til samtímans með áherslu á tengsl bókmennta, sögu og samfélags.
Fjallað verður um þátt bókmennta og menningar í uppbyggingu sjálfsmynda á Íslandi á tuttugustu öld allt frá upphafi aldarinnar þegar íslenskar bókmenntir komust í sterkari tengsl við aðra menningarheima til fjölmenningar og margbreytileika samtímans.
Íslenskar nútímabókmenntir eru samofnar bókmenntum annarra þjóða og í námskeiðinu verður lögð áhersla á að setja þær í samhengi við alþjóðlega strauma og stefnur.
Bókmenntir og túlkun þeirra gegndu lykilhlutverki í mótun hugmynda um íslenskt þjóðerni á tímabilinu. Skólakerfið og bókmenntakennsla innan þess voru mikilvægur þáttur þessarar sjálfsmyndarmótunar og verður sú hlið bókmenntasögunnar skoðuð sérstaklega.
Í fyrirlestrum kennara og verkefnum nemenda verða helstu þemu íslenskrar bókmenntasögu á tímabilinu könnuð. Meðal viðfangsefna verða pólitískar bókmenntir og stéttabarátta, spennan milli sveitar og borgar og aukinn margbreytileiki og sýnileiki ólíkra hópa í bókmenntum og samfélagi á síðustu áratugum.
Sérstaklega verður hugað að aukinni fjölbreytni í bókmenntalífi, nýjum bókmenntagreinum, barnabókmenntum, nýjum og gömlum hefðum í ljóðagerð og tengslum bókmennta við aðrar listgreinar. Í verkefnavinnu verður lögð áhersla á að nemendur kynni sér leiðir til að miðla þekkingu sinni til ólíkra aldurshópa og tengja veruleika þeirra í samtímanum við bókmenntir og bókmenntasögu.
Áhersla verður lögð á notkun vefefnis, upplýsingatækni og kvikmynda enda einkennist tímabilið af nýjum miðlum sem hafa haft margþætt áhrif á bókmenntir og menningu.
Kennsla verður í formi fyrirlestra, hópverkefna nemenda og einstaklingsverkefna.
Hinsegin menntunarfræði (SFG004M)
Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum og rannsóknum í hinsegin menntunarfræðum. Enn fremur að þeir fái góða innsýn inn í fræðaheim hinsegin fræða. Áhersla verður lögð að að nemar tileinki sér gagnrýna sýn á uppeldi og menntun og að þeir verði meðvitaður um veruleika hinsegin ungmenna.
Viðfangsefni: Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynhneigð, kynvitund, samtvinnun, karlmennska, kvenleiki, kynhlutverk, kynjatvíhyggja, gagnkynhneigðarhyggja og síshyggja. Fjallað verður um megininntak hinsegin menntunarfræða og hvernig nálgun þeirra getur varpað ljósi á menntun, uppeldi, tómstunda- og félagsstarf og samfélag. Nálgunin verður í anda hinsegin fræða og félagslegrar mótunarhyggju sem verða notuð til að útskýra ólíkar hugmyndir um kynhneigð, kynvitund og hinsegin kynverund. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi, hérlendis og erlendis, og hvernig það viðheldur margs konar mismunun og ýtir jafnvel undir stofnanabundna gagnkynhneigðarhyggju og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við kynhneigð, kynvitund, skólakerfi, kennslu og námsbækur. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi fagfólk sem starfar með börnum og ungmennum í að búa til hinseginvænt andrúmsloft í barna- og ungmennahópi, að flétta hinsegin veruleika inn í starf sitt og bregðast við neikvæðum viðhorfum í garð hisneginleika.
Fatahönnunar- og híbýlasaga – tíska, textíll, húsgögn og byggingar (LVG008M)
Lögð er áhersla á sögu hönnunar frá Egyptum til vorra daga með áherslu á fatnað og textíl. Einnig er skoðuð húsgagna- og byggingarsagan í samhengi við híbýlaskreytingar úr textíl, til dæmis húsgagnaáklæða- og gluggatjaldahönnun. Kynntar eru stefnur, stílar og straumar og víðtækt hlutverk fatnaðar og textíls innan listasögu, tísku og hönnunar í alþjóðlegu samhengi og samanborið við þróun fata- og textílsögu á Íslandi. Einnig eru skoðuð tengslin við atvinnulíf, menningu, söfn og menntun. Námið er fólgið í fyrirlestrum og bók- og verklegum rannsóknarverkefnum þar sem unnið er með fjölbreytta gagnaöflun og úrvinnslu verkefna á myndrænan hátt.
