Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 1. mars 2018

3/2018

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2018, fimmtudaginn 1. mars var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Eydís Blöndal (varamaður fyrir Þengil Björnsson), Guðrún Geirsdóttir, Orri Hauksson, Ragna Sigurðardóttir, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Ragna Árnadóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins. Fulltrúar stúdenta óskuðu eftir því að leggja fram bókun við lið 8d undir „bókfærðum málum“. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Stefán Hrafn Jónsson lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 8c undir „bókfærðum málum“ þar sem hann hefði tekið þátt í afgreiðslu málsins á vettvangi deildar. Guðrún Geirsdóttir lýsti sig vanhæfa til að taka þátt í afgreiðslu liðar 8b þar sem hún væri starfsmaður Menntavísindasviðs. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ að öðru leyti og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a)    Áætluð rekstrarniðurstaða Háskóla Íslands 2017.

Inn á fundinn komu Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Jenný gerði grein fyrir áætlaðri rekstrarniðurstöðu Háskóla Íslands 2017. Fram kom að gert er ráð fyrir að reksturinn verði í jafnvægi. Stefnt er að því að leggja ársreikning 2017 fram á næsta fundi.

b)    Vinna við endurskoðun reiknilíkans. Staða mála.
Daði Már gerði grein fyrir stöðu mála við endurskoðun reiknilíkans á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Við þá vinnu hefur m.a. verið skoðað fyrirkomulag fjármögnunar opinberra háskóla á öðrum Norðurlöndum og í Hollandi. Málið var rætt og svöruðu Daði Már og Jenný Bára spurningum fulltrúa í háskólaráði. Háskólaráð verður upplýst um framvindu málsins.

Daði Már og Jenný Bára viku af fundi.

c)    Niðurstöður endurskoðunarskýrslu ESB á þremur rannsóknaverkefnum úr FP7 áætlun ESB.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs. Halldór gerði grein fyrir stöðu mála varðandi viðbrögð við athugasemdum sem fram komu í endurskoðunarskýrslu ESB vegna þriggja rannsóknaverkefna. Málið var rætt og svaraði Halldór spurningum ráðsmanna. Háskóli Íslands hefur frest til 6. mars nk. til að skila inn greinargerð um málið.

Halldór vék af fundi.

3.    Framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021 og tillaga að ráðstöfun framlaga úr Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands 2018.
Inn á fundinn kom Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Steinunn Gestsdóttir gerði grein fyrir stöðu mála varðandi innleiðingu Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021 og tillögu um ráðstöfun framlaga úr Aldarafmælissjóði sem tekur mið af markmiðum stefnunnar. Róbert skýrði frá aðgerðum til að sporna við brotthvarfi nemenda úr námi. Málið var rætt og svöruðu Steinunn og Róbert spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Framlögð tillaga um ráðstöfun framlaga úr Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands 2018 samþykkt einróma.

Róbert og Tómas Þorvaldsson viku af fundi.

4.    #MeToo „Í skugga valdsins: konur í vísindum“. Framkomnar hugmyndir að viðbrögðum Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lágu drög að viðbrögðum Háskóla Íslands við #MeToo „Í skugga valdsins: konur í vísindum“. Guðbjörg Linda gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Viðbragðsáætlun Háskóla Íslands samþykkt einróma og rektor falið að fylgja framkvæmd hennar eftir.

5.    Drög að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2018-2020.
Inn á fundinn komu Hanna Ragnarsdóttir, formaður jafnréttisnefndar háskólaráðs og Sveinn Guðmundsson, starfandi jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands. Hanna gerði grein fyrir drögum að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands til ársins 2020. Málið var rætt og svöruðu þau Hanna og Sveinn spurningum.
– Samþykkt einróma að óska eftir umsögn fræðasviða, Félags prófessora við ríkisháskóla, Félags háskólakennara, Félags starfsfólks í stjórnsýslu, gæðanefndar, fjármálanefndar, kennslumálanefndar, vísindanefndar og Stúdentaráðs um drög að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2018-2020. Stefnt er að því að málið komi til afgreiðslu í háskólaráði á næsta fundi 12. apríl nk.

Hanna, Sveinn, Steinunn og Guðbjörg Linda viku af fundi.

6.    Aðgerðaáætlun stjórnvalda um máltækni. (Sjá einnig skýrslu starfshóps um stöðu og framtíð menntunar á sviði máltækni).
Eiríkur Rögnvaldsson gerði grein fyrir aðdraganda málsins, aðgerðaáætlun stjórnvalda um máltækni og samstarfi Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík um meistaranám í máltækni. Málið var rætt.

7.    Tillaga Félags- og mannvísindadeildar um kjör heiðursdoktors.
– Frestað. Mögulegt er að málið verði afgreitt með rafrænum hætti á milli funda.

8.    Bókfærð mál.
a)    Tillaga um framlengingu bráðabirgðaákvæðis um fyrirkomulag prófa á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.
– Samþykkt.

