Heimspeki | Háskóli Íslands Skip to main content

Heimspeki

Heimspeki

180 einingar - BA gráða

. . .

Heimspekin leitar skilnings á samhengi hlutanna í víðustu merkingu. Hún leitast við að greina hugtök og rök, túlka og skýra margvísleg álitamál, grundvallarspurningar og forsendur. Hún beitir fyrst og fremst rökræðunni til að varpa ljósi á þau vandamál sem tekist er á um.

Um námið

Nám til BA-prófs tekur þrjú ár og er samtals 180 einingar. Hægt að taka heimspeki sem aðalgrein til 180 eininga, sem aðalgrein til 120 eininga (og þá með annarri grein sem aukagrein) eða sem aukagrein til 60 eininga (með annarri grein sem aðalgrein).

Nánari upplýsingar um námið.

Inntökuskilyrði

Grunnnám

Íslenskt stúdentspróf eða sambærilegt próf frá erlendum skóla.

Sjáðu um hvað námið snýst

Umsagnir nemenda

Guðrún Eva Mínervudóttir
Tinna Jóhannsdóttir
Berglind Häsler
Andrés Ingi Jónsson
Vigdís Hafliðadóttir
Guðrún Eva Mínervudóttir, rithöfundur
BA í heimspeki

Nám í heimspeki við Háskóla Íslands er sönn menntun. Fullorðins. En sönn menntun veitir ekki einungis einhverja takmarkaða færni, heldur víkkar hugann og gerir okkur betur í stakk búin til að halda menntuninni áfram á eigin vegum eftir að formlegu námi er lokið. Ég fæ seint fullþakkað þeim kennurum og prófessorum sem gáfu af viskubrunnum sínum á þeim árum sem ég var nemandi við HÍ.

Tinna Jóhannsdóttir, framleiðandi
BA - í heimspeki

Ég hóf nám við lagadeild að loknu stúdentsprófi og stefndi að því að verða þjónn réttlætis og sanngirni. Það kom fljótt í ljós að lagadeildin var ekki vettvangurinn fyrir þær hugmyndir - að minnsta kosti ekki í mínu tilfelli - en fílan var eitthvað sem talaði beint inn í hjarta mitt. Um áramót söðlaði ég um, undir sterkum áhrifum Hjördísar Hákonardóttur og Eyjólfs Kjalars Emilssonar sem skiptu kennslunni í heimspekilegum forspjallsvísindum í lagadeild á milli sín haustið 1992, og hóf fullt nám í heimspeki.

Í heimspekinni lærði ég að hugsa. Með lestri, samtali, hlustun og leiðsögn frábærra heimspekinga við skólann lærði ég að efast og ég lærði að skilja og ég kynntist kjarnanum í sjálfri mér. Það hefur tekið mig áratugi að byggja upp stöðugt og áreiðanlegt samband við þennan sama kjarna og grunnur minn í heimspeki hefur gert mér kleift að þjóna honum af réttlæti og sanngirni, flesta daga. Heimspekileg nálgun á verkefnin sem á vegi mínum hafa orðið hefur jafnframt gert mig að betri samstarfs- og fagmanneskju, betri móður og félaga; leiðbeinanda og nemanda; betri einstaklingi, alla daga. Heimspekin er einfaldlega hagnýtasta nám sem ég hef stundað.

Berglind Häsler, frumkvöðull
BA - í heimspeki

Eftir að ég skráði mig í heimspeki árið 2003 var ég mikið spurð ,,og hvað ætlar þú að gera við þessa gráðu?” Ég hafði ekki svarið þá en ég var bara alveg heilluð af heimspeki eftir einn kúrs í MH og hef aldrei séð eftir að hafa látið hjartað ráða för. Námið reyndist svo skemmtilegra, gagnlegra og áhugaverðara en ég hafði gert mér vonir um. Kennararnir fylltu mig innblæstri daglega og smituðu ástríðu út frá fræðunum. Ég var samferða virkilega góðum hópi nemenda og á margar góðar minningar frá þessum tíma. Námið er mjög fjölbreytt og góð þjálfun í gagnrýnni hugsun og öguðum vinnubrögðum. Eftir útskrift vann ég í nokkur ár á fjölmiðlum, hef fengist við fjölbreytta verkefnastjórnun og hef í 10 ár rekið eigið fyrirtæki á sviði matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og tónlistar. BA-nám í heimspeki reyndist hinn besti grunnur að þeirri fjölbreyttu starfsreynslu sem ég bý að í dag.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður
BA - í heimspeki