Nemi styður nema - fjölbreytt háskólasamfélag (vor) (TÓS213G)
Viðfangsefni
Viðfangsefni námskeiðsins eru félagsleg samskipti, samvera og námsaðstoð við nemendur sem geta þurft aðstoð og/eða stuðning í námi sínu á Menntavísindasviði HÍ.
Í námskeiðinu verður fjallað um nýjar áherslur og nýbreytni í menntamálum, sérstök áhersla lögð á inngildandi nám og tækifærin sem hugmyndafræðin býður upp á. Einnig verður fjallað um, jafnrétti, samfélag án aðgreiningar og mannréttindi í víðu samhengi. Kynntar verða leiðir til að efla náms- og félagslega þátttöku nemenda í háskólanum með fjölbreyttum hætti. Lögð verður áhersla á samráð við nemendur varðandi skipulagningu námskeiðsins.
Námskeiðið er dýrmæt reynsla sem mun nýtast í leik og starfi.
Námskeiðið er kennt að vori og hausti. Námskeiðið er einstaklingsmiðað og aðlagað að hverjum nemanda. Þess vegna er ekki um endurtekningu á námsefni að ræða ef nemendur taka námskeiðið tvisvar.
Vinnulag
Samstarf og samvera með samnemum er að jafnaði þrjár kennslustundir á viku. Samstarfið getur falið í sér námsaðstoð, til dæmis við verkefnavinnu, verkefnaskil, yfirferð á námsefni eða samveru á bókasafni eða matsal og þátttaka í félagslífi á vegum nemendafélaga.
Þrír fræðslufundir með kennurum fyrrihluta misseris. Að auki geta nemendur pantað fundi eftir þörfum með kennurum námskeiðsins.
Nemendur vinna dagbókarverkefni jafnt og þétt yfir misserið og skila lokaskýrslu um reynslu sína af námskeiðinu.
Netnám og opin menntun (SNU014G)
Á námskeiðinu er fjallað um netið sem vettvang náms og fræðslu með áherslu á gervigreind, námssamfélög, sjálfsnám og stafræna þátttöku eða borgaravitund. Nemendur fræðast um hvernig óformlegt og óformað nám á sér stað í netumhverfi, þar sem einstaklingar sækja sér þekkingu sem er ekki bundin við hefðbundna kennslu eða námskrá. Sérstaklega verður lögð áhersla á hönnun formlegs námsefnis og námsumhverfis sem styður við óformlegt og óformað nám á netinu. Rýnt verður í kenningar og hugmyndir um óformlegt og óformað nám, svo sem sjálfsákvarðað nám (e. heutagogy, self-determined learning), dreifða vitsmuni (e. distributed cognition) og nám sem byggist á tengslamyndun og uppbyggingu þekkingar- og reynslunets (e. connectivism). Einnig verður fjallað um stafræna borgaravitund (e. digital citizenship) upplýsingalæsi og ýmsar áskoranir sem tengjast netnotkun í nútíma samfélagi. Verklegir þættir námskeiðsins snúast um gerð og notkun opins námsefnis og hugbúnaðar, hönnun námsumhverfis á netinu, sem og skoðun á því hvernig gervigreind getur haft áhrif á nám og kennslu í daglegu lífi.
Þátttakendur munu þróa stafrænar ferilmöppur til að endurspegla sitt persónulega námsferli og munu læra að meta og nýta tækni til að styðja við og efla eigið nám. Námskeiðið er hannað til að vera aðgengilegt og sveigjanlegt, með því að bjóða upp á fjölbreytta verkefnavinnu sem hægt er að laga að þörfum og áhugasviði hvers nemanda. Meðal annars munu nemendur velja sér opið netnámskeið (MOOC) á þeirra áhugasviði sem þeir ljúka sem hluta af námskeiðinu.