Stúdentar óskuðu eftir að eftirfarandi yrði fært til bókar:

„Tilraunaverkefni fór af stað á Verkfræði- og náttúruvísindasviði árið 2016 um upptöku sjúkra- og endurtekningarprófa í janúar, en áður voru slík próf tekin í maímánuði. Þykir fullrúum stúdenta miður að vinna við innleiðingu slíkra breytinga á hinum fræðasviðunum hafi ekki farið af stað af fullum krafti þegar jákvæðar niðurstöður tilraunaverkefnisins lágu fyrir. Fulltrúar nemenda leggja til að fundnar verði leiðir til að gera tilraunaverkefnið að meginreglu fyrir öll svið Háskólans, líkt og stjórn Verkfræði- og náttúruvísindasviðs hefur áður lagt fram, og að slík vinna dragist ekki um of.

Í samræmi við fyrirliggjandi beiðni stjórnar Verkfræði- og náttúruvísindasviðs leggja fulltrúar stúdenta í ráðinu til að 3. mgr. 56. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands verði breytt þannig að sjúkrapróf verði haldin í kjölfar almennra próftímabila í desember, janúar og maí. Að auki leggja fulltrúar stúdenta til að 2. mgr. 57. gr. reglna nr. 569/2009 verði breytt þannig að deildum verði heimilt að halda sérstök endurtökupróf í janúar. Þessi krafa nemenda er skýr. Þó um mikla vinnu sé að ræða fyrir fræðasviðin, stjórnsýslu þeirra og aðra starfsmenn telja fulltrúar nemenda þá vinnu þess virði, verði hún til þess að tryggja réttarstöðu nemenda.

Þá taka fulltrúar stúdenta í háskólaráði undir umsagnir sviðsráðs Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og NáttVerk, hagsmunasamtaka nemenda á sviðinu, um árangur verkefnisins. Sjúkra- og endurtökupróf í kjölfar haustprófa geta skipt sköpum fyrir nemendur sem reiða sig á námslán til framfærslu, auk þess sem slík próf geta gert nemendum kleift að brautskrást í febrúar veikist þeir eða nái ekki lokaprófi í lok haustannar.

Að lokum fagna fulltrúar stúdenta frumkvæði Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í málinu. Stjórn sviðsins hafði við framkvæmd tilraunaverkefnisins og eftirfylgni þess hagsmuni stúdenta að leiðarljósi. Fulltrúar stúdenta í háskólaráði eru því fylgjandi að verkefnið haldi áfram en hvetja jafnframt stjórnir annarra sviða til að taka upp slík verkefni með fullri aðkomu fulltrúa nemenda á hverju sviði fyrir sig.“

b)    Breyting á XIII. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og 11. gr. sömu reglna, vegna breytts deildafyrirkomulags á Menntavísindasviði og breyting á öðrum reglum er við eiga, nr. 319/2009 (um inntökuskilyrði) og nr. 501/2011 (meistaranám).
– Samþykkt.

c)    Tillaga Félagsvísindasviðs að breytingu á heiti Félags- og mannvísindadeildar í Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.
– Samþykkt.

d)    Reglur um niðurfellingu reglna nr. 572/2009 um Reiknistofnun Háskólans. Starfsemi Reiknistofnunar ásamt starfsfólki færist til upplýsingatæknisviðs í sameiginlegri stjórnsýslu Háskólans.
– Samþykkt.

e)    Stjórn Sjóðs Nielsar Dungal, prófessors.
– Samþykkt. Stjórnina skipa þau Bjarni Agnarsson, prófessor við Læknadeild, formaður, Ingileif Jónsdóttir, prófessor við Læknadeild og Karl G. Kristinsson, prófessor við Læknadeild. Skipunartími stjórnarinnar er til næstu þriggja ára, þ.e. til 31. mars 2021.

f)    Fulltrúar í stjórn Keilis ehf.
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf. eru Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands og sérfræðingur á skrifstofu rektors. Varamenn eru Brynhildur Davíðsdóttir prófessor og Hjálmtýr Hafsteinsson dósent. Skipunartíminn er til eins árs.

g)    Fulltrúar í stjórn RHnets hf.
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn RHnets eru Anna Soffía Hauksdóttir prófessor, Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, og Þórður Kristinsson, ráðgjafi rektors. Varafulltrúar eru Fjóla Jónsdóttir prófessor, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu, og Sigrún Nanna Karlsdóttir dósent. Skipunartíminn er til eins árs.

h)    Breyting á orðfæri verklagsreglna um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni.
– Samþykkt.

i)    Breyting á reglum um inntöku nemenda í hjúkrunarfræði og Lagadeild.
– Samþykkt.

j)    Breyting á reglum um nám í tæknifræði.
– Samþykkt.

9.    Mál til fróðleiks.
a)    Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Háskólabíói 24. febrúar 2018.
b)    Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, febrúar 2018.
c)    Úthlutun úr Tækjakaupasjóði 2018.
d)    „Segðu mér doktor“, ráðstefna um mikilvægi og ávinning doktorsnáms fyrir íslenskt samfélag. Dagskrá, ávarp og glærur Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, dags. 1. mars 2018.
e)    Umsögn Háskóla Íslands um tillögu til þingsályktunar um óháða faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.