Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 8. september 2022

9/2022

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2022, fimmtudaginn 8. september var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 9.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Brynhildur Ásgeirsdóttir, Davíð Þorláksson, Hólmfríður Garðarsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson (varamaður fyrir Þorvald Ingvarsson), Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Atladóttir (á fjarfundi), Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára R. Ómarsdóttir og Vilborg Einarsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Ólafur Pétur Pálsson lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð dagskrárliða 3 og 6.

2.    Stefna og starfsemi Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir megindráttum í starfsemi Háskóla Íslands og fór yfir helstu atriði í stefnu skólans fyrir tímabilið 2021-2026. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði.

3.    Kjör varaforseta háskólaráðs, sbr. 4. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Fyrir fundinum lá tillaga rektors um að Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, fulltrúi tilnefndur af háskólaþingi, verði varaforseti núverandi háskólaráðs á starfstíma þess 1.7.2022-30.6.2024.
– Samþykkt samhljóða. Ólafur Pétur Pálsson tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

4.    Funda- og starfsáætlun háskólaráðs 2022-2023. Drög.
Rektor gerði grein fyrir framlögðum drögum að funda- og starfsáætlun háskólaráðs starfsárið 2022-2023. Fram kom m.a. að eitt viðamesta verkefnið í starfi Háskóla Íslands er áframhaldandi innleiðing og framkvæmd heildarstefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ26. Stefnan og fjárhagsramminn sem Háskóla Íslands er settur eru tvær mikilvægustu forsendur funda- og starfsáætlunar háskólaráðs og er því gert ráð fyrir að þær verði reglulega til umfjöllunar á fundum ráðsins. Málið var rætt og beindi rektor því til ráðsmanna að koma tillögum og ábendingum varðandi starfsáætlunina á framfæri við ritara ráðsins. Málið kemur til afgreiðslu á næsta fundi.

5.    Minnisblað um framkvæmd ábendinga nefndar háskólaráðs um störf ráðsins starfsárið 2021-2022, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins og fund þess 2. júní sl.
Á fundi háskólaráðs 2. júní sl. lagði nefnd um störf ráðsins, sbr. 10. gr. starfsreglna þess, fram álit, dags. 24. maí sl., um störf ráðsins starfsárið 2021-2022. Málið var rætt og tekið undir þær ábendingar sem settar eru fram í álitinu. Sameiginlegri stjórnsýslu var falið að fara yfir þær og undirbúa mögulega útfærslu og framkvæmd og lá minnisblað þar um fyrir fundinum. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma með minni háttar breytingu.

6.    Endurskoðunarnefnd háskólaráðs og skipun hennar.
Fyrir fundinum lá tillaga um skipun endurskoðunarnefndar háskólaráðs fyrir starfstíma núverandi ráðs 2022-2024.
– Samþykkt einróma. Endurskoðunarnefnd háskólaráðs 2022-2024 er skipuð þeim Ólafi Pétri Pálssyni, sem er formaður (fulltrúi tilnefndur af háskólaþingi í háskólaráði), Arnari Þór Mássyni, ráðgjafa og stjórnarformanni Marel hf., (fulltrúi tilnefndur af háskólaráði), og Katrínu Atladóttur, verkfræðingi (fulltrúi tilnefndur af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra). Með nefndinni starfar innri endurskoðandi Háskóla Íslands.
– Samþykkt einróma. Arnar Másson, Katrín Atladóttir og Ólafur Pétur Pálsson tóku ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Kaffihlé.