Forritun og tæknismiðjur (SNU010G)
Nemendur læra einföld forritunarmál og hvernig fella má forritun og vinnu í tæknismiðjum (makerspaces, fablabs) inn í nám. Fjallað verður um forritunarkennslu í skólum, hugmyndir og kenningar um forritun í skólanámi og tengsl við tækniþróun og atvinnulíf. Einnig verður fjallað um forritun fyrir snjalltæki (app) og kynnt námsverkfæri til að búa til slík forrit. Einkum verður unnið með myndræn forritunarmál sem hæfa til margs konar nota í námi og kennslu og sem geta tengst ýmis konar jaðartækjum.
Horft verður til framtíðar og skoðuð sú þróun þegar stafrænn heimur og stýringar á hlutum renna saman (IoT, Internet of things). Unnið verður með hugmyndir um námssmiðjur og námsrými sem henta við nemendamiðað nám þar sem nemendur skapa og vinna með stafræna hluti og virkni í tvívíddar- og þrívíddarheimi og raunverulegum tækjum.
Fjallað verður um hugmyndafræði og kenningar og samfélagsumræðu varðandi „Internet of Things“ og „gerenda“menningu (maker culture). Skoðaðar eru breytingar á framleiðslutækni í persónumiðaða framleiðslu, fjarstýrð og sjálfstýrð verkfæri svo sem dróna og tölvuföt (wearable technology), útbúnað til að skapa sýndarveruleika og möguleika slíkra verkfæra í námi og kennslu.
Mál og miðlun (ÍET004G)
Á námskeiðinu verður sjónum einkum beint að tungumálinu og miðlun þess í rit- og myndmáli, m.a. í skrifum ýmiss konar texta, skapandi lestri og óvæntum miðlunarleiðum. Verkefnin miða að því að nemendur geti síðar meir notað hugmyndirnar í eigin íslenskukennslu og byggt ofan á þær. Kennslan fer einkum fram í gegnum æfinga- og verkefnavinnu og umræður í tímum. Í námskeiðinu er hugtakið „sköpun“ rætt og skilgreint og þær þrjár hliðar þess sem skipta máli í kennslu; skapandi kennari, sköpun í verkefnagerð og virkjun á sköpunarkrafti nemenda. Ennfremur verður hugað að hlustun og áhorfi sem námsþáttum í íslensku.
Trúarbragðafræðsla og margbreytileiki (SFG003G)
Viðfangsefni: Á námskeiðinu er fengist við trúarbrögð og trúarbragðafræðslu í fjölmenningarlegu samfélagi. Fjallað verður um trúarþörf og trúarreynslu mannsins, tilvistarspurningar og leit eftir tilgangi og merkingu. Kynnt verða helstu greiningarhugtök, kenningar og rannsóknir á sviði trúarbragðafræði og trúaruppeldisfræði. Rætt verður um gildi trúarbragða fyrir einstaklinga og samfélög og áhrif þeirra á mótun sjálfsmyndar, gildismats og lífsskilnings. Þá verða helstu trúarbrögð heims skoðuð, þ.e. gyðingdómur, kristni, islam, hindúasiður og búddatrú, auk nokkurra annarra trúarbragða. Einnig verður fjallað um trúlaus og trúarlega hlutlaus lífsviðhorf. Þá verður vikið að stöðu trúarbragða og trúarhreyfinga á tímum fjölmenningar og margbreytileika og rætt um fjölhyggju og samskipti einstaklinga og hópa með ólíkan menningarlegan og trúarlegan bakgrunn, umburðarlyndi og fordóma.
Vinnulag: Námskeiðið byggist á stuttum fyrirlestrum, umræðum og verkefnavinnu.
Listin að skapa tónlist (LVG009G)
Markmið námskeiðsins er að efla þekkingu og færni í notkun fjölbreyttra aðferða til að stuðla að tónlistarsköpun barna og ungmenna í námi og frístundastarfi.
Viðfangsefni
Nemendur læra fjölbreyttar leiðir til að setja saman laglínur og lítil tónverk. Nemendur fræðast um helstu form og stíla í tónsmíðum og tengi það m.a. eigin nýsköpun í tónlist.