Ég tók BA-próf í heimspeki við HÍ og hélt síðan náminu áfram í tvö ár við þýska háskóla. Eitt af því sem er rauður þráður í gegnum námið er æfing í að kynna sér ólíka afstöðu fólks til álitaefna, greina þá afstöðu með gagnrýnum hætti og mynda sér skoðun á þeim rökum sem liggja til grundvallar. Þetta einfalda verkfæri, kjarninn í gagnrýnni hugsun, hefur fylgt mér alla tíð síðan og hjálpað mér að skilja heiminn - hvort sem er í störfum mínum sem blaðamaður fljótlega eftir útskrift eða innan stjórnmálanna undanfarin ár. Svo er merkilegt hvernig sum verkefni fylgja manni árum saman, eins og t.d. að ég hafi greint orðræðu um aðskilnað ríkis og kirkju í BA-ritgerðinni minni fyrir 16 árum og sé í dag að sjálfur taka þátt í þeirri umræðu á vettvangi þingsins.

Vigdís Hafliðadóttir
BA - í heimspeki

Forréttindi er það orð sem kemur fyrst upp í hugann þegar ég hugsa um nám mitt í heimspeki við Háskóla Íslands. Greinin sjálf er í fyrsta lagi einstakega fjölbreytt og merkileg en þeir krefjandi og fallegu textar sem við lesum og kenningar sem við kynnumst öðlast aðra merkingu undir handleiðslu mjög hæfra kennara sem vinna við deildina.
Námið hefur haft mikil áhrif mig: tamið huga minn, gert mig víðsýnni, aukið umburðarlyndi mitt og gagnrýna hugsun svo fátt eitt sé nefnt sem hefur nýst mér vel við ýmis verkefni — hagnýt sem skapandi. Svo hefur það auðvitað líka bara verið skemmtilegt!

Mynd að ofan 
Texti vinstra megin 

Starfsmöguleikar

Heimspeki eflir greinandi og skapandi hugsun, veitir þjálfun í að ræða og skýra hugmyndir og skrifa ritgerðir. Heimspekin er líka að mörgu leyti persónulegri en aðrar fræðigreinar. Nemendur sem lagt hafa stund á heimspeki við Háskóla Íslands hafa haslað sér völl á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins. Heimspekinámið hefur meðal annars reynst ágætt veganesti fyrir ritstörf, blaðamennsku, störf í mennta- og menningarstofnunum, fyrirtækjum og stjórnmálum.

Texti hægra megin 

Dæmi um starfsvettvang

  • Ritstörf.
  • Fjölmiðlar.
  • Mennta- og menningarstofnanir.

Félagslíf

Nemendafélag heimspekinema heitir Soffía – Félag heimspekinema og hefur haft aðstöðu í Aðalbyggingu.

Samfélag nemenda á Hugvísindasviði.

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs er staðsett á 3. hæð í Aðalbyggingu Háskólans við Sæmundargötu 2. Skrifstofan er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 10:00–12:15 og 12:45–15:00 og á föstudögum frá kl. 10:00–12:15 og lokað eftir hádegi. Hægt er að nálgast upplýsingar í síma 525 4400 eða með tölvupósti á netfangið hug@hi.is.

Nemendur við Hugvísindasvið geta einnig nýtt sér þjónustuborð í Gimli auk þess sem athygli er vakin á þjónustuborði Háskólans á Háskólatorgi.