Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 2. apríl 2020

5/2020

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2020, fimmtudaginn 2. apríl var haldinn fjarfundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Benedikt Traustason, Einar Sveinbjörnsson, Guðrún Geirsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðustu tveggja funda (hefðbundins fundar 6. mars sl. og rafræns fundar 20. mars sl.) og hefðu þær því skoðast samþykktar og verið birtar á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Viðbrögð Háskóla Íslands vegna COVID-19 faraldursins og áhrif hans á starfsemi skólans.
Inn á fundinn komu þau Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri starfsmannasviðs, Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Rektor fór yfir viðbrögð Háskóla Íslands vegna COVID-19 faraldursins og áhrif hans á starfsemi skólans. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði. Róbert, Ragnhildur og Sigríður gerðu grein fyrir stöðu kennslu-, mannauðs- og húsnæðismála. Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson og fór yfir stöðu mála varðandi mögulegt sumarnám fyrir nýja nemendur sem orðið hafa fyrir atvinnumissi. Fulltrúar í háskólaráði lýstu ánægju með störf neyðarstjórnar Háskólans og viðbrögð Háskóla Íslands við þeirri fordæmalausu stöðu sem komið hefur upp vegna COVID-19 faraldursins.

Ragnhildur, Róbert, Sigríður og Daði Már viku af fundi.

3.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a)    Horfur í rekstri Háskóla Íslands.

Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og gerði grein fyrir mögulegum horfum í rekstri Háskóla Íslands á næstu misserum. Málið var rætt og svöruðu rektor og Guðmundur spurningum ráðsmanna.

Guðmundur vék af fundi.

4.    Nefnd um störf háskólaráðs, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Í 10. gr. starfsreglna háskólaráðs Háskóla Íslands segir að fyrir lok hvers starfsárs skuli ráðið taka saman greinargerð um störf sín á undangengnu starfsári og leggja mat á árangur og gera eftir atvikum tillögu til úrbóta. Háskólaráð skipar úr sínum röðum fjögurra manna nefnd sem annast matið og ritar greinargerðina. Í nefndinni er einn fulltrúi hvers hóps sem myndar háskólaráð, þ.e. einn fulltrúi háskólasamfélagsins, einn tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, einn valinn af háskólaráði og einn fulltrúi stúdenta. Varaforseti háskólaráðs er formaður nefndarinnar og situr hann jafnframt fyrir þann hóp sem hann er fulltrúi fyrir í ráðinu. Rektor bar upp tillögu um að nefndin verði skipuð þeim Ingibjörgu Gunnarsdóttur, varaforseta háskólaráðs og fulltrúa háskólasamfélagsins, Ásthildi Margréti Otharsdóttur, fulltrúa völdum af háskólaráði, Benedikt Traustasyni, fulltrúa stúdenta, og Einari Sveinbjörnssyni, fulltrúa mennta- og menningarmálaráðherra. Nefndin mun skila greinargerð sinni á fundi háskólaráðs í júní nk.
– Samþykkt einróma.

5.    Innri endurskoðun: Vinnustaðamenning og mannauðsmál innan Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi, og gerði grein fyrir skýrslu sinni um vinnustaðamenningu og mannauðsmál innan Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Ingunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Samþykkt einróma að beina skýrslunni til eftirfylgninefndar um tillögur og ábendingar innri endurskoðanda.

Ingunn vék af fundi.

6.    Niðurstöður viðhorfskannana meðal nemenda.
Inn á fundinn komu Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, og Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Guðbjörg Andrea gerði grein fyrir helstu niðurstöðum viðhorfskannana meðal nemenda. Málið var rætt og svöruðu Guðbjörg Andrea, Steinunn og Róbert spurningum ráðsmanna.

Steinunn, Guðbjörg Andrea og Róbert viku af fundi.

7.    Málefni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn kom Hilmar B. Janusson, forstjóri Genís og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Fór Hilmar yfir stöðu og horfur í málefnum Vísindagarða. Málið var rætt og svaraði Hilmar spurningum.

8.    Bókfærð mál.
a)    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands (RHnet) ehf.

– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands (Rhnet) ehf. eru þau Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, og Þórður Kristinsson, ráðgjafi rektors. Varafulltrúar eru: Fjóla Jónsdóttir, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Sigrún Nanna Karlsdóttir, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. Skipunartíminn er til eins árs.

b)    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf.
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf. eru Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands og sérfræðingur á skrifstofu rektors. Varafulltrúar eru: Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, og Hjálmtýr Hafsteinsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild.

c)    Frá rektor: Tillaga rektors um að sviðsstjóra kennslusviðs sé heimilt að rýmka umsóknarfresti í nám vegna háskólaársins 2020-2021.
– Samþykkt.

d)    Frá rektor: Ákvæði til bráðabirgða í 61. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 varðandi lokaeinkunnir í námi á vormisseri 2020.
– Samþykkt.

e)    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga um að fella niður fjöldatakmörkun í geislafræði háskólaárið 2019-2020, sbr. ákvörðun háskólaráðs 6. desember 2018.
– Samþykkt.

f)    Tillaga frá Miðstöð framhaldsnáms um verklagsreglur um rafræn skil doktorsritgerða, ásamt tillögu að breytingu á 54. og 70. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

9.    Mál til fróðleiks.
a)    Skipan tilnefningarnefndar um fulltrúa í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
b)    Bréf rektors til dómsmálaráðherra og til Útlendingastofnunar, dags. 10. mars sl., um ályktun háskólaráðs vegna verksamnings Háskóla Íslands og Útlendingastofnunar.
c)    Ungir framúrskarandi vísindamenn á leið til fundar við Nóbelsverðlaunahafa.
d)    Foreldrafærniúrræði fyrir flóttafólk.
e)    40 ára afmæli Listasafns Háskóla Íslands.
f)    Átta styrkir til nýdoktora.
g)    Nýr samfélagssjóður fyrir nemendur við Menntavísindasvið.
h)    Vísindamenn HÍ vinna spálíkan um þróun COVID-19 faraldursins.
i)    Stefán Hrafn Jónsson ráðinn forseti Félagsvísindasviðs.
j)    Ný bók um tíðni orða í tali barna.
k)    Aukinn aðgangur fyrir starfsmenn og nemendur HÍ að netnámskeiðum edX.
l)    Nemendur á Heilbrigðisvísindasviði aðstoða Almannavarnir vegna COVID-19.
m)    Heimsókn ytri matshóps á vegum Gæðaráðs til Háskóla Íslands 6.-8. október 2020.
n)    Fréttabréf Háskólavina, dags. apríl 2020.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.00.