Vinnulag
Áhersla á verklegar æfingar, spuna og samvinnu.
Hugmynda- og hönnunarvinna (LVG005M)
Lögð er áhersla á hugmynda- og hönnunarverkefni í tengslum við fatnað og textíl sem fléttað er sögu- og samtímalegri þróun. Áhersla er lögð á munsturgerð, liti og form, tískuteikningu, útlit og snið og tilraunir með textílaðferðir og textílhráefni. Unnin er skipulögð rannsóknarvinna við vinnuferlið frá gagnaöflun til úrvinnslu hugmyndar og hönnunar með nýsköpun að leiðarljósi. Lögð er áhersla á frágang og framsetningu verkefna í ferlilmöppu og til sýninga.
Hönnun og smíði leikfanga (LVG501G)
Markmið:
a) Að kenna almennan feril hönnunar;
b) Að hanna og smíða leikföng fyrir börn á ýmsum aldri;
c) Að þjálfa nemendur í þrívíddarhönnun.
Lýsing: Námskeiðið er hugsað fyrir nemendur sem vilja læra að hanna og smíða þroskaleikföng bæði fyrir kornabörn, leikskólabörn og börn í grunnskóla. Lögð er áhersla á gerð verkefna sem nemendur geta bæði nýtt í skólastarfi og í eigin lífi. Nemendur kynnast einnig hagnýtingu tölvustuddar hönnunar og framleiðslu við þróun verkefna. Unnið er með fjölbreytt smíðaefni. Námskeiðið hentar öllum þeim er vilja leggja áherslu á skapandi skólastarf, bæði innan list- og verkgreina, í almennu skólastarfi og í leikskóla.
Inntak / viðfangsefni
A. Hönnun leikfanga
a) Nemendur þurfa að hanna og teikna leikföng;
b) Nemendur læra að teikna í tölvu, málsetja vinnuteikningar og gefa þrívíðum hlutum efnisáferðir.
c) Kynnt verður tölvustudd framleiðsla og nokkur verkefni gerð í tölvustýrðum fræsara.
B. Smíði leikfanga
a) Nemendur hanna og smíða verkefni svo sem hreyfileikföng, spil og leikföng sem byggja á hagnýtingu einfaldra rafrænna lausna;
b) Lögð er áhersla á að þátttakendur noti fjölbreytt smíðaefni og náttúruleg yfirborðsefni;
Vinnulag: Fyrirlestrar, verkstæðisvinna í tölvu- og smíðastofu..
Sjónlistir (LVG403G)
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á tvívíðrar myndgerð og möguleikum hennar í skólastarfi. Nemendur þjálfast í grunnþáttum aðferða og hugmyndavinnu í tengslum við myndlist. Megin viðfangsefni námskeiðsins eru verkleg, hugmyndavinna og gerð ferilmöppu.
Lögð er áhersla á teikningu, lita- og formfræði, grafík-þrykk og mynsturgerð. Jafnframt fá nemendur nemendur að spreyta sig á verkefni í leir.
Fjölbreytileg efni eru notuð til útfærslu verkefna og lögð er áhersla á sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði nemanda.
Ferilmappa er lögð fram til mats en jafnfram skila nemendur inn hugleiðingum/umræðum í tengslum við safnaheimsóknir. .
Fyrirkomulag: Námskeiðið er kennt í 5 lotum og er mætingarskylda í þær allar.
Ath. nemendur kjörsviðsins Sjónlistir ganga fyrir við skráningu.