7.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a.    Rekstraryfirlit janúar-júní 2022.
Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um rekstur Háskóla Íslands á tímabilinu janúar-júní 2022. Rekstraryfirlit fyrir skólann í heild fyrstu sex mánuði ársins sýnir rekstrarhalla upp á 50 m.kr. Tekjur skólans fyrstu 6 mánuði ársins eru svipaðar og á sama tíma í fyrra. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum.

b.    Málefni tengd skýrslu Ríkisendurskoðunar frá desember 2021.
Rektor gerði grein fyrir ítrekuðum ábendingum Ríkisendurskoðunar, m.a. í skýrslu frá desember 2021, um að fjárveiting til Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands verði færð undir fjárveitingarlið Háskóla Íslands á fjárlögum. Málið var rætt og samþykkt að taka undir sjónarmið Ríkisendurskoðunar um að fjárveiting til Raunvísindastofnunar HÍ verði færð undir fjárveitingarlið Háskóla Íslands sem hluti af fjárveitingu til skólans og verði áfram eyrnamerkt rannsóknum þeirra fagsviða sem stofnunin sinnir. Með þessari breytingu verði tryggt að starfsfólk haldi sömu kjörum og réttindum og áður. Við Raunvísindastofnun HÍ og deildirnar sem í hlut eiga eru stundaðar grunnrannsóknir í fremstu röð á alþjóðavísu og leggur Háskóli Íslands þunga áherslu á að viðhalda þeirri stöðu og sækja fram.
– Hólmfríður Garðarsdóttir sat hjá.

Jenný Bára vék af fundi.

c.    Staða viðhaldsverkefna, þ.m.t. vegna vatnstjóns í byggingum í janúar 2021.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og gerði grein fyrir yfirliti um stöðu helstu viðhaldsverkefna vegna bygginga og lóðar Háskóla Íslands, sbr. samþykkt háskólaráðs 9. desember sl., þ.m.t. vegna vatnstjóns sem varð í nokkrum byggingum í janúar 2021. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum.

8.    Bókfærð mál
a.    Breyting á 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. reglna nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar. Breytingin sem rektor samþykkti f.h. háskólaráðs varðar fjölgun úr 15 í 16 við inntöku í meistaranám í talmeinafræði 2022-2023.

– Samþykkt.

b.    Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að breytingu á 89. gr. [Hagfræðideild] og 95. gr. [Viðskiptafræðideild] reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

c.    Breyting á heiti öryggis- og vinnuverndarstefnu Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

d.    Stefnu- og gæðaráð ásamt erindisbréfi, sbr. fund ráðsins 2. júní sl.
– Samþykkt.

e.    Tillögur að breytingum á reglum um ótímabundna ráðningu.
– Samþykkt.

f.    Nýr fulltrúi í kærunefnd um málefni nemenda.
– Samþykkt einróma. Bjarni Bessason, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, sem verið hefur varamaður í kærunefndinni, tekur sæti Hólmfríðar Garðarsdóttur, sem tekið hefur sæti í háskólaráði. Skipunin gildir til loka starfstíma núverandi nefndar í febrúar 2023. Ebba Þóra Hvannberg verður varamaður í stað Bjarna út starfstímann.

g.    Auglýsing um fyrirkomulag kennslu, prófa og námsmats við Háskóla Íslands háskólaárið 2022-2023.
– Samþykkt.

h.    Endurnýjaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs Færeyja.
– Staðfest.

i.    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
– Samþykkt einróma. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 1.9. 2022-31.8. 2026 verða þau Torfi H. Tulinius, prófessor við Íslensku- og menningardeild, Guðrún Þórhallsdóttir, dósent við Íslensku- og menningardeild, og Guðrún Dröfn Whitehead, lektor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.

9.    Mál til fróðleiks.
a.    Aðalfundur Fasteigna Háskóla Íslands ehf. 2022.
b.    Nýir sviðs- og deildarforsetar taka við og deildir fá ný nöfn.
c.    Tuttugu og þrjú fá framgang í starfi.
d.    Skýrsla Námsstjórnar um menntun framhaldsskólakennara fyrir háskólaárið 2021 til 2022.
e.    Fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Guðbrandsstofnunar á Hólum.
f.    Staða Háskóla Íslands á ShanghaiRanking matslistanum.
g.   Fjörutíu fá styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands.
h.   Heimsókn forseta Eystrasaltsríkjanna og fyrirlestur forseta Íslands 26. ágúst 2022.
i.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 30. ágúst 2022.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 11.45.