Nýliðun í rannsóknum efld með styrkjum til átta nýdoktora | Háskóli Íslands Skip to main content
5. mars 2020

Nýliðun í rannsóknum efld með styrkjum til átta nýdoktora

""

Háskóli Íslands veitti á dögunum átta styrki úr Nýliðunarsjóði skólans til jafnmargra nýdoktora en styrkhafar eru frá öllum fræðasviðum skólans. Með þessu er Háskólinn að efla nýliðun í rannsóknum og styðja markvisst við unga rannsakendur en það er mikilvægur partur af stefnu skólans.

„Það er afar ánægjulegt að Háskóli Íslands sé aftur farinn að veita nýdoktorastyrki en þetta er annað árið í röð sem styrkjum er úthlutað til rannsóknaverkefna nýdoktora við skólann,“ segir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og nýsköpunar.

Nýdoktorar eru afar mikilvægir öllu rannsóknastarfi við háskóla, ekki síst grunnrannsóknum, en nýdoktor (postdoc) er starfsheiti vísindamanns við rannsóknastofnun sem hefur nýlega lokið doktorsprófi en hefur ekki fengið fasta stöðu sem akademískur starfsmaður. 

Gríðarlegur fjöldi umsókna

Gríðarlegur fjöldi mjög öflugra umsókna barst Nýliðunarsjóðnum að þessu sinni, eða alls 95, flestar frá Verkfræði- og náttúrvísindasviði. Margfalt fleiri umsóknir voru þannig metnar styrkhæfar en þær átta sem hlutu styrk að þessu sinni. Því má fullyrða að samkeppni um styrkveitingu hafi verið afar mikil að þessu sinni. 

Stjórn Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands var falið að annast mat og forgangsröðun umsóknanna og úthlutun styrkjanna. Umsóknirnar skiptust milli fræðasviða með eftirfarandi hætti:

Fræðasvið Fjöldi umsókna
Félagsvísindasvið 14
Heilbrigðisvísindasvið 17
Hugvísindasvið 25
Menntavísindasvið 5
Verkfræði- og náttúruvísindasvið 34
Samtals 95

Umsóknum var forgangsraðað eftir styrkhæfi þeirra í samræmi við þær kröfur sem fram komu í auglýsingu um styrkina. Að loknu faglegu mati samþykkti stjórnin einróma að veita styrk til þeirra átta umsækjenda sem urðu fremstir í forgangsröð. Eftirtalin vísindamenn hlutu styrk að þessu sinni:

Nafn Heiti Fræðasvið
Ásta Kristín Benediktsdóttir Dönsk áhrif og birtingarmyndir Kaupmannahafnar í íslenskum hinsegin bókmenntum Hugvísindasvið
Friðrik Freyr Gautason Holographic quantum field theories and the swampland Verkfrælði- og náttúruvísindasvið
Hannah Iona Reynolds Deciphering heat sources at time-variant geothermal areas Verkfræði- og náttúruvísindasvið
Matthew Roby  Models of sexual consent in the Old Norse-Icelandic romance tradition Hugvísindasvið
Noémie Boulanger-Lapointe  Impact of wild and domesticated herbivores on tundra ecosystems Verkfræði- og náttúruvísindasvið
Sunna Kristín Símonardóttir Fertility intentions and behaviour in Iceland  Félagsvísindasvið
Valborg Guðmundsdóttir  Proteogenomic prioritization of causal proteins for common diseases Heilbrigðisvísindasvið
Valgerður S. Bjarnadóttir Tekist á um framtíð og tilgang menntunar í ljósi alþjóðlegrar menntapólítískrar umræðu Menntavísindasvið

Háskóli Íslands óskar framangreindum vísindamönnum innilega til hamingju og óskar þeim jafnframt góðs gengis í verkefnunum framundan.