Að kenna um hreyfingu, krafta, orku og umhverfi (SNU008G)
Í þessu námskeiði verða þátttakendur búnir undir að kenna um hreyfingu, krafta og orku hugtök sem tengjast hreyfingu. Þetta er gert með því að styrkja bæði þekkingu nema á viðfangsefnunum og á kennsluhugmyndum sem þeim tengjast. Jafnframt verður skoðað hvernig fyrirbæri tengd þessum hugtökum birtast í manngerðu og náttúrulegu umhverfi. Áhersla verður lögð á að tengja viðfangsefnin við hugmyndir og reynslu þátttakenda. Fjallað verður um rannsóknir á hugmyndum barna og unglinga um viðfangsefnin og mögulegar leiðir til að tengja með kennslu þessi viðfangsefni við reynsluheim og hugmyndir barna og unglinga. Fjallað verður um kennslu náttúrufræðilegra viðfangsefna námskeiðsins, skoðaðar kennslubækur og verklegar athuganir. Náttúrufræðileg viðfangsefni námskeiðsins eru: Einföld áhöld og vélar, hraði, hröðun, kraftur, tregða, massi, lögmál um hreyfingu hluta, mismunandi kraftar svo sem þyngdarkraftar, togkraftar, núningskraftar, samlagning krafta, vinna, orka, afl, mismunandi orkuform svo sem hreyfiorka, þyngdarstöðuorka, fjaðurstöðuorka, umbreyting orku úr einu formi í annað, varðveisla orkunnar, nýtanleg orka, orka í náttúrunni, orka í samfélaginu.
Ævintýri, forysta og ígrundun: Undir berum himni (TÓS004M)
Áhersla er lögð á þverfaglega nálgun, samvinnu nemenda og kennara af ólíkum fræðasviðum. Vettvangur námsins er náttúra Íslands. Unnið með þrjú viðfangsefni þ.e. ígrundun, útilíf og sjálfbærni með áherslu á persónulegan- og faglega þroska þátttakenda.
Á námskeiðinu verður fjallað um tengsl manns og náttúru og ígrundun eigin upplifana. Kenndir verða og þjálfaðir þættir sem nauðsynlegt er að kunna skil á þegar ferðast er gangandi um óbyggðir. Fjallað verður um hugmyndafræði útilífs (friluftsliv) og hún sett í samhengi við samtímann.
Skipulag verður:
Undirbúningsdagur xx. maí 2025 kl 16-18.
Sameiginlega dagsferð xx. maí kl 9:00-17:00 (gengið á Skeggja á Hengilssvæðinu).
Ferðalag námskeiðsins er xx-xx. júní 2025 (fimmtudagur kl. 9 til sunnudags kl. 18). Farið verður út úr bænum, gist í tjöldum og ferðast gangandi um náttúru Íslands.
Nánari dagskrá kynnt xx. maí.
Ferðakostnaður er 12.000 kr. Auk þess greiða nemendur kostnað vegna fæðis.
Skyldumæting er í alla þætti námskeiðsins.
Staðartengd útimenntun (TÓS001M)
Á námskeiðinu ræður samfélag staðarins tilhögun námsins og við beitum reynslunámi þar sem nemendur upplifa „siglingar, strönd og arfleifð sjóferða“. Í staðartengdri útimenntun er unnið með námsferli sem grundvallað er á upplifun af sögum sem eiga rætur að rekja til ákveðins staðar; einstökum sögulegum staðreyndum, umhverfi, menningu, efnahag, bókmenntum og listum staðarins.
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur upplifi staðinn með öllum sínum skynfærunum og öðlist þannig tengsl við staðinn sem verða grunnur að þekkingarleit. Með því að tengjast staðnum og bregðast við honum þroska nemendur með sér dýpri skilning á einkennum staðarins, virðingu og vitund um hann. Gengið verður og siglt um undraheim staðarins, inn í fornar og nýjar sögur hans og nemendur velta fyrir sér framtíð staðarins.
Með þennan nýja skilning og viðmið að leiðarljósi munu nemendur kanna með fjölbreyttum hætti ýmis alþjóðleg vandamál, rétt umhverfisins, sjálfbærni og félagslegt réttlæti staðarins?
Nemendur eru hvattir til að beina sjónum sínum að samfélagi, sögum, menningu og hagsmunahópum og munu ýmsir sérfróðir aðilar taka þátt í kennslu á námskeiðinu ásamt kennurum. Nemendur upplifa staðartengda uppeldisfræði (e. pedagogy of place) bæði úti og inni að eigin raun og geta með því beitt henni í lífi og starfi.
Námskeiðið hefur verið þróað í samstarfi milli Háskóla Íslands og Outdoor Learning teymisins í Plymouth Marjon University í Bretlandi og er stutt af Siglingaklúbbnum Ými, Vatnasportmiðstöðinni Siglunesi, Sjóminjasafni Reykjavíkur og Sjávarklasanun.
