Skip to main content
29. ágúst 2022

Fjörutíu fá styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ

Fjörutíu fá styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjörutíu framúrskarandi námsmenn tóku í dag við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við athöfn í Hátíðasal skólans. Þeir koma úr 14 framhaldsskólum og hafa skráð sig til náms í nærri 30 mismunandi námsleiðir. 

Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta Háskóla Íslands hefur allt frá árinu 2008 veitt styrki til nýnema sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi. Styrkþegar frá upphafi eru yfir 400.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki í vor og hafa þær aldrei verið fleiri. Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs var mikill vandi á höndum en ákvað að þessu sinni að veita 40 nýnemum við Háskóla Íslands styrk. Þeir koma sem fyrr segir úr 14 framhaldskólum og í hópi þeirra eru 15 dúxar og semidúxar. Styrkupphæð hvers og eins nemur 375 þúsund krónum og heildarupphæð styrkjanna er því 15 milljónir króna. 

Styrkhafarnir eru: Alda Áslaug Unnardóttir, Aldís Elva Róbertsdóttir, Alfa Magdalena Birnir Jórunnardóttir, Anna Huyen Ngo, Bergdís Rúnarsdóttir, Catarina Martins Sousa Lima, Dagmar Íris Hafsteinsdóttir, Elísa Sverrisdóttir, Elma Karen Sigþórsdóttir, Emese Erzsébet Józsa, Freyr Víkingur Einarsson, Guðbjörg Viðja Pétursdóttir Biering, Guðrún Lilja Pálsdóttir, Hekla Dís Kristinsdóttir, Helga Margrét Ólafsdóttir, Helga Sveinsdóttir, Hildur Gunnarsdóttir, Hólmfríður Arna Steinsdóttir, Iðunn Björg Arnaldsdóttir, Katla Torfadóttir, Kári Hólmgrímsson, Klara Margrét Ívarsdóttir, Kristján Dagur Egilsson, Margrét Rán Rúnarsdóttir, Nanna Eggertsdóttir, Nína Steingerður Káradóttir, Oliver Sanchez, Óðinn Andrason, Ómar Ingi Halldórsson, Rán Kjartansdóttir, Roman Chudov, Sesselja Picchietti, Sigurbjörg Erla Pétursdóttir Biering, Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Silja Rún Sigurbjörnsdóttir, Sóley Kristín Harðardóttir, Stefán Árni Arnarsson, Stefán Þór Sigurðsson, Þorgerður Una Ólafsdóttir og Þórunn Arna Guðmundsdóttir.

Styrkirnir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands.

Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands í ár skipa Róbert Haraldsson, prófessor og sviðsstjóri kennslusviðs, sem er formaður, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.

Nánari upplýsingar um styrkhafana.

Fleiri myndir frá athöfninni

Styrkþegar úr Afreks- og hvatningarsjóði ásamt stjórn sjóðsins og rektor Háskóla Íslands.