
Heilbrigðisgagnafræði
90 einingar - Grunndiplóma
Hefur þú áhuga á fjölbreyttu starfi innan heilbrigðiskerfisins? Viltu öðlast þekkingu á upplýsinga- og skjalastjórnun? Hefur þú áhuga á stuttu og hagnýtu námi? Hefurðu áhuga á meðhöndlun heilbrigðis- og persónuupplýsinga? Þá er nám í heilbrigðisgagnafræði spennandi kostur fyrir þig.

Um námið
Heilbrigðisgagnafræði er 90 eininga fræðilegt og starfstengt nám sem veitir réttindi til að starfa sem heilbrigðisgagnafræðingur.
Námið er skipulagt sem 60 eininga fræðilegt nám í hlutanámi í tvö ár og í framhaldi af því er 30 eininga starfsnám í 15 vikur og fer það fram á heilbrigðisstofnunum.

Fjölbreytt nám
Fyrirkomulag heilbrigðisgagnafræði er blandað og m.a. er notast við fjarnám með staðlotum. Starfsnám fer fram á Landspítala, heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum í Reykjavík og á landsbyggðinni.
Til að hefja nám skal umsækjandi hafa íslenskt stúdentspróf eða sambærilegt próf frá erlendum skóla. Þó er heimilt að taka nemendur inn í námið sem ekki uppfylla kröfuna um stúdentspróf (sbr. 47 gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009). Komi til fjöldatakmörkunar í námið njóta þeir sem lokið hafa stúdentsprófi forgangs.
Læknaritarar sem hafa löggildingu á starfsheiti sínu frá Embætti landlæknis og stefna á diplómanám í heilbrigðisgagnafræði frá HÍ geta sótt um að fá fyrra nám sitt metið sem hluta af náminu. Við það skal miðað að þeir ljúki að lágmarki 18 einingum af fræðilegu (bóklegu) námi í heilbrigðisgagnafræði: HGF101 Inngangur að heilbrigðisgagnafræði, 5 e., UPP101G Upplýsinga- og skjalastjórn hjá skipulagsheildum 5 e., UPP401G Upplýsingaöryggi, persónuvernd og rafræn vörsluútgáfa 5 e., HVS202G Inngangur í þverfræðileg heilbrigðisvísindi 1 e., HVS501M Þverfræðileg samvinna í heilbrigðisvísindum – heilbrigðisvísindadagur 2, 2 e..