Fæðis- og ferðakostnaður: 11.000 kr.
Vinnulag:
Námskeiðið byggir á virkri þátttök allra. Undirbúningsdagur er 26. júní kl. 16.30-18. Námskeiðið er dagana 7.-9. ágúst og 12.-14. 2024 og miðað er við kennslu allan daginn og við erum mjög mikið úti.
Námskeiðið fer fram mikið úti. Stefnt er að því að fara á sjó, upplifa fjöru og strandlengju, kynnast nýjum hliðum á Reykjavík og fara í Viðey og jafnvel Gróttu.
Eldur og ís – náttúruöflin, nám og upplifun (TÓS003M)
Á námskeiðinu er lögð áhersla á beina reynslu af náttúru Íslands og umfjöllun um náttúruvísindi með áherslu á eldfjalla- og jöklafræði; eld og ís. Námskeiðið hentar þeim sem skipuleggja náms- og vettvangsferðir í íslenska náttúru, s.s. þá sem starfa eða stefna á störf í skóla, á vettvangi frístunda eða ferðaþjónustu.
Aðstæður verða bæði nýttar til að til að rýna í menntunarfræðihugtökin útimenntun, náttúrutúlkun, ævimenntun og starfendafræðslu og ferðamálafræðihugtökin fjallaferðamennska, loftlagsferðamennska, vísindaferðaþjónusta og félagsleg ferðaþjónusta. Samhæfð félagsleg viðbrögð við náttúruhamförum og öryggismál verða einnig tekin til umfjöllunar.
Vettvangur námsins eru gosstöðvarnar á Reykjanesi og Breiðamerkursandur í Vatnajökulsþjóðgarði, sem gefur kost á að setja í samhengi sjálfbæra sambúð manns og náttúru með sérstakri áherslu á eldgos, jökla, loftlagsbreytingar, veðuröfgar, náttúruhamfarir og náttúruvá.
Kjarni námskeiðsins er ferðalag í fjóra daga 18. - 21. júní. Farið verður í rútu, gist á farfuglaheimilum og ferðast gangandi um náttúru Íslands. Þátttakendur sjá að hluta til um að elda sjálfir sameiginlegan mat og þurfa að vera búnir til útivistar. Unnið er á ígrundandi hátt með skynjun og upplifanir, auk þess að njóta þess að ferðast um með hæglátum hætti um náttúruna. Undirbúningsfundur er í 3. júní kl. 16-18.
Meginþættir námskeiðsins tengjast náttúru, menntun og ferðamennsku og þessa þætti er nálgast með ábyrgum og öruggan hætti. Viðfangsefni námskeiðsins verða skoðuð út frá hugtökunum kvika (dýnamík), fjölbreytni (e. diversity), gagnvirkni (e. interactivity) og, síðast en ekki síst, ferlar (e. processes) – og hvernig reynsla og ígrundun fléttar þessa þætti saman.
Kennsla og nám
Þverfræðilegur hópur sérfræðinga og kennara kemur að námskeiðinu og áhersla er lögð á að fá til liðs við okkur fagfólk af svæðunum þar sem markviss innlegg, samtal, skynjun og ígrundun þátttakenda er í fókus. Lært er frá morgni til kvölds og unnið með óljós skil á milli þess sem er að kenna og læra, milli þess að læra af umhverfinu, öðru fólki og ferðalaginu sjálfu.
Í námsmati er rík áhersla lögð á að nemendur ígrundi upplifanir sínar og setji þær í samhengi við fræðileg viðfangsefni námskeiðsins og fyrri reynslu. Einnig munu nemendur vinna verkefni þar sem tengja á viðgangsefni námskeiðsins, eigin reynslu og þekkingu við starf á vettvangi. Sá vettvangur getur t.d. verið innan skóla- og frístundastarfs, félagsmála, ferðaþjónustu eða rannsókna.
Námskeiðið er þróunarverkefni þeirra aðila sem að því koma, sem eru m.a. Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Rannsóknasetur HÍ á Hornafirði og Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.